Fréttir

24.01.2015
Yfirlýsing vegna greinar Álfheiðar Ingadóttur í Fréttablaðinu 24. janúar 2015

Í Fréttablaðinu í dag 24. janúar 2015 birtist grein eftir Álfheiði Ingadóttur þar sem hún vekur athygli á skjali á vef Borgarskjalasafns um safn Bjarna Benediktssonar, þar sem lesa megi að faðir hennar Ingi R. Helgason hrl. sé höfundur dagbókar, e.k. njósnaskýrslu um nafngreinda félaga sína í hreyfingu ungra sósíalista og stúdenta, dagbók sem rataði í einkaskjalasafn Bjarna Benediktssonar fyrrum forsætisráðherra. Álfheiður fer framá að Borgarskjalasafnið birti opinberlega leiðréttingu á þessum aðdróttunum.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur viðurkennir hér með að mannleg mistök voru gerð við birtingu á umræddum skjölum. Engin tengsl var að finna milli umræddrar skýrslu og sendibréfs Inga R. Helgason um annað efni, sem lágu saman fyrir mistök. Ekkert bendir til þess að Ingi R. Helgason hafi tengst umræddri skýrslu. Skjalið hefur nú verið tekið úr birtingu á vef safnsins.

Fyrir hönd Borgarskjalasafns Reykjavíkur vil ég biðja Álfheiði Ingadóttur og aðra sem málið varðar margfaldlega afsökunar og harma þessi mistök.
Reykjavík, 24. janúar 2015
Svanhildur Bogadóttir
borgarskjalavörður

 

08.06.2011
Sextíu ára afmæli varnarsamnings við Bandaríkin

Nýlega voru 60 ár liðin síðan að Varnarsamningur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins var undirritaður í Reykjavík, þann 5. maí 1951. Undir samninginn skrifuðu Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og Edward B. Lawson, sérlegur sendiherra og ráðherra með umboði fyrir Bandaríki Ameríku á Íslandi.

Á þeim tíma sem samningurinn var gerður höfðu ráðamenn á Íslandi sem annars staðar áhyggjur af hugsanlegum átökum á milli stórveldanna tveggja sem stóðu eftir uppi sem sigurvegarar eftir seinni heimsstyrjöldina. Ríkisstjórn Íslands var hliðholl Vesturveldunum og hafði Alþingi samþykkt að ganga í Atlantshafsbandalagið (NATO) árið 1949 sem valdið hafði deilum og óeirðum. Kóreustríðið braust út sumarið 1950 þegar kommúnistar í Norður-Kóreu réðust yfir landamærin til Suður-Kóreu.

Varnarsamningurinn var í gildi í 55 ár og var sagt upp einhliða af Bandaríkjamönnum haustið 2006. Þá höfðu Bandaríkjamenn á mismunandi tímabilum rekið hér á landi fjórar ratsjárstöðvar auk herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Jafnan voru hér á friðartímum að minnsta kosti tvö þúsund erlendir hermenn.

Borgarskjalasafnið vill benda áhugasömum á að einkaskjalasafn Bjarna Benediktssonar er aðgengilegt á safninu og að miklu leyti á vefnum. Þar er til að mynda að finna ýmis skjöl er varða inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið. Varðandi Varnarsamninginn getur verið sérlega forvitnilegt að skoða minnisblöðin af fundi utanríkisráðherra Íslands með Standing Group-nefnd í Pentagon-byggingunni sem hýsir varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna þann 19. september 1950. Á fundinum voru franskur, bandarískur og breskur hershöfðingi. Formaður nefndarinnar, Frakkinn Paul Ely var á þessum tíma fulltrúi Brussels-sambandsins sem seinna varð að Vestur-Evrópusambandinu. Tilgangur fundarins var „að rannsaka í sameiningu innan ramma NATO með hverjum hætti öryggi og fullveldi Íslands verði haldið uppi. Með öðrum orðum, að rannsaka hverja þá hættu, sem kann að snúa að Íslandi. Það er annað mál, sem er jafn þýðingarmikið, en sem er ekki efni viðræðanna í dag, og það er spurningin („problem“) um stofnun flug- eða sjóstöðva innan ramma allsherjar hernaðaráætlunarinnar.“ Þá er ekki úr vegi að benda á sjálfa fréttatilkynninguna frá ríkisstjórninni 7. maí 1951 varðandi varnarmál.

Texti: Hrafn Malmquist

 

08.06.2011
Úthlutun rannsóknastyrkja Bjarna Benediktssonar 2011

Úthlutun Rannsóknastyrkja Bjarna Benediktssonar fór fram í Þjóðmenningarhúsinu 12. maí 2011 og er það í fjórða sinn sem veittir eru styrkir úr sjóðnum.
Styrk til rannsókna í sagnfræði hlaut Ólafur Rastick til að skrifa um menningararf, stjórnmál og þjóðríki 1928 til 1942. Styrki til rannsókna á sviði lögfræði hlutu Björg Thorarensen, til að skrifa um stjórnskipunarrétt og ríkisvald, og Bjarni Már Magnússon, til að rita doktorsritgerð í Edinborg um úrlausn ágreiningsefna á landgrunni utan 200 sjómílna.

Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalaskjalavörður kynnti vef um Bjarna Benediktsson að lokinni afhendingu styrkja.

