Uppvaxtar - og námsár 1908-1935

Bjarni Benediktsson er fæddur 30. apríl árið 1908 að Skólavörðustíg 11A í Reykjavík. Þar bjuggu foreldrar hans, Guðrún Pétursdóttir frá Engey og Benedikt Sveinsson, alþingismaður og bókavörður, allan sinn búskap, rúm 50 ár. Þar fæddust sex systkini Bjarna: Sveinn, Pétur, Kristjana, Ragnhildur, Guðrún og Ólöf. Þau eru öll látin.

Á milli timburhússins númer 11A við Skólavörðustíg og tugthússins númer 9 stóð lítill steinbær. Á lóðinni var fjós fyrir 5 til 6 kýr og sambyggð hlaða og hesthús. Guðrún og Benedikt ráku aldrei neinn búskap, ef frá er talin rófna- og kálrækt og fyrr meir hæsnarækt til heimilisþarfa. Þau leigðu oft úthúsin, en fjósið var rifið laust eftir 1930. Eftir að steinbærinn og foreldrahús Bjarna voru rifin, reisti Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) höfuðstöðvar sínar á lóðinni. Þar er nú Eymundsson-bókaverslun.

Foreldrar Bjarna voru frændmörg og frændrækin. Var jafnan gestkvæmt á heimilinu ekki síst meðan Benedikt var þingmaður í Norður-Þingeyinga, sem hann var óslitið frá 1908 til 1931. Þau Guðrún og Benedikt voru bæði mjög áhugasöm um stjórnmál og reyndar fjölda annarra mála. Margt áhugamanna um landsmál komu á heimilið til skrafs og ráðagerða um margvísleg efni, en einkum þó um stjórnmál, sérstaklega sjálfstæðismálið bæði áður og eftir að það var til lykta leitt. Benedikt sagði konu sinni og börnum frá umræðum á þingi, las greinar sem hann var að skrifa.

Guðrún var ekki síður áhugasöm um þjóðmál en Benedikt. Hún saumaði bláhvíta fánann, sem vígður var á Þingvöllum 1907. Hún var ákaflega áhugasöm um kvenréttindi og menntun kvenna, var Guðrún meðal stofnenda Hins íslenska kvenfélags aðeins 16 ára gömul, Kvenréttindafélagsins og stóð að stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar. Sögðu börn hennar í gamni og alvöru, að henni væri ekkert mannlegt óviðkomandi.

Þingræður Benedikts vöktu athygli vegna valds hans á íslenskri tungu, auk þess hafði hann Íslendingasögur, Snorra-Eddu og þjóðsögur svo vel á valdi sínu, að hann virtist kunna utanbókar. Ól hann börn sín upp í virðingu fyrir hinum forna menningararfi þjóðarinnar. Hann var lítill trúmaður og vildi ekki, að börn sín fermdust. Guðrún sá til þess, að þau hlutu skírn og kenndi börnum sínum bæði bænir og vers.

Náið var með Guðrúnu og systrum hennar úr Engey. Minntust börn Guðrúnar þess, þegar þær Engeyjarsystur sýndu börnum sínum eyjuna. Ein systranna, Ragnhildur, giftist Halldóri skipstjóra á Háteigi í Reykjvík. Stendur hús þeirra enn á horni Háteigsvegar og Lönguhlíðar.

Bjarni þótti snemma bráðger og svipmikill. Hann var talinn heldur alvarlegur og fáskiptinn í bernsku, seintekinn en einstaklega samviskusamur og skyldurækinn. Hann var góður námsmaður en klaufskur í höndunum og enginn söngmaður. Líklega var hann lítill íþróttamaður en þó synti hann alltaf nokkuð og var alla tíð mikill göngugarpur. Þegar hann tók að stálpast var hann kúasmali, sem Ragnhildur Ólafsdóttir, amma hans, rak á Háteigi til ársins 1919. Rak hann kýrnar inn í Fossvog á morgnana og sótti þær á kvöldin, hvernig sem viðraði. Seinna var Bjarni svo í nokkur sumur í fiskvinnu á Innra-Kirkjusandi, þar sem Bjarni Magnússon, seinni maður Ragnhildar, ömmu hans, var verkstjóri. Börn Guðrúnar og Benedikts kölluðu Bjarna afa og var Bjarni Benediktsson skírður í höfuðið á honum. Ungur að árum var Bjarni í sveit á Lundum í Stafholtstungum hjá Guðmundi Ólafssyni, ömmubróður sínum.

