Fjölskylda og vinir

Fyrstu hjúskaparárin

Ólafur Thors og Ingibjörg Indriðadóttir gengu í hjónaband á afmælisdegi Thors Jensens þann 3. desember 1915. Þá var Ólafur 23 ára gamall og hafði í tvö ár verið framkvæmdastjóri í fjölskyldufyrirtækinu Kveldúlfi. Þetta var bræðrabrúðkaup, því Kjartan bróðir Ólafs og Ágústa Björnsdóttir giftu sig líka þennan dag. Þeir bræður höfðu alla tíð verið mjög nánir, og varð mikill samgangur milli heimila ungu hjónanna.

Kona Ólafs, Ingibjörg Indriðadóttir (fædd 21. ágúst 1894, dáin 5. ágúst 1988) kom úr listelskri fjölskyldu tónlistar- og leikhússfólks. Faðir hennar var Indriði Einarsson hagfræðingur, leikskáld og skrifstofustjóri í Stjórnarráði Íslands. Móðirin Marta María Guðjohnsen var mjög tónelsk, enda dóttir Péturs Guðjohnsens alþingismanns, dómorganista og forvígismanns tónlistarmenntunar á Íslandi á 19.öld. Leiklistin átti líka stóran þátt í heimilislífinu. Tvær systur Ingibjargar, Guðrún og Marta, voru leikkonur hjá Leikfélagi Reykjavíkur, og hin systkinin tóku þátt í uppfærslum eftir því sem þurfti. Heimilið að Tjarnargötu 3 var glaðvært og margir komu þar við á leið sinni um bæinn. Þannig var Ingibjörg alin upp við fjölbreyttar umræður, leiklist, fjölradda söng og hljóðfæraslátt.

Fyrsta heimili þeirra Ólafs og Ingibjargar var á annarri hæð hússins að Austurstræti 5, og þar fæddist frumburður þeirra 17. september 1916. Hann var skírður Thor Jensen í höfuðið á afa sínum, en alltaf kallaður Thorsi. Ungu hjónin bjuggu einnig um tíma í húsinu Ásbyrgi, á horni Kirkjustrætis og Tjarnargötu. Þetta var líflegt hús, því á jarðhæðinni var rekið kaffihús sem bauð upp á lifandi tónlist á kvöldin.

Í fjölskylduhúsinu við Grundarstíg

Árið 1918 fluttust þeir bræður Ólafur, Kjartan og Haukur í stórt nýbyggt hús að Grundarstíg 24. Fjölskyldurnar bjuggu hver á sinni hæð, en húsinu fylgdi stór lóð þar sem m.a. var hesthús bræðranna. Á Grundarstígnum var líflegt með þrjár barnmargar fjölskyldur, vinnukonur og hestarektor, og rétt neðan við túnfótinn bjuggu svo afinn og amman á Fríkirkjuvegi 11, en aðrir bræður og systur í næsta nágrenni. Á sunnudögum hittist fjölskyldan öll á Fríkirkjuveginum, systkinahópurinn með sína afkomendur. Þar voru margir Thorar og Margrétar Þorbjargir meðal barnabarnanna. Fjölskylduböndin voru sterk og samgangur mikill milli og innan kynslóða. Þarna voru landsins gagn og nauðsynjar rædd í þaula, enda þar saman komnir umsvifamiklir athafnamenn af mörgum sviðum þjóðlífsins.

Þann 28. mars 1918, um það leyti sem þau fluttu á Grundarstíginn, fæddist Ólafi og Ingibjörgu dóttir, sem skírð var Marta. Mjög kært varð með henni og Thorsa bróður hennar.

Starfið hjá Kveldúlfi var mjög erilsamt, og lítill vinnufriður á skrifstofunni þannig að Ólafur notaði oft tækifærið í hádegishléinu til að afgreiða mál og fór sjálfur ekki heim í mat fyrr en að ganga tvö. Þá hafði hann oftast misst matarlystina og borðaði næstum ekkert, en var í símanum allan matartímann. Hann hríðhoraðist á þessum árum og loks fyrirskipaði Halldór Hansen heimilislæknir fjölskyldunnar ákveðinn lágmarksfjölda hitaeininga á dag til að hann héldi heilsu.

