Prófessor, borgarstjóri og sjálfstæðisbaráttan

Á námsárum sínum í Berlín og Kaupmannahöfn tók Bjarni að leggja drög að hinu mikla ritverki sínu Deildir Alþingis. Það er 459 bls. að stærð og gefið út sem fylgirit Árbókar Háskóla Íslands 1934 til 35 og 1935 til 36. Eins og sjá má af dagbókum Bjarna lagði hann gjarnan leið sína í alþingishúsið á sínum yngri árum og fylgdist með umræðum þar. Er ekki að efa, að þingseta föður hans hefur ýtt undir áhuga hans á störfum alþingis. Í formála Deilda Alþingis segir Bjarni, að Benedikt faðir sinn hafi ekki aðeins lesið prófarkir af ritinu, heldur hafi sér orðið til mikils gagns að ræða við hann um ýmis atriði varðandi framkvæmd réttarreglna á alþingi, en Benedikt var um skeið forseti neðri deildar alþingis.

Sumarið 1932 er Einar Arnórsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, skipaður dómari í hæstarétti. Þá lögðu prófessorar deildarinnar undir forystu Ólafs Lárussonar einróma til, að Bjarni yrði settur prófessor, eða frá 12. ágúst 1932, þegar hann var aðeins 24 ára gamall. Tók Bjarni við kennslugreinum Einars, stjórnlagafræði og réttarfari.

Baldur Möller, síðar náinn samstarfsmaður Bjarna í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, var nemandi Bjarna í lagadeildinni í sex vetur frá hausti 1933 til 1939. Hann segir, að Bjarni hafi haft hin bestu tök á kennslunni. Framsetning hans á efni hafi verið mjög skýr og málfar fast markað. Flutningurinn slíkur, að hann hafi haldið athygli nemendanna mjög vakandi og lítil hætta hafi verið á, að hugur þeirra reikaði frá efni því, sem um var fjallað. Þá segir Baldur:

„Það er alkunna að málhreimur Bjarna var nokkur sérstæður. Þann málblæ átti hann raunar sameiginlegan með bræðrum sínum, Sveini og Pétri, enda var hann kominn beina leið frá föður þeirra þó að hann væri trúlega fastast markaður hjá Bjarna. Við flutning úr kennarastóli voru þessi einkenni fremur styrkleiki en hitt, enda höfðu menn gjarnan þá tilfinningu, að Bjarni hamraði efnið í vitund nemenda. Kom þá að sjálfsögðu einnig til hin afburðaskýra framsetning….Bjarni var skapríkur maður svo sem kunnugt er og mótaði það viðmót hans nokkuð þannig að hann átti stutt í að verða hrjúfur ef honum mislíkaði. Þetta breyttist talsvert hin síðari ár og varð viðmót hans mildara. Nemendum gat staðið nokkur ótti af honum, og fremur skerpti það eftirtektina heldur en hitt.“[1]

Í janúar 1934, þegar Bjarni var 25 ára, hlaut hann kosningu í bæjarstjórn Reykjavíkur. Var það fyrir hvatningu ýmissa vina sinna úr hópi ungra sjálfstæðismanna, sem hann bauð sig fram til starfa í bæjarstjórn, þótt hugur hans sem stjórnlagafræðings og sérfræðings í málefnum alþingis hafi frekar staðið til setu á þingi.

Jón Þorláksson var borgarstjóri í Reykjavík, þegar Bjarni settist í bæjarstjórn. Við andlát Jóns árið 1935 tók Pétur Halldórsson við embætti borgarstjóra og sat í því til hausts 1940, þegar hann veiktist og var Bjarni þá settur í embættið og tók síðan við því 32 ára, 9. janúar 1941 að Pétri látnum.

Ísland var hernumið, þegar Bjarni varð borgarstjóri og tók lífið í Reykjavík mið af því. Eftir erfiðleika og atvinnuleysi kreppuáranna, tóku tekjur bæjarsjóðs að aukast og gjöld til atvinnubótavinnu og fátæktarframfærslu minnkuðu stórlega. Viðfangsefni borgarstjóra tóku að snúast um leiðir til að draga úr húsnæðisskorti og sporna gegn verðbólgu. Auk þess gátu samskipti við stjórnendur breska og síðar bandaríska herliðsins verið flókin og tímafrek.

Íbúum Reykjavíkur fjölgaði mjög á stríðsárunum og erlenda setuliðið tók til sinna afnota allmikið húsnæði í bænum. Lét Bjarni húsnæðisvandann mjög til sín taka.

Bjarni var kosinn þingmaður í kosningum 1942 og sat á alþingi alla sína borgarstjóratíð eftir það, eða þar til hann varð utanríkisráðherra 4. febrúar 1947.

Sem borgarstjóri var Bjarni allra manna stundvísastur og gerði miklar kröfur til sjálfs sín um vinnutíma og afköst, segir Birgir Ísleifur Gunnarsson, borgarstjóri og síðar ráðherra og seðlabankastjóri, í grein um Bjarna og bætir við:

„Hann gerði einnig miklar kröfur til starfsmanna bæjarins, hafði fasta stjórn á því sem hann lét til sín taka en ekki afskiptasamur um dagleg störf starfsmanna borgarinnar.

Hann var snöggur upp á lagið ef honum mislíkaði einhverjar gerðir starfsmanna bæjarins og var ekki laust við að ýmsir forstöðumenn bæjarstofnana væru smeykir við hann og legðu sig því fram um að láta hlutina ekki fara úrskeiðis. Bjarni var fljótur til sátta ef hann reiddist mönnum og stundum leið honum ekki vel ef honum fannst eftir á að hann hefði ekki verið sanngjarn við menn.

