Borgarskjalasafn gerir brunabótavirðingar árin 1811-1981 aðgengilegar á vef

Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur nú gert aðgengilegt á vef sínum brunabótavirðingar húsa í Reykjavík allt frá árinu 1811 til ársins 1981 og er það um 29.000 síður. Um er að ræða stóran áfanga í því að gera heila skjalaflokka aðgengilega á vef, þannig að ekki sé þörf að á koma á safnið til að skoða frumskjölin heldur hægt að nálgast þau á neti.

Brunabótavirðingar húsa er vinsælt efni á Borgarskjalasafni og eru í þeim ótrúlega miklar heimildir um hús í Reykjavíkur áður fyrr. Þessi skjalaflokkur er mikið notaður af Reykvíkingum í tengslum við endurbætur húsa og samþykkt eldri íbúða.

Í virðingunum eru lýsingar á húsunum þegar þau voru byggt og oft lýsingar á þeim breytingum sem hafa verið gerðar á þeim. Þá er í lýsingunum gjarnan upplýsingar um heiti húsa, staðsetningu, byggingarár, byggingarefni, innra skipulag og stærri breytingar. Í eldri virðingunum eru oft lifandi lýsingar á húsunum að innan, til dæmis tekið fram hvort þau eru máluð eða veggfóðruð, gólfefni, hvort í húsinu sé vatnssalerni, kerlaugar, eldavélar og ofnar.

Frá 1811 voru sum hús í Reykjavík brunatryggð en hinn 14. febrúar 1874 var samþykkt sem tilskipun frumvarp um ábyrgð fyrir eldsvoða í Reykjavíkurkaupstað o.fl., og reglugerð sett samkvæmt henni nr. 30/1874, um ábyrgð Reykjavíkurkaupstaðar fyrir eldsvoða á húsum bæjarins. Skyldi þriðjungur áhættunnar vera á ábyrgð Reykjavíkurkaupstaðar, en tveir þriðju voru vátryggðir hjá ,,brunabótafélagi hinna dönsku kaupstaða". Eigendum torfbæja í Reykjavík var ekki skylt að tryggja þá, en til þess var þó heimild ef eigandinn óskaði.

Í tilskipunni koma fram að að öll timburhús og múrhús í Reykjavík skyldu vera brunatryggð samkvæmt mati og í kjölfarið tóku virðingarmenn út fasteignir þær sem átti að tryggja og gerðu á þeim lýsingar og mátu þær að verðgildi. Virðingar voru gerðar með reglulegu millibili og tiltekið sérstaklega ef breytingar eða viðbætur höfðu orðið á húsinu. Árið 1981 var hætt að gera virðingargjörð með þessum hætti.

Á undanförnum árum hefur Borgarskjalasafn Reykjavíkur staðið fyrir nokkrum átaksverkefnum í samvinnu við Vinnumálastofnun, þar sem allar lýsingabækur brunabótavirðinga fyrir hús í Reykjavík hafa verið ljósmyndaðar í þeim tilgangi að gera þær aðgengilegar á vefnum. Margar bókanna eru í slæmu ástandi og því sérstaklega mikilvægt að gera upplýsingarnar í þeim aðgengilegar á þennan hátt til að hlífa frumritunum. Tæplega þrjátíu þúsund síður voru ljósmyndaðar, ljósmyndirnar unnar og bækurnar gerðar aðgengilegar á vef í pdf formi. Hægt er að fletta í gegnum bækurnar á vef, hlaða niður hágæða útgáfu af hverri opnu fyrir sig sem PDF skrá og hlaða niður bókunum í heild sinni.

Ljósmyndun brunabótavirðinga húsa í Reykjavík er gott dæmi um hvað átaksverkefni hafa skilað miklum áþreifanlegum árangri til hagsbóta bæði fyrir þá sem verkefnin hafa unnið, borgarbúa og stofnunina sem þau tengjast.

Í tilefni af því að brunabótavirðingar húsa í Reykjavík eru nú aðgengilegar almenningi á vef, mun Borgarskjalasafn Reykjavíkur standa fyrir stuttu námskeiði í notkun heimildanna. Námskeiðin verða haldin í húsakynnum safnsins að Tryggvagötu 15, 3. hæð miðvikudaginn 5. júní 2013, kl. 14.00 og 15.30 og eru allir velkomnir á þau. Námskeiðin eru ókeypis en nauðsynlegt er að skrá sig á þau í síðasta lagi mánudaginn 3. júní á netfangið borgarskjalasafn@reykjavik.is eða með símtali á skrifstofutíma í númerið 4116060.

Sérstakur vefur um brunabótavirðingar:

http://www.borgarskjalasafn.is/Portaldata/21/brunabotavirdingar/index.html

Til að fara beint á brunavirðingar 1811-1953

Til að fara beint á brunavirðingar 1954-1981

Byggingarfulltrúi í samvinnu við skjalaver Höfðatorg hafa skannað teikningar af næstum öllum húsum í Reykjavík frá upphafi.

Skoða

Athugasemdir sendist borgarskjalasafn@reykjavik.is