Ólafur átti fáar frístundir með fjölskyldunni nema þegar hann fór út úr bænum. Fjölskyldan átti athvarf við Haffjarðará á Snæfellsnesi, sem Thor Jensen hafði keypt á árunum eftir 1909. Hann friðaði ána fyrir laxveiði í rúman áratug, en byggði þar tvö veiðihús 1920-21. Þar komu þeir feðgar oft saman á sumrin með fjölskyldum sínum og nutu útiveru í einstakri náttúrufegurð við laxveiðar og útreiðar. Þarna voru allar kynslóðir saman komnar og börnin tengdust hvert öðru, fjölskyldunni, og staðnum sterkum böndum. Gestkvæmt var við Haffjarðará. Sambandið var gott við bændurna í nágrenninu, og staðurinn líka kjörinn fyrir heimsóknir innlendra og erlendra viðskiptavina feðganna.

Haustið 1920 veiktist Thorsi litli oft af kvefi og kemur fram í bréfum Ólafs að hann hefur áhyggjur af heilsu barnsins. Í ársbyrjun 1921 elnaði Thorsa sóttin og lést hann úr heilahimnubólgu 10. febrúar. Þetta var mikið áfall sem fjölskyldan komst aldrei fyllilega yfir. Myndir af Thorsa prýddu alla tíð vegginn yfir skrifborði Ólafs á skrifstofu hans heima. Veikindi og andlát barnsins bar að þegar Ólafur stóð á þröskuldi stjórnmálaferils síns í framboði til Alþingis á lista Jóns Þorlákssonar. Má nærri geta hvílíkt álag þetta hefur verið – enda sýna myndir frá þessum tíma að Ólafi er mjög brugðið.

Með vaxandi þátttöku Ólafs í stjórnmálum breyttust heimilishagir mikið. Mjög gestkvæmt varð hjá þeim Ingibjörgu, einkum vegna þess að Ólafur bauð oft með sér heim í mat þeim sem hann þurfti að geta talað við í rólegheitum. Þetta átti ekki síst við í hádeginu. Á kvöldin vann hann lengi fram eftir uppi á skrifstofunni sinni, sem kölluð var kontór, og talaði þá tímunum saman í símann. Kristján Albertsson rithöfundur og náfrændi Ólafs segir: „fólk var viðstöðulaust að bera eitthvað undir hann, leita ráða hjá honum. Hann var afskaplega hjálpsamur maður, greiðvikinn að skrifa á víxla fyrir menn og ráða fram úr vandræðum þeirra, taka á sig áhyggjur þeirra. Hann lifði ákaflega ónæðissömu lífi alla ævi. Síminn stóð aldrei hjá honum“[1]

Fjölskyldan á Grundarstígnum stækkaði og Ingibjörg og Ólafur eignuðust þrjú börn á næstu árum. Thor fæddist 31.mars 1922, Ingibjörg 15. febrúar 1924 og Margrét Þorbjörg 16. janúar 1929.

Garðastræti 41

Um það leyti sem yngsta dóttirin fæddist var ákveðið að þau byggðu sitt eigið hús yfir fjölskylduna. Sigurður Guðmundsson arkitekt, sem var skólabróðir Ólafs úr Menntaskólanum, teiknaði fyrir þau hús að Garðastræti 41. Það var í svokölluðum fúnkisstíl og var tímamótaverk í íslenskri byggingarlist. Ólafur og Ingibjörg fluttust í Garðastræti 41 árið 1930 og bjuggu þar alla tíð síðan.

Garðastræti 41 var rúmgott hús og vel skipulagt. Á efri hæð voru 4 svefnherbergi, baðherbergi og kontór Ólafs sem sneri út í garðinn að Suðurgötu. Á húsinu var turnherbergi með stórkostlegu útsýni til allra átta. Á neðri hæðinni var eldhús, búr, borðstofa og tvær stofur. Í annarri þeirra var flygill Ingibjargar, en hún var mjög góður píanisti og sinnti píanóinu af alvöru. Í kjallaranum voru þvottahús og geymslur og íbúð fyrir stúlkurnar sem hjálpuðu til á heimilinu.

