Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Garðar og Bergur G. Gíslason. Garðar Gíslason hf. |
Númer | E-410 |
Lýsing | Garðar Gíslason var fæddur 14. júní 1876 að Þverá í Dalsminni, S-Þingeyjarsýslu og andaðist 11. febrúar 1959. Foreldar hans voru þau Gísli Jóhannes Ásmundsson fæddur í Rauðuskriðu í Þingeyjarsýslu (1841-1898) og Þorbjörg Olgeirsdóttir frá Garði í Fnjóskadal (1842-1923). Fimm af börnum þeirra komust upp þau: Auður, Ásmundur, Ingólfur, Haukur og Garðar.Garðar ólst upp hjá foreldrum sínum á Þverá. Fór sextán ára í Möðruvallaskóla þar sem hann nam í tvo vetur. 1894 var hann farkennari í Húnavatnssýslu og búðarþjónn á Blönduósi og síðan farkennari í tvo vetur á Húsavík og Akureyri. 1897 fékk hann verslunarstöðu hjá Magnúsi Sigurðssyni á Grund í Eyjafirði og var þar tvö ár. Fór 1899 til Englands, Danmerkur og Skotlands, þar sem hann vann við verslunarstörf, þar til hann stofnaði Heildverslun Garðars Gíslasonar í Edinborg 1901. Sumarið 1902 kom Garðar til Íslands og giftist, 13. ágúst, Þóru Sigfúsdóttur fæddri á Syðri-Varðgjá í Eyjafirði 1. október 1874, dáin 9. október 1937. Foreldrar hennar voru Sigfús Guðmundsson bóndi á Syðri-Varðgjá og Margrét Kristjánsdóttir (1844-1917) frá Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði. Garðar og Þóra fóru til Skotlands og settust að í Edinborg. Þar fór hann í samstarf við James Hay og stofnuðu þeir Umboðs- og heildverslun G. Gíslason og Hay. Börn þeirra voru: Þóra, Bergur (1907), Kristján og Margrét. Til Íslands fluttu þau 1909 og bjuggu fyrst á Hverfisgötu 30, síðan á Hverfisgötu 50 og svo á Laufásvegi. Meðan á síðari heimstyrjöldinni stóð settist Garðar Gíslason að í New York og stofnaði þar Garðar Gíslasons Ttrading Corporation. Seinni kona hans, 1943, var Josephine Rossel (Pina Rossel Gíslason). Garðar og Pina fluttu heim til Íslands 1958, en hún andaðist 1969. Bergur Garðarsson Gíslason fæddist í Leith í Skotlandi 6. nóvember 1907, lést 22. maí 2008. Foreldrar hans voru Garðar Gíslason og Þóra Sigfúsdóttir. Systkini hans voru þau Þóra, Kristján og Margrét. Hann lauk stúdentsprófi frá MR og verslunar- og iðnnámi i Bretlandi. Bergur kvæntist 14. sept. 1935 Ingibjörgu Jónsdóttur, fæddri 30. apríl 1915. Foreldrar hennar voru Ragnheiður Thorarensen og Jón Hjaltlín Sigurðsson. Dætur Bergs og Ingibjargar eru: Þóra (1938), Ragnheiður (1942), Gerður og Bergljót (1943) og Ása (1950). Hann fór snemma inni í fyrirtæki föður síns, var í Hull 2 ár og á aðalskrifstofunni frá 1930, en tók við framkvæmdastjórn árið 1940. Var í ráðgjafarnefnd um utanríkisverslun að tilhlutan Verslunarráðs og átti sæti í viðskiptasamninganefnd við Rússland. Í stjórn Innflytjendasambandsins í mörg ár og fulltrúi Félags íslenskra stórkaupmanna í Vöruskiptafélagi Íslands. Átti mikinn þátt í uppbyggingu Flugfélags íslands og var formaður stjórnar til 1945, varaformaður síðan. Í framkvæmdastjórn Árvakurs um margra ára skeið og í Flugráði í 12 ár. Einnig var hann í stjórn ýmissa samtaka. Á Íslandi var umboðs- og heildverslun Garðars Gíslasonar fyrst í svonefndu Herdísarhúsi við Austurstræti í Reykjavík og var hann fyrsti heildsali á Íslandi. 1905 var byggt hús á Hverfisgötu 30, fyrir starfsemina, sem síðar var selt og húsið Kaupangur við Lindargötu keypt fyrir skrifstofu og heildsölu. Garðar reisti vörugeymsluhúsið Skjaldborg, við Skúlagötu og flutti síðan alla starfsemi sína þangað og var þar til 1918 er hann keypti Hverfisgötu 4, þar sem heildverslun Garðars Gíslasonar var rekin síðan. Á árunum 1954-1958 var byggt stórhýsi á þeim stað. Garðar, og síðar Bergur, voru ræðismenn Brasilíu á Íslandi. |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-410 Garðar Gíslason (1876–1959) og Bergur G. Gíslason (1907-2008), Garðar Gíslason hf. (1901) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Fyrirtæki |
Útgáfuár | 2010 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | heildsala, Hverfisgata 30, Austurstræti, umboðsverslun, Brasilía |