„Brenndu þetta snifsi að lestri loknum“

Héraðsskjalasafnið á Akureyri boðar til hádegisfyrirlestrar í veitingasalnum í húsi Héraðsskjalasafns/Amtsbókasafns í Brekkugötu 17 föstudaginn 10. apríl kl. 12:00 – 13:00. Þar mun Svanhildar Bogadóttur borgarskjalavörður í Reykjavík fjalla um mikilvægi þess að varðveita einkaskjöl kvenna til jafns við karla.

Einnig verða til sýnis nokkur skjöl kvenna sem varðveitt eru á Héraðsskjalasafninu á Akureyri og munu skjalaverðir gera þeim skil í stuttu máli og segja frá því hvað safnið hefur að geyma.

Veitingasala er á staðnum. Súpa, heimabakað brauð og kaffi á kr. 1000.

Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna árið 2015 tekur Héraðsskjalasafnið á Akureyri nú þátt í þjóðarátaki um söfnun á skjölum kvenna. Fyrir átakinu standa Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðskjalasafn Íslands, Borgarskjalasafn Reykjavíkur og héraðsskjalasöfnin í landinu.

Svo virðist vera að konum hafi ekki þótt jafn merkilegt og körlum hvað þær voru að fást við og skrifa um, því að skjöl kvenna hafa í mun minna mæli skilað sér inn á skjalasöfnin en skjöl karla. Því þykir sérstök ástæða til að hvetja fólk til að stuðla að varðveislu þeirra með því að koma þeim í örugga geymslu.  Það sem átt er við með skjölum eru t.d. bréf, dagbækur, póstkort, teikningar, kvæði, smásögur, ljósmyndir, ræður, erindi og ýmiss annar fróðleikur, eldri sem yngri.

Héraðsskjalasafnið á Akureyri er aðili að þessu söfnunarátaki og tekur sem fyrr við skjölum karla og kvenna úr öllum stéttum og á öllum aldri. Hægt er að koma skjölunum til safnsins að Brekkugötu 17 og/eða hafa samband með tölvupósti á netfangið herak@herak.is eða í síma 4601290.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur er sömuleiðis aðili að átakinu og tekur við skjölum virka daga kl. 10 til 16 í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, 3. hæð. Hægt er að hafa samband með tölvupósti á netfangið borgarskjalasafn@reykjavik.is eða í síma 411 6060.

Fyrirlestur Svanhildar er styrkur af Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.