Foreldrar Ólafs Thors voru Thor Jensen (fæddur í Kaupmannahöfn 3. desember 1863; dáinn í Reykjavík 12. september 1947) og Margrét Þorbjörg Kristjánsdóttir (fædd 6. september 1867 í Hraunhöfn á Snæfellsnesi; dáin að Lágafelli 14. október 1945). Faðir Thors var húsameistari í Kaupmannahöfn og fjölskyldan var vel efnum búin, en missti allar eigur sínar í kjölfar dansk-prússneska stríðsins, þegar húsnæðismarkaðurinn í Kaupmannahöfn hrundi. Faðir Thors missti heilsuna skömmu síðar og lést meðan Thor var enn barnungur. Þá stóð ekkjan ein eftir með 11 börn. Thor var komið fyrir á heimavistarskóla fyrir fátæka drengi. Skólastjórinn áleit að drengurinn gæti átt framtíð fyrir sér við verslunarstörf og kom honum á námssamning hjá danska kaupmanninum Bryde á Borðeyri við Hrútafjörð árið 1879. Þannig atvikaðist það, að Thor Jensen kom til Íslands aðeins 15 ára gamall. Hann sneri aldrei aftur til Danmerkur nema sem gestur.
Á Borðeyri kynntist Thor ástinni í lífi sínu, Margréti Þorbjörgu Kristjánsdóttur. Hún var fátæk bóndadóttir frá Snæfellsnesi sem, eins og Thor, hafði misst föður sinn á unga aldri. Í kjölfarið var heimilið leyst upp og þær Margrét Þorbjörg og móðir hennar Steinunn Jónsdóttir fluttust norður að Borðeyri, þar sem þær áttu skyldmenni. Thor var 16 ára búðarsveinn þegar hann sá þessa stillilegu 12 ára stúlku í fyrsta sinn. Þau trúlofuðust á sumardaginn fyrsta 1883 og lifðu í einstaklega ástríku hjónabandi í tæp 60 ár.
Þegar námssamningi Thors á Borðeyri lauk, réði norski kaupmaðurinn Johan Lange hann sem verslunarstjóra sinn í Borgarnesi. Samhliða verslunarstörfunum rak Thor búskap fyrir eigin reikning á tveimur jörðum í Borgarfirði, Ánabrekku og Einarsnesi og efnaðist vel á því. Hann var um tíma fjárflesti bóndi á Íslandi. Ungu hjónunum farnaðist því vel í Borgarnesi og börnin komu hvert af öðru árin 1887, 1888, og 1890.
Ólafur var fjórða barn foreldra sinna og fæddist 19. janúar 1892 í Borgarnesi. Ólafur Tryggvason Noregskonungur hafði birst ljósmóður hansí draumi og sagt að hún myndi á þessu dægri taka á móti sveinbarni sem ætti að heita í höfuðið á sér. Þessum tilmælum var fylgt og drengurinn skírður Ólafur Tryggvason. Þótti honum vænt um nafnið þótt hann notaði það ekki sjálfur eftir að hann komst á fullorðinsár.
Margrét Þorbjörg lærði fljótt að reka mannmargt og erilsamt heimili. Strax í Borgarnesi var alvanalegt að milli fimmtán og tuttugu manns væru í mat hjá henni. Móðir hennar, systir og mágur bjuggu hjá þeim á þessum árum, auk verslunarpilta og aðstoðarmanna Thors. Viðskiptavinir og aðrir ferðalangar sem þurftu beina voru boðnir heim til verslunarstjórans. Börnin vöndust því strax að umgangast ókunnuga á heimilinu og hlusta á fjörugar samræður hinna fullorðnu.
Eftir 8 ár í Borgarnesi þar sem Thor hafði gengið allt í haginn, ákvað hann að stofna sitt eigið fyrirtæki. Fluttist hann með fjölskyldu sinni til Akraness, sem var snöggtum öflugri verslunarstaður en Borgarnes. Ólafur litli Tryggvason Jensen var þá tveggja ára gamall.
