Borgarskjalasafn afhendir Héraðsskjalasafni A-Húnvetninga skjöl

Sunnudaginn 12. maí 2013 afhenti Gréta Björg Sörensdóttir skjalavörður fyrir hönd Borgarskjalasafns Reykjavíkur Héraðsskjalasafni Austur-Húnavatnssýslu á Blöndósi fimm verslunarbækur frá verslun E. Sch. Thorsteinssons frá árunum 1927-1943. Það var Svala Runólfsdóttir héraðsskjalavörður sem tók á móti bókunum.

Verslunarbækurnar eru frá Verzlun Einars Scheving Thorsteinsson á Blönduósi og ná yfir árin 1927 og síðan 1941 til 1943 sem hér segir:

1. Höfuðbók nr. 4 fyrir árið 1927.

2. Tvær viðskiptamannabækur frá 1941-1942.

3. Tvær viðskiptamannabækur frá 1941-1943.

Það var Nita Helene Pálsson sem fann bækurnar í geymslu húss við Hringbraut og kom þeim á Borgarskjalasafn þar sem hún óskaði eftir því að þær yrðu varðveittar eða komið áfram á réttan stað.

Svala Runólfsdóttir héraðsskjalavörður var að vonum ánægð með afhendinguna og sagði að hún væri kærkomin viðbót við þau skjöl sem safnið varðveitir frá Verzlun E. Sch Thorsteinssonar nr. E.10.210.

Nitu Helene Pálsson er þakkað fyrir að hafa komið verslunarbókunum til Borgarskjalasafns og þannig bjargað sögu umræddrar verslunar frá glötun. Vakin er athygli á mikilvægi þess að almenningur kom með slíkt skjöl á næsta héraðsskjalasafn eins og Nita gerði, sem getur þá komið því áfram á viðeigandi stað.

Lista yfir héraðsskjalasöfnin er að finna á vefnum www.heradsskjalasafn.is

 SB