Hann var fljótur að leiðrétta það sem honum fannst ranglega gert við menn og þá við starfsmenn bæjarins jafnt sem aðra borgara. Margir menn leituðu til Bjarna með ýmis erindi stór og smá eins og títt er um menn í slíkum stöðum. Bjarni var jafnan fljótur að segja mönnum af eða á hvort erindi þeirra gætu náð fram að ganga. Það orð lék og á að ef hann neitaði mönnum ekki þegar þá væru miklar líkur á að gangur málsins væri tryggður.“[2]

Hinn 1. apríl 1937, þegar Bjarni var 28 ára, flutti hann tillögu á fundi Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna, og Landsmálafélagsins Varðar, þar sem lagt er til að fundurinn „þakki sjáfstæðismönnum á Alþingi afstöðu þá, sem þeir hafa tekið í sjálfstæðismálinu með tillögum sínum þar, því að fundurinn lítur svo á, að sjálfsagt sé að slíta sambandinu við Dani að öllu leyti, þegar samningstímabilið er á enda [ í árslok 1943 samkvæmt sambandslögunum frá 1918].“

Í þessari ályktun, sem samþykkt var samhljóða, birtist afstaða Bjarna í sjálfstæðismálinu. Áður en gildistíma sambandslaganna lyki eða viðræður hæfust um endurskoðun þeirra, svo sem gert var ráð fyrir í lögunum, að gæti orðið eftir árslok 1940, hófst heimsstyrjöldin síðari. Þar sem íslenskum ráðamönnum var ljóst, að af henni gæti leitt, að Dönum yrði ómögulegt að annast þau málefni Íslendinga, sem gert var ráð fyrir í sambandslögunum frá 1918, höfðu Íslendingar í kyrrþey búið sig nokkuð undir að geta tekið að sér meðferð þessara mála. Á þetta reyndi, þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku hinn 9. apríl 1940. Þegar aðfaranótt 10. apríl samþykkti alþingi tvær ályktanir vegna þessa atburðar og samkvæmt þeim var ríkisstjórninni „að svo stöddu“ falin meðferð konungsvaldsins, og einnig tóku Íslendingar „að svo stöddu“ í sínar hendur meðferð utanríkismála sinna og landhelgisgæslu.

Bjarni var ríkisstjórninni mjög til ráðuneytis við lagalegan undirbúning þessara ákvarðana, enda prófessor í stjórnlagafræði við Háskóla Íslands. Færði hann rök fyrir þeim í ræðu og riti og má þar nefna grein í Andvara árið 1940: Sjálfstæði Íslands og atburðirnir vorið 1940.

Fyrri hluta árs 1941 reis um það ágreiningur hér á landi, hvort Íslendingar ættu að segja upp sambandslagasamningnum við Dani þá þegar og stofna lýðveldi á því ári eða enn um skyldi látið sitja við þá bráðabirgðaskipan, sem gerð var með ályktun alþingis vorið 1940, og neytt uppsagnarákvæðis sambandslaganna sjálfra. Að beiðni ráðherra Sjálfstæðisflokksins í þáverandi ríkisstjórn, Ólafs Thors og Jakobs Möllers, samdi Bjarni fræðilega álitsgerð til einhliða riftunar á sambandslagasamningnum, og var niðurstaða hans sú, að réttur Íslendinga til riftunar væri tvímælalaus. Höfuðatriði greinargerðarinnar birti Bjarni í Andvara 1941: Ályktanir Alþingis vorið 1941 um stjórnskipun og sjálfstæði Íslands.[3]

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á Þingvöllum 18. júní 1943 flutti Bjarni ræðu, sem síðan hefur verið gefin út undir fyrirsögninni Lýðveldi á Íslandi. Í formála útgáfu Almenna bókafélagsins á ræðunni frá því í desember 1970 segir Baldvin Tryggvason, þáverandi framkvæmdastjóri bókafélagsins:

„Þessi ræða, sem á sínum tíma hafði djúpstæð áhrif, má enn í dag vera mönnum minnistæð, og það á fleiri vegu en einn. Hún er flutt á örlagaríku lokaskeiði íslenzkrar sjálfstæðisbaráttu og flytur með sér sterkari andblæ þeirra eftirminnilegu daga en nokkur seinni tíma frásögn gæti gert. En um leið er hún einnig skilmerkileg heimild um dr. Bjarna Benediktsson sjálfan, bæði sem mann og þjóðarleiðtoga... Hann hafnar afdráttarlaust hvers konar úrtölum þeirra manna, er vildu slá stofnun lýðveldis á frest til styrjaldarloka, hrekur málflutning þeirra lið fyrir lið af skarpri dómgreind og afburðarökvísi. Og öll var ræðan borin fram af eldlegum sannfæringarkrafti þess manns, sem ann landi sínu umfram allt og hefur óbilandi trú á málstað þess. Það er vert að hafa í huga, að dr. Bjarni Benediktsson er aðeins 35 ára, þegar hann flytur þessa ræðu. En þá hefur hann reyndar um árabil verið kvaddur til ráða, þegar taka þurfti hinar mikilvægustu ákvarðanir um sjálfstæði Íslands.“

 

 

[1] Baldur Möller: Lagakennsla og dómsmálastjórn, Bjarni Benediktsson í augum samtíðarmanna, bls. 34.

[2] Birgir Ísleifur Gunnarsson: Borgarstjórn, Bjarni Benediktsson í augum samtíðarmanna, bls. 63 til 64.

[3] Í frásögnum af þessum atburðum 1940 og 1941 hefur verið stuðst við skýringatexta bókinni Land og lýðveldi I., sem geymir greinar og ræður Bjarna og Almenna bókafélagið gaf út undir ritstjórn Harðar Einarssonar, hrl., 1965,