Bjarni gaf út blöð og í skjalasafninu má finna Örninn, Björninn og Fálkann. Blöðin voru gefin út af útgáfufélagi, sem hann gaf nafnið Örninn. Taldi hann það fremra öðrum útgefendum og auglýsti Örninn og Fálkann sem bestu ritin. Bræður hans gáfu einnig úr eigin blöð. Hvert þeirra kom út í einu eintaki.

Bjarni tók inntökupróf í Menntaskólann árið 1920. Sóttist honum námið vel í flestum greinum. Söngtíma sótti hann þó ekki, sagðist ekki hafa vandað sig sérstaklega, þegar hann var prófaður og slapp því við tímasókn. Hann segir sjálfur í Minningum úr Menntaskóla að skólaárin hafi yfirleitt verið friðsemdarár. Þó segist hann hafa lent í erjum við bekkjarsystur sínar í 1. bekk, sem hafi endað með því, að þær hafi stofnað sitt eigið félag en kosið hann heiðursfélaga. Þótti honum það hin mesta háðung. Hann las í litlu herbergi við hliðina á eldhúsinu að Skólavörðustíg 11A. Hafði hann þar gott næði, þótt hann kvartaði stundum undan hávaða í kvenfólkinu.

Hann átti góða bekkjarfélaga, sem heimsóttu hann oft í foreldrahúsum og má þar nefna Eyþór Gunnarsson, Ólaf Halldórsson, Júlíus Sigurjónsson, Ragnar Ólafsson og Finnboga Rút Valdimarsson.

Bjarni sagði yngstu systrum sínum, tvíburunum Guðrúnu og Ólöfu, sem fæddust 1919, oft sögur á menntaskólaárum sínum. Var hann sérfræðingur í sögunni af Loðinbarða, Stígvélaða kettinum og sögunni af kúnni Bröndu, sem amma hans átti og einhverntíma hafði stangað Pétur, bróður hans, í bræði sinni. Þessu reiddist Bjarni, sem þá lá í vöggu, og rak kúna á haf út, en hún synti alla leið til Ameríku, þar sem Baldur, föðurbróðir þeirra Péturs og Bjarna, rakst á hana á götu.

Bjarni var forseti málfundafélagsins Framtíðarinnar í Menntaskólanum um skeið. Hann sagði af sér formennskunni á miðju starfsári vegna áhugaleysis félagsmanna. Bjarni hafði engin afskipti af stjórnmálum á menntaskólaárum sínum. Hann tók stúdentspróf 1926 og innritaðist í lagadeild þá um haustið, en hún var þá til húsa í Alþingishúsinu. Tók hann kandidatspróf vorið 1930, þá nýorðinn 22 ára. Hlaut hann hæstu einkunn, sem þá hafði verið gefin í deildinni. Af félögum sínum í lagadeild umgekkst Bjarni Jónatan Hallvarðsson mest. Urðu þeir miklir mátar og hélst sú vinátta á meðan báðir lifðu.

Sumarið 1924 voru Bjarni og Pétur beitingastrákar hjá Brynjólfi Sigurðssyni og Jóni B. Sveinssyni á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð en frá 1925 til 30 vann Bjarni á Siglufirði, fyrst tvö sumur hjá Óskari Halldórssyni en síðan hjá Sveini, bróður sínum, sem þá hafði gerst umboðsmaður ýmissa sunnlenskra útvegsmanna á Siglufirði.

 

Fræðastörf – upphaf stjórnmálastarfs

Bjarni Benediktsson tók ekki þátt í stjórnmálastarfi á menntaskólaárunum. Hann fylgdist þó náið með stjórnmálum öll uppvaxtarár sín, enda sat faðir hans á þingi. Benedikt Sveinsson fylgdi stefnu sinni um sjálfstæði Íslands fram af festu. Hann var til dæmis annar tveggja þingmanna, sem greiddi atkvæði gegn sambandslögunum 1918. Þótti honum ekki nógu langt gengið.

Bjarni var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands árið 1928 til 1929. Hann og bræður hans fylgdu allir Frjálslynda flokknum, sem starfaði á þessum árum. Bjarni var fundarstjóri á þeim fundi frjálslyndra, þegar ákvörðun var tekin um að sameinast Íhaldsflokknum og stofna Sjálfstæðisflokkinn árið 1929. Enginn bræðranna gerðist þó stofnandi Sjálfstæðisflokksins. Kosningarétt fékk Bjarni 30. apríl 1933, þegar hann varð 25 ára.