Á Akranesi rak Thor umfangsmikla verslun og útgerð á árunum 1894 til 1899. Jafnframt var hann með svokallaða „spekúlantaverslun“ um sunnan- og vestanvert landið á sumrin. Þetta var nokkurs konar farandverslun á skipum sem komu víða við, ekki síst í afskekktari byggðarlögðum. Í spekúlanta skipunum gátu bændur og sjómenn keypt alls kyns varning og selt afurðir sínar, fisk, kjöt, ull, dún o.þ.h. Spekúlantarnir buðu viðskiptavinunum iðulega ódýrari vörur og hagstæðari samninga en kaupmennirnir sem sátu á hinum rótgrónu verslunarstöðum. Thor var því löngum fjarverandi á sumrin. Börnin voru orðin sjö og fór elsti sonurinn, Richard, með föður sínum í þessar ferðir frá 9 ára aldri.
Thor Jensen var umsvifamikill á Akranessárunum og naut mikillar velgengni, en þurfti líka að þola áföll. Eftir að hafa misst þrjú skip í hafi og vörugeymslu í fárviðri fór svo að verslun hans var lýst gjaldþrota árið 1899.
Þetta var mikið áfall. Eigur Thors og Margrétar voru seldar á uppboði og fjölskyldan fluttist til Hafnarfjarðar. Þar bjuggu þau við kröpp kjör í tvö ár í svokölluðu Sívertsenshúsi, sem enn stendur í Hafnarfirði. Thor fékk íhlaupavinnu og reri þess á milli til fiskjar. Hann sagði síðar að þetta hefðu verið erfiðustu ár ævi sinnar, og hann íhugaði alvarlega að flytjast vestur um haf, eins og svo margir gerðu á þessum árum. En Margrét Þorbjörg tók þeim áformum fálega, og Thor hlustaði, þá eins og alltaf, grannt eftir því sem hún lagði til.
Ólafur Thors sagði í grein um móður sína: „Mamma var stundum fátæk, stundum rík af veraldlegum fjármunum, en hún var alltaf eins. Í Borgarnesi vorum við vel stæð eftir því sem þá tíðkaðist. Á Akranesi tapaði faðir minn öllu sínu og varð gjaldþrota. Mamma hafði þá sjö börn á örmunum. Samt tók hún fjóra skólapilta á heimilið og seldi þeim fæði og húsnæði. Við þurftum víst peninganna með. Pabbi hafði einhverja umsjón með höndum en reri jafnfram öðru hvoru til fiskjar. Það drýgði björgina.“[i]
Þrátt fyrir hrakfarirnar á Akranesi naut Thor velvildar og trausts sem ósérhlífinn og duglegur framkvæmdamaður. Ekki leið á löngu þar til hann kom fótunum undir sig á ný. Hann naut fulltingis öflugra útvegsbænda og byggingameistara þegar hann stofnaði verslunina Godthaab í Reykjavík 1901. Verslunin varð að vera á nafni Margrétar Þorbjargar, því enn hafði Thor ekki lokið skuldum eftir gjaldþrotið. Í byrjun verslaði hann einkum með veiðarfæri og byggingarefni. Rekstur Godthaab gekk vonum framar og fljótlega bættust matvara og vefnaðarvara við vöruúrvalið. Undirbúningur verslunarinnar var krefjandi og langt að fara gangandi milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, en hestana sína hafði hann orðið að selja. Thor var því sjaldan hjá fjölskyldunni haustið 1900. Um vorið 1901 fluttust Margrét Þorbjörg, móðir hennar Steinunn og börnin sjö til Reykjavíkur.