Húsinu fylgdi stór garður sem náði niður brekkuna að garði nágrannans við Suðurgötu. Á neðsta fletinum var stór og mikill matjurtagarður, en berjarunnar sem stóðu meðfram girðingunni allan hringinn gáfu af sér á þriðja hundrað lítra af berjum árlega, sem unga kynslóðin varð verulega leið á að tína á haustin – þótt þeim þætti sultan góð þegar upp var staðið.

Ólafur varði löngum stundum uppi á kontórnum, og þá oftast í símanum. Í glugganum stóðu tvö símtól sem glumdu til skiptis. Pétur Ottesen samherji Ólafs á þingi og aldavinur var heimagangur hjá þeim hjónum en mátti oft sætta sig við að bíða langtímum saman, ganga um gólf með Margréti litlu á arminum og jafnvel að gefa henni pela, á meðan Ólafur afgreiddi hvert málið á fætur öðru í símann. Telpan tengdist Pétri svo á þessum kvöldgöngum, að hún hélt að hann væri fóstra sín.

Gegnt skrifborði Ólafs á kontórnum var málverk Ásgríms Jónssonar af þeim manni sem Ólafur dáði öðrum fremur, Jóni Sigurðssyni, sjálfstæðishetju Íslendinga. Indriði tengdafaðir Ólafs hafði verið heimagangur hjá Jóni og konu hans Ingibjörgu, þegar hann var ungur námsmaður í Kaupmannahöfn. Frásagnir Indriða af heimilisbrag og háttum þeirra hjóna urðu til þess að Ólafi fannst nánast eins og hann hefði þekkt þau sjálfur.

Í næsta húsi bjó Pétur Magnússon lögfræðingur, æskuvinur Ólafs, ásamt konu sinni Ingibjörgu Guðmundsdóttur og stórum barnahópi. Þeir höfðu hist hjá afa og ömmu Péturs að Höfn í Melasveit og voru óaðskiljanlegir vinir alla tíð. Pétur varð þingmaður 1930 og varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1937 til æviloka 1948. Þeir Ólafur voru ákaflega samrýmdir og var Pétur helsti samstarfsmaður hans og ráðgjafi á þessum árum. Mat Ólafur glöggskyggni Péturs og skarpa dómgreind afar mikils.

Þótt Ólafur væri hrókur alls fagnaðar og virtist geta talað áreynslulaust við hvern sem var, var hann í raun feiminn. Hann færðist undan því að sækja opinberar veislur ef mögulegt var, og samherjar hans sögðu að það hefði ekki verið nokkur leið að koma honum heim á bæi í kosningaferðalögum. Ef hann var ekki beinlínis í vinnunni, þótti honum best að vera heima.

Ólafur átti fáar frístundir heima við. Bestu fjölskyldustundirnar voru því þegar hann komst út úr bænum. Þau Ingibjörg byggðu sér sumarbústað við Þingvallavatn árið 1945, sem þau kölluðu Elliða eftir fæðingarstað Margrétar Þorbjargar móður Ólafs. Ólafur lét strax leggja þangað síma frá Valhöll svo að hægt væri að ná í hann, og þannig gat hann leyft sér að skreppa austur á kvöldin eða um helgar þótt erill væri mikill.

Þótt líf Ólafs væri mjög erilsamt fram á síðustu stund, var hann náinn vinur barna sinna og nýtti vel þann tíma sem gafst til að ræða við þau – eða skrifast á við þau sem erlendis voru. Barnabörnin eiga góðar minningar um afa sem var þeim einstaklega hlýr, með sterka rödd og dimman hlátur. Honum fylgdi góð vindlalykt og vingjarnleg stríðni, og stundum tíkall ef eftir því var sótt.

Þrátt fyrir miklar annir, hafði Ólafur Thors einlægan áhuga á fólki og lét sig velferð þess varða. Hann hlustaði grannt á þann sem hann talaði við, var ráðhollur og reyndi að finna lausn á vanda hvers manns, var örlátur og gjafmildur. Hann var einstaklega virtur og vinsæll maður, ekki aðeins meðal samherja heldur og pólitískra andstæðinga.

 

 

[1] Matthías Johannessen, Ólafur Thors Ævi og störf I:bls 114, Almenna Bókafélagið 1981