Skjöl merkiskonu afhent til varðveislu á Borgarskjalsafn

Í dag, þriðjudag 21. apríl 2015, afhenti Hildur Sigurðardóttir skjalasafn ömmu sinnar Sigríðar Þórhildar Tómasdóttur. Við afhendinguna rifjaði Hildur upp minningar af ömmu sinni, vinkonum hennar og frænkum um leið og skjölin voru skoðuð og voru frásagnir hennar einkar lifandi og skemmtilegar, enda gleymdu starfsmenn sér við að skoða skjölin.

Skjalasafn Sigríðar Tómadóttur er fjölbreytt og einstaklega áhugavert og nær frá því snemma á tuttugustu öld og fram til um 1940. Í safninu eru meðal annars ferðaskilríki Sigríðar, giftingarleyfi, sendibréf, póstkort og ljósmyndir frá ýmsum tíma, sem lýsa vel lífi hennar sem ungrar stúlku og fjölskyldu hennar og fjölmörg fleiri skjöl. Í safninu er einnig áhugaverð handskrifuð uppskriftabók Sigríðar og er þetta ein fyrsta mataruppskriftabókin sem Borgarskjalasafn fær til varðveislu.

Sigríður Þórhildur Tómasdóttir fæddist 4. júlí 1899 og ólst upp í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Tómasar Helgasonar héraðslæknir og Sigríðar Thejll. Bróðir Sigríðar var Helgi Tómasson læknir. Eftir að faðir hennar lést 1904 fór hún í fóstur til ömmu sinnar, Þórhildar Tómasdóttur, Sæ mundssonar prests, ekkju Helga Hálfdánarsonar forstöðumanns prestaskólans. Þar ólst hún upp að Bankastræti 7 og Tjarnargötu 24 og fékk það veganesti sem títt var að veita stúlkum á fyrstu árum aldarinnar. Hún gekk í Kvennaskóla og lærði hannyrðir og hljóðfæraleik. Hún dvaldist í í Kaupmannahöfn árin 1922-1926, stundaði hjúkrunarnám og studdi við fjölskyldu bróður síns sem var þar einnig við nám. Hún þurfti að hverfa úr námi vegna veikinda.

Eftir að Sigríður snéri aftur til Íslands giftist hún árið 1933 Guðmundi Guðmundssyni veitingaþjóni og eignaðist með honum son, Sigurð Þóri píanóleikara og starfsmanni hjá heildverslun Kristjáns Skagfjörð. Þau Guðmundur slitu samvistum. Réðst Sigríður þá norður að Borðeyri og tók að sér heimili Lýðs Sæmundssonar vegna veikinda konu hans. Þar kynntist hún seinni manni sínum Þórarni Lýðssyni, sem lýst er sem einstökum öðlingsmanni og þjóðhagasmið. Reyndist hann Sigurði syni hennar sem besti faðir. Eftir 1940 fluttu þau hjón í Kópavog þar sem þau höfðu keypt lítinn sumarbústað. Þetta hús endurbætti Þórarinn og byggði við en Sigríður ræktaði garðinn utan húss og innan með sama hætti og hún gerði á síðara heimili þeirra að Hlíðartúni í Mosfellsbæ. Sigríður Tómasdóttir lést 9. maí 1990.

Borgarskjalasafn færir Hildi Sigurðardóttur og fjölskyldu hennar bestu þakkir fyrir að koma skjalasafni Sigríðar til varðveislu á Borgarskjalasafni. Slíkar heimildir eru fágætar og ómetanlegar. Mjög sennilegt að einhverjar af ljósmyndunum úr safni Sigríðar verði á sýningu Borgarskjalasafns í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar sem opnar 4. júní næstkomandi.

Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður

Texti byggður á:

Minningargrein um Sigríði sem lesa má hér:

Eggert Ásgeirsson skrifaði ættarsöguna í bók sem heitri Tómas Sæmundsson og Sigríður Þórðardóttir og má nálgast hana hér.

og frásögnum Hildar Sigurðardóttur, sem við færum bestu þakkir.