Líf og störf

Inngangur

Líf Ólafs Thors mótaðist mjög af þeim jarðvegi sem hann spratt úr, þegar þjóðlífið allt hverfðist um það að gera Íslandi kleift að verða sjálfstætt ríki. Bjartsýni og framkvæmdagleði aldamótanna mótuðu fyrir lífstíð það æskufólk sem seinna var kallað aldamótakynslóðin. Ólafur er tólf ára þegar heimastjórnin tekur við af landshöfðingjadæminu 1904 og Íslandsbanki er stofnaður. Hann er 22 ára þegar Íslendingar taka samgöngur við útlönd í eigin hendur með stofnun Eimskipafélags Íslands, og 26 ára þegar Ísland verður fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku.

Æskuheimili Ólafs stóð í miðri þessari atburðarás, með einstökum umsvifum föður hans, Thors Jensens, á sviði verslunar, útgerðar og landbúnaðar. Ungur tekur Ólafur þátt í stofnun og rekstri útgerðarfélagsins Kveldúlfs ásamt föður sínum og bræðrum. Hann féllst á að taka sæti á lista Jóns Þorlákssonar fyrir alþingiskosningarnar 1921 þegar Jón náði kjöri á þing. Sjálfur tók Ólafur fyrst sæti á Alþingi fyrir Íhaldsflokkinn eftir aukakosningar í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1926 og sat samfellt á þingi til dauðadags 1964.

Ólafur Thors þótti hrífandi ræðuskörungur, fyndinn, hlýr og heillandi maður. Hann naut þess að vera í stöðugu sambandi við fjölda fólks og átti auðvelt með að umgangast hvern sem var. Hann notaði símann mikið, hafði meira að segja tvo síma á kontórnum sínum heima í Garðastræti 41, og talaði tímunum saman í símann. Hann var annálaður fyrir orðheppni og glettni, sem auðvelduðu honum að ná sambandi við fólk og leysa hnúta sem ella hefðu getað reynst erfiðir.

Hér verður gerð grein fyrir fjölskyldu Ólafs, uppvexti hans og ungdómsárum, þátttöku hans í atvinnulífi og stjórnmálum og loks brugðið upp svipmyndum af fjölskyldumanninum Ólafi.

Æskuár  Fjölskylda og vinir  Starfsævin