Haustið 1930 hélt Bjarni til Berlínar, þar sem hann lagði stund á stjórnlagafræði. Dvaldist hann þar fram í ársbyrjun 1932, þegar hann fór til Kaupmannahafnar og hélt þar áfram námi. Hann var lítt hrifinn af valdabrölti Hitlers en líkaði vel í háskólanum í Berlín. Hann umgekkst nokkuð Íslendinga, sem þar voru, þótt hann leyndi því ekki, að honum fannst sumir þeirra óþarflega vinstri sinnaðir og jafnvel ofstopafullir. Jón Leifs, tónskáld, sem þá bjó í Berlín bauð honum stundum heim til sín um helgar.Þar heyrði hann meðal annars „tónband“, þar sem Benedikt, faðir hans, kvað rímur fyrir Jón tveimur árum áður. Þótti Benedikt þó annað betur gefið en söngrödd.

Bjarni var hálft ár við nám í Kaupmannahafnarháskóla. Þótti honum gott að vera þar í návist Péturs, bróður síns, sem þá hafði unnið í danska utanríkisráðuneytinu í rúm tvö ár og var því öllum hnútum kunnugur í Kaupmannahöfn. Dvöl Bjarna þar varð þó skemmri en hann hafði gert ráð fyrir, því að um haustið 1932 var hann settur prófessor við Háskóla Íslands og skipaður í stöðuna ári síðar.

Við heimkomuna leigði hann sér herbergi á Laugavegi 18, þar sem Ragnhildur, amma hans, hafði búið. Hann var í fæði hjá móður sinni á Skólavörðustíg. Þessi vetur var mjög erfiður fyrir fjölskylduna. Ein systranna, Ragnhildur, fædd 1913, veiktist af berklum árið 1932, sama árið og hún varð stúdent. Lá hún rúmföst frá því í desember, þar til hún andaðist síðari hluta ágústmánaðar 1933. Lá hún fyrst heima á Skólavörðustíg en fór um vorið á Vífilsstaði. Bjarni og móðir hans veiktust af brjósthimnubólgu og var Guðrún rúmliggjandi, þegar Ragnhildur, dóttir hennar, dó.

Fljótlega eftir heimkomuna frá Kaupmannahöfn sýndi Bjarni stjórnmálum verulegan áhuga. Hann gekk í Heimdall, félag ungra sjálfstæðismanna, snemma árs 1933 og í sjálfstæðisfélagið Vörð nokkru síðar, þar sem hann varð virkur félagi. Hann var kosinn í borgarstjórn í ársbyrjun 1934 og tók þá jafnframt sæti í borgarráði.

 

Valgerður Tómasdóttir

Valgerður Tómasdóttir, dóttir Tómasar Tómassonar, ölgerðarmanns, og fyrstu konu hans, Ingibjargar Hjartardóttur, var skólasystir Ragnhildar, systur Bjarna, og voru þær mjög samrýndar. Valgerður var glæsileg stúlka, greind, skemmtileg og mikill námsmaður. Foreldrar hennar voru skilin og fylgdi hún móður sinni en hafði þó mikið samband við föður sinn. Tók hún skilnað foreldra sinna mjög nærri sér. Að loknu stúdentsprófi 1932 fór hún til Englands og var þar við nám einn vetur en sneri aftur heim sumarið 1933. Hún hélt áfram að koma á Skólavörðustíg, þótt Ragnhildur væri dáin.

Þegar líða tók á veturinn 1934-5, tóku yngstu systur Bjarna eftir því, að hann þurfti stundum að flýta sér eftir kvöldmatinn. Þær kenndu það í fyrstu við áhuga hans á fræðistörfum og stjórnmálum en komust brátt að raun um, að þar réði annað ferð. Kom líka að því, að þau Valgerður sögðust hafa ákveðið að giftast. Áður en af því varð, fór Valgerður á húsmæðraskóla í Danmörku, þar sem hún var sumarlangt.

Valgerður og Bjarni giftu sig 12. október 1935 og fluttu í snotra leigíbúð við Ásvallagötu. Gæfan virtist brosa við þeim. Brátt syrti þó að. Valgerður veiktist af fóstureitrun. Þótt allt væri gert í mannlegu valdi til að bjarga lífi hennar, dó hún 11. mars 1936. Hún varð öllum mikill harmdauði og syrgði Bjarni hana mjög. Hann festi ekki yndi á Ávallagötu eftir þetta en fluttist þaðan og bjó í nokkur ár í sambýli við Kristjönu, systur sína, og mann hennar Lárus H. Blöndal á Laugavegi 66, en kom að nýju í fæði á Skólavörðustíg. Eftir lát Valgerðar fór Bjarni að sækja kirkju og sótti styrk og huggun í kristna trú. Var hann kirkjurækinn upp frá því.

 

Frásögn þessi er byggð á grein Ólafar,systur Bjarna,
Bernskuheimili og uppvaxtarár, í bókinni
Bjarni Benediktsson í augum samtíðarmanna,
sem kom út árið 1983 undir ritstjórn Ólafs Egilssonar.