Thor hafði tekið á leigu Austurstræti 1, sem kallað var Veltan, undir verslunina, lagerinn, skrifstofur og fjölskylduna. Það var þröngt um hópinn þarna á loftinu, og verslunin stækkaði ört. Strax um sumarið var ljóst að hann þyrfti stærra húsnæði og tók Thor svokallað Biskupshús á leigu, en það stóð á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis. Verslunin var niðri en íbúð fjölskyldunnar á efri hæð. Brátt sá Thor að verslunin þyrfti allt húsið og fór að svipast um eftir öðru húsnæði fyrir fjölskylduna. Fyrir valinu varð Gamla Pósthúsið, sem stóð þar sem Hótel Borg er nú. Þetta hús er enn til, og stendur í Laugarási í Reykjavík.
Börnin voru orðin átta þegar Thor og Margrét Þorbjörg fluttu inn á nýja heimilið í Gamla Pósthúsinu á lokadaginn 11. maí 1902. Þann dag voru elstu börnin, Camilla og Richard fermd, en Margrét Þorbjörg, þá yngsta dóttirin, skírð. Á neðri hæð hússins voru skrifstofa Thors, eldhús, borðstofa og setustofur, en á efri hæð voru svefnherbergin, margir í hverju herbergi og tveir í hverju rúmi.
Sigurbjörn Þorkelsson kaupmaður í Vísi lýsti barnahópi Thors Jensens nýfluttum til Reykjavíkur í næsta hús við fyrirtæki sem hann vann hjá. Sigurbjörn var sjö árum eldri en Ólafur en veitti piltinum strax athygli og lýsir honum svo:
„Það var þó einkanlega einn þeirra bræðra, Ólafur, sem frá fyrstu kynnum vakti sérstaka athygli mína. Framkoma hans við félaga sína í leik var einstök. Hann var hugaður sem ljón og sterkur vel, virtist aldrei skeyta um aldurs- eða aflsmun. .... Þótt hann virtist ofsareiður og neytti allrar orku til að sigra andstæðing sinn, var eins og öll reiði væri rokin út í veður og vind, þegar staðið var upp frá áflogunum eða glímunni, og það jafnt hvort sem hann hafði sigrað eða orðið undir í viðureigninni, en slíkt kom ósjaldan fyrir, því oft var hann að mun yngri en mótstöðumaðurinn. Og hitt brást aldrei, að Ólafur, að loknum átökum, rétti mótstöðumanni sínum höndina, rétt einsog þetta væri löggilt glíma á hösluðum velli. Þessi drengilegu viðbrögð Ólafs voru ekki jafntíð hjá öðrum drengjum þótt ekki væru þau einsdæmi.“[ii]
Algengt var að senda börn í sveit á sumrin og létti það mjög undir með konum í kaupstöðum sem voru með þung heimili og stóran barnahóp. Ólafur var níu ára þegar hann fór í sveit í fyrsta sinn og þótti honum það engin sæluvist. Þegar hann var kominn á miðjan aldur lýsti hann reynslu sinni í bréfi til Mörtu dóttur sinnar, sem þá var 18 ára. Þar segist honum svo frá: „ Ég veit ekki hvort ég hefi sagt þér hve mikill ræfill ég var í æsku, og raunar fram eftir öllum aldri. Fyrst þegar ég fór að heiman, 9 ára, lét ég að vísu sem mér þætti gaman. En þegar á staðinn kom, - Höfn í Melasveit, - lést ég meiða mig bara til að geta öskrað úr mér roluháttinn. Mér leiddist hvern einasta dag alt sumarið. Einn búinn – eftir 59. Tveir – eftir 58, o.s.frv. Ég vildi vera 60 daga af því heima var gert ráð fyrir ég yrði minst 45. Þegar heim kom lést ég hafa skemt mér ágætlega, og næsta vor heimtaði ég að fá að fara aftur. Svona eru margir kapítular lífsins hjá öllum. Life is a matter of appearance. Það er djúpur og merkilegur sannleikur, sem áríðandi er að skilja. Sá sem kemur sér upp á rolugang verður rola, sá sem þykist vera kappi, verður kappi. Hvort tveggja með vissri misvisnings Procentu.“ [iii]
Nokkrum árum síðar, þegar Ólafur var 12 ára, var hann sendur til sumardvalar hjá móðurfólki sínu á kaupmannsheimili norður á Svalbarðseyri við Eyjafjörð. Þar undi hann sér vel og sagði síðar að þar hefði hann fyrst lært að meta ljóð Hannesar Hafstein, sem hann hafði mikið dálæti á.
