Þjóðarátak í söfnun á skjölum kvenna 2015

Í dag fimmtudag 19. mars 2015 var hrint af stað þjóðarátaki um söfnun á skjölum kvenna. Að átakinu standa Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðskjalasafn Íslands, Borgarskjalasafn Reykjavíkur ásamt héraðsskjalasöfnum um land allt.

Því miður er það staðreynd að skjöl kvenna skila sér síður inn á söfnin en skjöl karla og þykir söfnunum því tilhlýðilegt að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna með því að minna á mikilvægi þessara gagna og hvetja landsmenn til að stuðla að varðveislu þeirra með því að koma þeim í örugga geymslu.

Með skjölum er átt við bréf, dagbækur, handskrifaðar matreiðslubækur, póstkort, teikningar, ljósmyndir, kvæði, smásögur og ýmsan fróðleik sem vert er að halda upp á ásamt handritum sem voru í eigu kvenna. Slík skjöl geta veitt innsýn inn í líf einstaklinga og fjölskyldna þeirra en einnig varpa þau ljósi á sögu lands og þjóðar.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur tekur til varðveislu skjöl einstaklinga á öllum aldri, af öllum stéttum, frá öllum tímum. Ef þið hafið skjöl sem gætu átt erindi á safnið, vinsamlegast hafið samband með því að senda hér skilaboð, senda tölvupóst á borgarskjalasafn@reykjavik.is eða hafa samband í síma 411 6060.