Nýr manntalsvefur eykur möguleika við leit að upplýsingum um forfeður

Laugardaginn 14. nóvember sl. opnaði mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir nýjan manntalsvef Þjóðskjalasafns Íslands við hátíðlega viðhöfn og var vefurinn jafnframt kynntur. Slóð vefsins er www.manntal.is.

Þessi  nýja gerð manntalsvefjar Þjóðskjalasafns birtir nú í fyrsta sinn stafræn afrit manntalanna 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1890, 1901og 1910. Áður hafa birst manntölin 1703, 1835 og 1870. Á vefnum er margir nýir leitarmöguleikar og spennandi að geta leitað eftir upplýsingum um líf forfeðra sinna á þennan hátt.

Mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir opnar formlega manntalsvef

Á opnu húsi á skjaladeginum 14. nóvember 2009: Frá vinstri Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra; Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður; Hrafn Sveinbjarnarson, héraðsskjalavörður í Kópavogi og Ólafur Ásgeirsson, þjóðskjalavörður.

Frá árinu 2001 hefur það verið forgangsverkefni Þjóðskjalasafns, á sviði stafrænnar miðlunar, að birta manntöl sem það varðveitir á netinu. Meginmarkmiðið er að auka aðgengi fólks að þessum mikilvægu heimildum og stuðla að aukinni notkun þeirra með því að gera almenningi og fræðimönnum kleift að leita með áður óþekktum hætti í þessu mikla gagnasafni.

Þessi fyrsta gerð hins nýja manntalsvefjar Þjóðskjalasafns birtir nú í fyrsta sinn stafræn afrit manntalanna 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1890, 1901og 1910. Áður hafa birst manntölin 1703, 1835 og 1870. Einungis hluti manntalanna 1901 og 1910 eru tilbúinn til birtingar en vonir standa til að þau verði birt í heild sinni hér innan árs. Upplýsingar úr Eyjafjarðar-, Þingeyjar- og Múlasýslum úr manntalinu 1870 glötuðust fyrir löngu er það því ekki heilt. Manntölin 1762, 1801, 1816 og 1880 bætast við á næstu misserum.

Manntalsvefurinn mun á næstu mánuðum og misserum vaxa með nýjum notkunarmöguleikum, nýju verkfærum til upplýsingaleitar verður bætt við. Stafrænar myndir af frumritum valdra manntala frá 18. og 19. öld verða settar á vefinn þegar safnið hefur tök á. Með þessum nýja vef verður eldri gerð manntalsvefjar Þjóðskjalasafns lögð niður. Yfirlestur og lagfæringar munu einnig vera viðvarandi verkefni. Miðað er við að hvert manntal sé að minnsta kosti prófað eða yfirlesið einu sinni.

Miðað er við að birta manntölin á netinu eins lík frumgerð þeirra og hægt er og skynsamlegt. Þannig verða manntalsupplýsingar ekki leiðréttar þótt aðrar heimildir sýni að upplýsingar í manntali séu rangar. Þess í stað er stefnt að því að notendur geti sent Þjóðskjalasafni leiðréttingar og athugasemdir, sem verði birtar á manntalsvefnum með einhverjum hætti.

Flest manntölin á vefnum eru skráð eftir hinum vélrituðu eintökum Þjóðskjalasafns en þó eru manntölin 1855, 1901, 1910 og 1920 skrifuð upp eftir frumskjölunum.

Flest íslensk manntöl eru einungis aðgengileg á lestrarsal Þjóðskjalasafns í Reykjavík og hjá nokkrum héraðsskjalasöfnum í afritum. Rafræn gerð manntalanna er forsenda nýrrar notkunar og vinnslu manntalsupplýsinga. Tölvutæk manntöl skapa fjölmarga nýja möguleika til rannsókna. Netbirting þeirra verður bylting í aðgengi að þessum menningarauði. Þannig verða þau almenningseign.

Taka skal fram að tölulegar upplýsingar, sem birtast á vef þessum, eru ekki „leiðréttar“ eins og opinberar tölur úr manntölum hafa hingað til verið birtar. Einstaklingar eru, svo dæmi sé tekið, stundum tvítaldir og þannig eru heildartölur úr manntölum sem hér birtast hærri en opinberar tölur segja til um.

Manntöl eru afar mikilsverðar heimildir og nýtast mörgum fræðigreinum að ekki sé nú talað um ættfræðirannsóknir. Sagnfræði, félagsfræði, landafræði, mannanafnafræði eru meðal greina sem nýta sér manntöl til rannsókna. Það hefur staðið rannsóknum fyrir þrifum að manntölin eru á margan hátt óaðgengileg eins og þau eru flest nú, föst í viðjum pappírs.

(upplýsingar frá Eiríki Guðmundssyni, sviðsstjóra Þjóðskjalasafns)