Ekki var mikið um skipulagt félagslíf barna í Reykjavík á þessum árum. Segja má að starfsemi KFUM hafi verið fyrsti vísir að slíku. Um það leyti sem Ólafur hafði aldur til að taka þátt í starfinu, 1904, var opnaður nýr og fallegur samkomusalur KFUM í Melsteðshúsi. Þarna komu ungir drengir saman undir stjórn síns góða vinar og andlega leiðtoga, sr. Friðriks Friðrikssonar, stofnanda KFUM. Mjög kært varð með þeim Ólafi og hélst sú vinátta meðan báðir lifðu.
Vorið sem Ólafur lauk barnaskólaprófi fylgdist lítil skólastúlka, Ingibjörg Indriðadóttir dóttir skrifstofustjórans í Stjórnarráðinu, með honum út um gluggann á Miðbæjarskólanum og lýsti honum svo: „Dag einn þegar ég leit út sá ég strák ganga fram hjá skólanum. Hann var á sauðskinnsskóm, grindhoraður og höfuðstór og með sixpensara. Hann hét Óli Jensen.“ Hún var tveimur árum yngri en hann og hann tók ekki eftir henni strax.
Þegar Ólafur var rétt innan við fermingu kynntist hann ungum, bókhneigðum menntaskólapilti, Guðmundi Jónssyni að nafni, sem hann dáði mjög og varð raunar hans besti vinur og helsti áhrifavaldur á þessum árum. Þótt Guðmundur væri fjórum árum eldri en Ólafur náðu þeir mjög vel saman og dvöldu sumarið 1905 hjá foreldrum Guðmundar að Bakka í Arnarfirði. Síðar bjó Guðmundur heima hjá Ólafi hluta úr vetri. Guðmundur tók upp ættarnafnið Kamban og varð eitt helsta leikskáld Íslendinga á fyrrihluta 20.aldar. Vinátta þeirra hélst fram á fullorðinsár og gaf Ólafur út fyrsta leikrit Kambans á íslensku, Höddu Pöddu. Guðmundur Kamban bjó lengst af í Kaupmannahöfn, og þar var hann myrtur í lok síðari heimsstyrjaldarinnar.
Eins og áður var heimili Thors og Margrétar Þorbjargar fjölmennt og erilsamt. Margrét Þorbjörg eignaðist 12 börn á innan við 20 árum og hafði í mörg horn að líta. Fullorðinn sagði Ólafur í grein um móður sína:
„Ef móðir mín hefði dáið meðan ég var innan við fermingu, held ég að ég mundi aðeins eiga af henni daufa mynd af einhverju góðu, sem alltaf hjálpaði okkur öllum, þegar eitthvað bar út af. Ég held hún hafi verið fremur spör á blíðuatlot, eða kannski voru hlutirnir sem skipta þurfti í, bara of margir og annirnar of miklar. Víst er þó um það, að sá sem einhvers þurfti, hann fékk alltaf nóg. Og aldrei mælti hún styggðaryrði til neins okkar, hvað þá meir, og var þó tilefnið víst oft ærið. Ekkert lyf var til jafns við lófann á mömmu. Þegar hún var nærri var heldur enginn hræddur, heldur ekki þeir, sem kjarkminnstir voru. Hún var bjargið. ...Síðar, eftir að ég kynntist móður minni betur, sá hversu hún var manni sínum allt í öllu og skjól barna sinna, tengdabarna og barnabarna, og skildi hvers vegna allir dáðu hana og elskuðu, veit ég, að hefði hún fallið frá meðan ég var í æsku, mundu viðbrigðin hafa orðið sterkari í endurminningunni en sjálf viðkynningin. Ég held, að þá hefðum við systkinin orðið munaðarlaus. Faðir okkar hefði aldrei rétt við eftir það áfall og aldrei fengið notið hugmyndaauðs síns og athafnaþrár. Það hefði orðið kalt og dimmt á því heimili, líkt sem vetrarharkan á sveitabæ, þar sem orkuvélin molnar.“[iv]
