Aðgengi að safninu

Einkaskjalasafn Ólafs Thors verður aðgengilegt til notkunar í lessal Borgarskjalasafns Reykjavíkur að uppfylltum neðangreindum skilyrðum:

a. Sá sem fær aðgang að skjölunum skal áður hafa undirritað yfirlýsingu þar sem hann heitir því að virða þagnarskyldu skv. skilmálum þessarar greinar.
b. Óheimilt er að skýra frá eða á annan hátt að miðla persónugreinanlegum upplýsingum um viðkvæm einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari og finna má í skjölum Ólafs Thors, nema sá samþykki sem í hlut á. Þetta bann felur niður þegar 80 ár eru liðin frá því gögnin urðu til.
c. Óheimilt er að taka út af safninu ljósrit, ljósmynd eða stafræna mynd af skjölum, hafi þau að geyma upplýsingar sem falla undir lið b, nema að sá sem í hlut á hafi samþykkt
opinbera birtingu upplýsinganna.
d. Nú brýtur lesandi ákvæði þessarar greinar af ásetningi eða gáleysi og má þá dæma hann til að greiða þeim sem upplýsingarnar varða bætur fyrir fjártjón og miska.

Ennfremur:
a. Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um safnið og gögn sem því eru afhent.
b. Notendur eru bundnir af ákvæðum höfundarlaga nr. 73/1972 og skulu upplýstir um ábyrgð þeirra varðandi höfundarrétt á þeim gögnum sem hér um ræðir.
c. Þá gilda reglur upplýsingalaga nr. 50/1996 um þau skjöl sem stafa af starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna. Kæruheimild samkvæmt þeim lögum er til úrskurðarnefndar um upplýsingamál smb. 14.gr laganna.
d. Að öðru leyti gilda almennar reglur laga nr. 50/1996 um aðgang að upplýsingum í varðveittum gögnum, hvaða gögn eru undanþegin upplýsingarétti, takmarkanir á
upplýsingarétti vegna einkahagsmuna og takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna, allt skv. II. kafla laganna.

Borgarskjalavörður skal fylgja sömu reglum og gilda um Borgarskjalasafnið um aðgang að skjölum og meðferð skjala í lestrarsal.

Sækja skal sérstaklega um aðgang að safninu og skal tilgreina nafn, kennitölu, heimilisfang, símanúmer, netfang, þá örk og öskju sem óskað er eftir aðgangi að og æskilegt er að tilgreint sé hver sé tilgangur rannsóknar. Hægt verður að fylla út sérstakt eyðublað á safninu eða senda beiðni á netfangið borgarskjalasafn@reykjavik.is. Öllum beiðnum um aðgang skal svara innan 14 daga.

Skjalaskrá og Ljósmyndaskrá.