Glöggur starfsmaður Góða hirðisins finnur menningarverðmæti

Í morgun barst okkur skemmtilegt símtal frá starfsmanni Góða hirðisins. Sagði hann okkur að þeim hefði borist áhugaverð skjöl og pappírar úr dánarbúi og spurði hvort safnið hefði ekki einhvern áhuga á svona dóti.

Við héldum það nú og örkuðum í Góða Hirðinn að skoða herlegheitin og duttum heldur betur í lukkupottinn. Borgarskjalasafn er nú mun ríkara fyrir tilstilli þessa góða starfsmanns og eru þarna falleg bréf, ljóð, happdrættismiðar, póstkort og aragrúi af myndum sem sýna okkur nýja og dýpri mynd af lífinu í Reykjavík snemma á síðustu öld.

Við viljum endilega minna fólk á að hafa augun opin og hugsa til okkar þegar það fer í gegnum skjölin sín, foreldra sinna og forfeðra. Við getum komið á staðinn og metið efnið og sagt til um hvort þetta eigi heima á safninu eður ei.

Safnið verður betra með ykkar hjálp og sendum við hér með bestu þakkir til þessa samviskusama starfsmanns Góða hirðisins sem benti okkur á fjársjóð dagsins.