Borgarskjalasafnið leitar eftir heimildum um byggingarsögu Hallgrímskirkju

Borgarskjalasafnið leitar eftir heimildum um byggingarsögu Hallgrímskirkju

Borgarskjalasafn Reykjavíkur undirbýr nú sögusýningu í Hallgrímskirkju í samstarfi við Hallgrímskirkju og Listvinafélag kirkjunnar í tilefni af 20 ára vígsluafmæli hennar 26. október nk. Markmið sýningarinnar er að rifja upp tilurð kirkjunnar og byggingarsögu í máli og myndum, en þegar hún var vígð 1986 hafði hún verið 41 ár í byggingu. Á sýningunni verður minnst einstakra þátta úr byggingarsögunni en ekki hvað síst hinnar miklu elju og fórnfýsi þeirra sem komu að byggingunni.

Í tilefni af sýningunni leitar Borgarskjalasafnið og Hallgrímskirkja eftir skjölum og ljósmyndum sem lýsa byggingu kirkjunnar og starfsemi. Sérstaklega er leitað eftir efni sem tengist árunum áður en hún var vígð. Starfsmenn Borgarskjalasafns hafa tök á að afrita þær myndir sem komið er með.

Sömuleiðis óskar Borgarskjalasafnið eftir að fá til varðveislu skjöl safnaðarstjórna, kvenfélaga eða bræðrafélaga kirkna í Reykjavík. Þar geta til dæmis verið um að ræða fundagerðarbækur, bréfasöfn, ljósmyndir, bókhaldsgögn bæklingar og fleira.

Þeir sem eru með efni sem gæti átt erindi til varðveislu á Borgarskjalasafni eða á sýninguna eru beðnir að hafa samband við Magnús Lyngdal Magnússon á Borgarskjalasafni, Tryggvagötu 15, 4. hæð, en safnið er opið virka daga kl. 10-16. Netfang Magnúsar er magnus.lyngdal.magnusson@reykjavik.is og sími 563-1779.