Thor og Margrét Þorbjörg höfðu búið með fjölmenna fjölskyldu í þröngu húsnæði. Thor ákvað að ráða bót á því þegar „tók að nálgast 30 ára afmæli veru minnar á Íslandi, og ákvað ég að halda upp á það með því að leiða konu mína í ný húsakynni, sem ég teldi henni samboðin. Á fyrstu árum Godthaabsverslunarinnar hafði ég efnast svo vel, að ég taldi enga ástæðu til þess að skera neitt við nögl mér til þess að nýja húsið yrði vel úr garði gert.“[v] Thor keypti og lét ganga frá lóð sunnan við Fríkirkjuna, leggja að henni veg og aðrar lagnir. Hann kynnti sér bækur um húsagerð og fékk Einar Erlendsson arkitekt til að teikna húsið. Allur efniviður var pantaður að utan og ekkert til sparað. Í húsinu var bæði vatnslögn og raflýsing sem hvort tveggja var nýjung hér á landi. Að bakhlið hússins var hægt að aka með kol og aðföng og þar var stórt hestagerði og fjós fyrir þær mjólkurkýr sem voru til heimilisnota. Fríkirkjuvegur 11 var án efa glæsilegasta einbýlishús sem reist hafði verið á Íslandi.
Ólafur var 16 ára þegar fjölskyldan flutti inn á Fríkirkjuveg 11 þann 5. júní 1908. Mánuði síðar ól Margrét Þorbjörg síðasta barn þeirra Thors, Hilmar. Ólafur segir að móður sinni hafi þótt vænt um nýju húsakynnin, en kannski mest vegna þess að þar gat hún tekið á móti öllum hópnum sínum í einu.[vi] En meðan Thor var að kaupa húsgögn í nýja húsið milli viðskiptafunda í Kaupmannahöfn, hafði hann áhyggjur af því að hafa kannski verið of stórtækur: „Þótt ég sæi ekki eftir fénu sem til hússins hafði farið, man ég að það hvarflaði stundum að mér, þessar vikur í Höfn, að þarna hefði ég ef til vill verið of stórtækur. Ég fór að hugsa um, að hin stóru húsakynni gætu kannske orðið húsmóðurinni óþarflega erfið. Ég skrifaði henni einu sinni hálfgert afsökunarbréf út af þessu og bætti því við að svo færu börnin kannski öll frá okkur þegar tímar liðu, og þá sætum við eftir í þessu stóra húsi. Það er eins og vant er, sagði ég í bréfinu, stórhugurinn hefur hlaupið með mig. En þú hjálpar mér í gegnum þetta eins og allt annað.“[vii]
Amma Steinunn hafði verið hjá fjölskyldunni alla tíð. Hún var eins og friðarpunktur í erli dagsins, kenndi börnunum að lesa og draga til stafs og hún prjónaði allt sem prjóna þurfti á stóran barnahópinn. Steinunn var orðin blind þegar fjölskyldan flutti inn á Fríkirkjuveginn, en hún rataði brátt bæði hratt og örugglega um húsið. Börnin dáðust að því hvað hún var fljót að hlaupa niður stigana þótt hún væri sjónlaus.Ömmunni þótti gott að sitja úti á tröppum með prjónana sína í sólinni og á hverju kvöldi gekk hún út og bað Guð að blessa húsið og íbúa þess.
