Afgreiðsla og lesstofa

Afgreiðsla og lesstofa Borgarskjalasafns eru á 3. hæð Grófarhúss, Tryggvagötu 15 og er afgreiðslutími alla virka daga frá kl. 13-16.

Beinn sími afgreiðslu er 411-6050 hægt er að senda fyrirspurnir hér eða á netfangið okkar borgarskjalasafn@reykjavik.is.


Safnið er öllum opið og enginn aðgangseyrir er að því.

Tekið er gjald fyrir ljósritun skjala samkvæmt gjaldskrá.

 

Eftirfarandi reglur gilda um notkun skjala á lesstofu Borgarskjalasafns.


1. Óskað er eftir því að gestir riti við komu nöfn sín í gestabók safnsins sem liggur frammi. Gestum er bent á fataslá fyrir yfirhafnir. Gestir skulu snúa sér til skjalavarðar í afgreiðslu með fyrirspurnir sínar og hlíta fyrirmælum hans.


2. Óheimilt er að vera með töskur, poka og eigin bækur á borðum. Heimilt er að hafa á borðum skrifblokkir, pappír, minnisbækur og skriffæri. Æskilegt er að blýantur sé notaður í stað penna.


3. Notkun gsm síma er bönnuð á lesstofu. Ef gestir þurfa að tala í gsm síma er æskilegt að það sé gert lágstemmt frammi í afgreiðslunni eða í stigagangi.


4. Neysla matar og drykkjar er óheimil á lesstofu. Reykingar eru stranglega bannaðar innan veggja safnsins.


5. Gestir skulu hafa hljótt um sig og eru beðnir að valda ekki öðrum ónæði.


6. Bannað er að skrifa í bækur og skjöl eða merkja á nokkurn hátt. Óheimilt er að fylgja línum með fingri, penna- og blýantsoddi. Gögnin eru heldur ekki ætluð sem undirlag við lestur eða skriftir.


7. Ekki má láta bækur hvíla á borðbrún eða liggja í kjöltu sér. Slíkt veldur skemmdum á bókarkili eða blöðum þegar flett er. Skylt er að sýna fyllstu aðgát og tillitssemi í meðferð bóka og skjala og hafa hreinlæti og snyrtimennsku ætíð í heiðri.


8. Hver gestur fær að öllu jöfnu mest lánaðar 3 bækur, böggla eða öskjur í senn. Skjölum í skjalabögglum skal halda í sömu röð og þegar þeir eru afhentir.


9. Pantanir verða ekki afgreiddar eftir að hálftími er til lokunar. Gögnum skal skilað til skjalavarðar á lesstofu eigi síðar en 10 mínútum fyrir lokun.


10. Leita skal heimildar skjalavarðar fyrir ljósritun og skal hann almennt sjá um hana. Gjaldskrá fyrir ljósritun liggur frammi.


11. Við tilvitnanir í gögn fengin á Borgarskjalasafni, skal safnsins getið og vitnað í gögnin í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.


12. Sé ákvæða þessara ekki gætt, má neita viðkomandi mönnum um afnot af safninu.