Dýrgripir úr eigu fjölskyldu Hjörleifs Hjörleifssonar til sýnis í Borgarskjalasafni

Í hverri fjölskyldu er að finna skjöl sem segja má að séu dýrgripir hennar og eru oft geymd í bankahólfum, læstum hirslum eða falin á óvenjulegum stöðum.  Oft er um að ræða dýrmæt og falleg skjöl frá 19. öld.

Í Borgarskjalasafns stendur nú yfir sýning á skjölum úr einkaskjalasafni Hjörleifs Hjörleifssonar. Skjölin sem tengjast öll fjölskyldu Hjörleifs eru flest frá um 1900 og eru mörg þeirra glæsileg að útliti.

Meðal þess sem er til sýnis eru skírnarvottorð foreldra Hjörleifs, fallegur vitnisburður föður hans, Hjörleifs Þórðarsonar úr Flensborgarskólanum frá árinu 1896 og „borgarabréf“ Rafns Sigurðssonar skósmiðs, afa Hjörleifs frá árinu 1897.

Borgarskjalasafn vill ítreka það við einstaklinga, sem hafa í fórum sínum verðmæt skjöl, dagbækur eða önnur merkilegt gögn og langar til þess að koma þeim í örugga geymslu, að hafa samband við safnið. Hægt er að forvitnast um geymslu einkagagna með því að hafa samband við Val Frey Steinarsson á Borgarskjalasafni, Tryggvagötu 15, 3. hæð, Netfang Vals er valur.steinarsson@reykjavik.is og sími 563-1760. Einnig viljum við benda fólki á heimasíðuna okkar www.borgarskjalasafn.is

Sýningin er opin öllum frá 10-16. alla virka daga.