Endurskoðun stjórnarskráarinnar 1947-1953

Árið 1942 kaus Alþingi fimm manna milliþinganefnd til þess að gera tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum vegna lýðveldisstofnunarinnar. Þegar því starfi lauk var nefndinni falið að starfa að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins frá 17. júní 1944. Vorið 1945 skipaði Alþingi 12 manna nefnd til þess að vera milliþinganefndinni til ráðgjafar og aðstoðar í stjórnarskrármálinu.

Þann 14. nóvember 1947 var skipuð ný sjö manna stjórnarskrárnefnd og féllu þá niður umboð fyrri nefnda. Í nefndina völdust Bjarni Benediktsson, Einar Olgeirsson, Gunnar Thoroddsen, Gylfi Þ. Gíslason, Halldór Kristjánsson, Jóhann Hafstein og Ólafur Jóhannesson. Vorið 1952 sagði Halldór Kristjánsson sig úr nefndinni og kom Karl Kristjánsson í hans stað. Á fundi stjórnarskrárnefndar 18. nóvember 1952 lagði formaður nefndarinnar, Bjarni Benediktsson, fram tillögur í tuttugu liðum um breytingar á stjórnarskránni sem gerðar höfðu verið af Bjarna, Gunnari Thoroddsen og Jóhanni Hafstein. Í ársbyrjun 1953 sagði Ólafur Jóhannesson sig úr nefndinni. Stuttu síðar lagði Karl Kristjánsson fram nýjar tillögur í stjórnarskrármálinu. Samstaða náðist hins vegar ekki í nefndinni um breytingar á stjórnskipun landsins og mun starfsemi hennar hafa lognast út af í kjölfarið.

(Heimild: „Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar“. Unnið að beiðni nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands (Desember 2005) http://www.stjornarskra.is)

Í einkaskjalasafni Bjarna gefur meðal annars að líta fundargerðir stjórnarskrárnefndar árið 1948. Þar er einnig vélritað uppkast með breytingartillögum Bjarna Benediktssonar, Gunnars Thoroddsen og Jóhanns Hafstein að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands ásamt handskrifuðum athugasemdum. Einnig er um að ræða nafnlaust uppkast er varðar tillögur í stjórnarskrármálinu, ásamt greinargerð. Enn fremur hefur safnið að geyma athyglisvert skjal frá mannréttindanefnd þar sem meðal annars er lagt til að jafnrétti kynjanna verði tryggt í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þar kemur fram að Auður Auðuns og Elísabet Eiríksdóttir voru á meðal fjögurra nefndarmanna.

Fundargerðir stjórnarskrárnefndar árið 1948, tillögur mannréttindanefndar og önnur skjöl sem snerta stjórnarskrármálið.

Tillögur um breytingar á stjórnarskrá Íslands frá 17. júní 1944, frá Bjarna Benediktssyni, Gunnari Thoroddsen og Jóhanni Hafstein.

Tillögur í stjórnarskrármálinu ásamt greinargerð. Höfunda er ekki getið.