Rammíslenskur heimsborgari - sýning framlengd til 6. nóvember

Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur stendur nú yfir sýning um líf og störf Þórðar Björnssonar (1916-1993), fv. bæjarfulltrúa og ríkissaksóknara en safnið varðveitir einkaskjalasafn hans og fékk nýlega til varðveislu einstakt ferðabókasafn hans. Á sýningunni eru fágætar ferðabækur úr safni Þórðar en jafnframt skjöl úr skjalasafni hans sem og ljósmyndir. Þar gefur að líta allt frá leynilegum ástarmiðum, innblásnum ræðum og bréfum frá ungdómsárum Þórðar til formlegra tillagna borgarfulltrúans um hin ýmsu úrlausnarmál.

Má finna ótrúlegan samhljóm við mörg viðfangsefni nútíma stjórnmála svo sem umræður um sparnaðartillögur, orkumál, húsnæðis- og skipulagsmál og margt fleira. Skjalasafn Þórðar er gott dæmi um það hvernig einkaskjalasöfn sýna oft nýja og jafnvel óþekkta hlið á viðkomandi einstaklingi, eins og í tilviki Þórðar sem við þekkjum fyrst og fremst sem grandvaran og opinberan embættismann. Ekki má gleyma því að einkaskjalasöfn eru einnig afar mikilvæg heimild um samtímann hverju sinni.

Með því að skoða og bera saman einkaskjalasöfn sem ekki aðeins eru heimildir um viðkomandi persónu, fæst smám saman heildarmynd af því tímabili sem um ræðir og eru þau því afar mikilvægar heimildir fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar. Sýningin er framlengd til 6. nóvember og er hún opin á afgreiðslutíma safnsins kl. 10:00-16:00 alla virka daga í húsakynnum safnsins að Tryggvagötu 15, 3. hæð. Aðgangur er ókeypis.