Um Ólaf Thors

Ólafur Thors (1892-1964) var meðal helstu forystumanna í íslenskum stjórnmálum á 20. öld. Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins lengur en nokkur annar, frá 1934 til 1961, eða í 27 ár. Hann myndaði ríkisstjórn fimm sinnum auk þess að gegna embættum dómsmálaráðherra, atvinnu- málaráðherra, utanríkisráðherra, félagsmálaráðherra, sjávarútvegs- og iðnaðarmálaráðherra.

Ólafur Thors lét að sér kveða í atvinnulífinu frá unga aldri. Ásamt föður sínum og bræðrum stofnaði hann togaraútgerðarfélagið Kveldúlf 1912 og var einn af stjórnendum þess þar til hann ákvað að einbeita sér að stjórnmálum eftir að hann tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum 1934. Milli heimsstyrjaldanna var Kveldúlfur stærsta togarafélag í einkaeigu við Norður-Atlantshaf og stærsta útflutningsfyrirtæki fiskafurða á Íslandi. Ólafur Thors var fyrst kjörinn á þing 1926 og sat á þingi óslitið til 1964, en hann lést á gamlársdag það ár.

Um vefinn

Þessi vefsíða er helguð minningu Ólafs Thors og er henni ætlað að veita innsýn í líf hans og störf. Ræður Ólafs og greinar eru þungamiðjan, því þar talar hann sjálfur. Ólafur lét eftir sig safn skjala sem tengdasonur hans, Pétur Benediktsson, flokkaði og varðveitti. Til viðbótar við skjöl Ólafs er þar að finna önnur bréf og skjöl sem safninu hafa verið færð. Skjalasafnið hefur nú verið skráð rafrænt og er skjalaskrána að finna á vefsíðunni.

Í minningu foreldra sinna gefa Guðrún og Ólöf, dætur Mörtu Thors og Péturs Benediktssonar, Borgarskjalasafni Reykjavíkur skjöl Ólafs Thors til afnota og varðveislu, ásamt safni ljósmynda sem verður varðveitt á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Gjöfinni fylgir þessi vefsíða.

Guðrún Pétursdóttir ritstýrir vefsíðunni og hefur ásamt manni sínum Ólafi Hannibalssyni samið texta vefsíðunnar, þar sem annað er ekki tekið fram. Þau hafa einkum stuðst við bækurnar Thor Jensen eftir Valtý Stefánsson [1], Ævisaga Ólafs Thors eftir Matthías Johannessen [2], og Thorsararnir eftir Guðmund Magnússon [3].

Sérstakar þakkir fær Pétur Kr. Hafstein, en í kaflanum Ræður og greinar er að finna efni sem hann tók saman árið 1971. Í handriti Péturs er einnig að finna greinar og ræður samtímamanna um Ólaf Thors, sem birtast í kaflanum Ólafs Thors minnst.

Við þökkum öllum sem aðstoðuðu við gerð þessarar vefsíðu: ættingjum og vinum sem lögðu til myndir og skjöl eða aðstoðuðu á annan hátt; Guðmundi Magnússyni sagnfræðingi fyrir yfirlestur og ráðgjöf; Þorsteini Þorsteinssyni fyrir þýðingar, Borgarskjalasafni, Ljósmyndasafni og skrifstofu vefþróunar hjá Reykjavíkurborg fyrir aðstoð og vinnu við uppsetningu vefsins, Sambandi ungra sjálfstæðismanna og RÚV fyrir afnot af hljóðskrám og útvarpsdagskrá og Kvikmyndagerðinni Alvís fyrir afnot af kvikmynd um Ólaf Thors. Samtökum atvinnulífsins er þakkaður styrkur til verksins.

Síðast en ekki síst þökkum við Önnu Theódóru Rögnvaldsdóttur hennar mikla starf við undirbúning vefsíðunnar og gerð myndasagnanna Í foreldrahúsum, Fjölskylda og vinir og Starfsævin.

[1] Bókfellsútgáfan 1955

[2] Almenna Bókafélagið 1981

[3] Almenna Bókafélagið 2005

Líf og störf     Skjalaskrá     Áhugavert efni