Ólafur var kominn í Menntaskólann þegar hann tók eftir skólasystur sinni, Imbu Indriðadóttur, og ákvað að bjóða henni á skólaballið í Menntaskólanum. Hún bað mömmu sína að elda góðan mat því hún þyrfti að bjóða strák í matinn sá héti Óli Jensen. Hann reyndist vera lítill dansherra, en henni fannst hann kátur og skemmtilegur og hún þáði boðið þegar hann bauð henni á skólaballið árið eftir.
Í tilhugalífinu voru Ingibjörg og Ólafur lítið hvort heima hjá öðru, en fóru oft út að ganga. „Við vorum alltaf úti að spásséra“ sagði Ingibjörg. Hún vandist því fljótt að taka þátt í þjóðmálaáhuga og athafnagleði Ólafs, því jafnvel á þessum rómantísku kvöldgöngum gat hann ekki á sér setið að tala um útgerð.[viii]
Ólafur var nánastur Kjartani af systkinum sínum á þessum árum. Á milli þeirra voru aðeins 2 ár og þeir fylgdust að gegnum alla æskuna. Þeir lærðu að stafa saman, og voru í sama bekk í Miðbæjarskólanum og Menntaskólanum í Reykjavík. Saman ætluðu þeir að stytta sér leið og lesa tvo bekki utanskóla eftir 4. bekk. Minna varð úr lestri en þeir höfðu ætlað og fór svo að þeir féllu báðir. Þeir luku stúdentsprófi árið eftir, 1912.
Um þetta leyti ákváðu synir Thors Jensens að taka upp ættarnafnið Thors. Faðir þeirra var almennt ekki kallaður Jensen heldur bara Thor og synirnir Thors-bræður. Richard varð fyrstur til að taka ættarnafnið formlega og fylgdu hinir bræðurnir allir í kjölfarið. Systurnar tóku hins vegar upp eftirnafn eiginmanna sinna eins og þá tíðkaðist.
Sama ár og Ólafur varð stúdent, stofnaði Thor Jensen ásamt elstu sonum sínum fjórum Richard, Ólafi, Kjartani og Hauki útgerðarfélagið Kveldúlf h.f. Á vegum hans höfðu Ólafur og Richard umsjón með síldarsöltun á Torfunefi við Akureyri sumarið eftir stúdentspróf, en um haustið sigldu þeir Kjartan til náms í Kaupmannahöfn. En framkvæmdir höfðu meira aðdráttarafl en skólaseta. Innan árs var Ólafur kominn heim á Fríkirkjuveginn og sneri sér alfarið að rekstri Kveldúlfs.
[i] Ólafur Thors: Hún var bjargið; í Móðir mín bls 76, útg. Bókfellsútgáfan h.f. Reykjavík 1949
[ii] Sigurbjörn Þorkelsson, Himneskt er að lifa, bls 364, útg. Prentsmiðjan Leiftur, Reykjavík 1966
[iii] Ólafur Thors bréf til Mörtu Thors í mars 1936
[iv] Ólafur Thors: Hún var bjargið; í Móðir mín bls 76, útg. Bókfellsútgáfan h.f. Reykjavík 1949
[v] Valtýr Stefánsson, Thor Jensen Minningar, Framkvæmdaár bls 26, útg. Bókfellsútgáfan h.f.,Reykjavík 1955
[vi] Ólafur Thors: Hún var bjargið; í Móðir mín bls 76, útg. Bókfellsútgáfan h.f. Reykjavík 1949
[vii] Valtýr Stefánsson, Thor Jensen Minningar, Framkvæmdaár bls 27, útg. Bókfellsútgáfan h.f. , Reykjavík 1955
[viii] Matthías Johannessen, Ólafur Thors Ævi og störf I, bls 55, útg. Almenna Bókafélagið, Reykjavík 1981