 

20.04.2011
Skjalasafn Bjarna Benediktssonar aðgengilegt heima í stofu

Skráningu er lokið á einkaskjalasafni Bjarna Benediktssonar, fv. borgarstjóra og forsætisráðherra. Á síðastliðnum tveimur árum hefur verið unnið að því að gera safnið aðgengilegt öllum á vefnum og er það komið vel á veg. Þessi vinna hefur verið möguleg með stuðningi frá Vinnumálastofnun Íslands.

Borgarskjalasafn leitar nú eftir styrktaraðilum til að geta haldið áfram með þá vinnu að gera safnið aðgengilegt öllum á vefnum. Nánari upplýsingar veitir Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður í síma 411 6060, netfang svanhildur.bogadottir@reykjavik.is.

Skjölin sem hafa verið skönnuð eða ljósmynduð eru birt á pdf formi eða sem ljósmyndir á jpg formi.

 

06.05.2010
Styrkir úr rannsóknarsjóði Bjarna Benediktssonar afhentir í þriðja sinn

Miðvikudaginn 5. maí 2010 kl. 16.00 fór fram þriðja úthlutun á rannsóknarstyrkjum Bjarna Benediktssonar, það er úr rannsóknarstyrktarsjóði, sem var stofnaður 30. apríl, 2008, á 100 ára afmæli Bjarna til að styrkja rannsóknir á sviði lögfræði og sagnfræði.

Björg Thorarensen, prófessor, var formaður úthlutunarnefndar á sviði lögfræði og í ár hlaut Kristín Benediktsdóttir, doktorsnemi við lagadeild Háskóla Íslands, 1 milljón kr. til rannsóknar á réttarstöðu aldraðra.

Anna Agnarsdóttir, prófessor, er formaður úthlutunarnefndar á sviði sagnfræði og í ár hlutu styrki: dr. Þór Whitehead, prófessor, hlaut 500 þús. króna styrk til rannsókna á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni eftir hernám Breta og Sigríður Matthíasdóttir, hugvísindastofnun Háskóla Íslands hlaut 500 þús. kr. til að rannsaka hugmyndir og viðhorf í stjórnarstefnu viðreisnarstjórnarinnar á sviði velferðar- og menntamála.

Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur við lagastofnun Háskóla Íslands, sem hlaut rannsóknarstyrk árið 2009, flutti erindi um rannsóknir á kvótakerfinu, doktorsverkefni sitt.

Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur, sem hlaut rannsóknarstyrk árið 2009 flutti erindi um heimastjórn, fullveldi og umheiminn.

Sjóðurinn er í vörslu Rannís og starfsmenn þar sjá um umsýslu hans gagnvart umsækjendum og við úthlutun styrkja.

 

30.04.2010
Hann á afmæli í dag!

Bjarni Benediktsson hefði í dag, 30. apríl orðið 102 ára gamall og fögnuðum við því hér á Borgarskjalasafninu með kaffi, kökum og góðum samræðum. Unnið hefur verið hörðum höndum að koma skjalasafninu hans á vefinn en enn er mikið verk fyrir höndum.

Sonur Bjarna, Björn fyrrv. ráðherra er að vinna með okkur og skrifar sögu Bjarna sem birtist undir Æviferill. Þar er farið aðeins dýpra í persónuna sem Bjarni var og skemmtilegt að lesa það sem Björn er nú þegar búinn að skrifa og að sjálfsögðu verður sagan tengd inn í skjalaskránna eins og hægt er.

Skjalaskráin sjálf er svo birt í heild sinni og er takmarkið að setja sem mest af þessum skjölum á netið, bæði sem myndasýningu og á pdf skjölum svo hægt sé að prenta það út með góðu móti.

Vefurinn er í vinnslu og alltaf erum við að skanna inn ný en gömul skjöl frá Bjarna Benediktssyni afmælisbarni dagsins.

 

10.03.2010
100 ár liðin frá fæðingu Bjarna Benediktssonar

Fréttatilkynning, 1. nóvember, 2007.

Hinn 30. apríl 2008 verða 100 ár liðin frá fæðingu Bjarna Benediktssonar lagaprófessors og forsætisráðherra. Til að minnast þeirra tímamóta hefur verið ákveðið að stofna til styrkveitinga á sviði lögfræði og sagnfræði.
Veittir verða sex styrkir til lögfræði- og sagnfræðirannsókna í fyrsta sinn 30 apríl 2008.
Þrír rannsóknarstyrkir verða veittir árlega á sviði stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar, einn að fjárhæð 1.000.000 kr. og tveir að fjárhæð 500.000 kr.

Markmiðið er að efla rannsóknir á þeim sviðum lögfræðinnar, sem snerta innviði stjórnskipunarinnar og réttaröryggi borgaranna gagnvart leyfisvaldi og eftirliti stjórnvalda.
Þrír rannsóknarstyrkir verða veittir árlega á sviði hag- og stjórnmálasögu 20. aldar til okkar daga, einn að fjárhæð 1.000.000 kr. og tveir að fjárhæð 500.000 kr.

Markmiðið er að efla rannsóknir og dýpka skilning á umbreytingum í íslensku efnahagslífi, stjórnmálum og utanríkismálum á 20. öld.

Þriggja manna úthlutunarnefnd um lögfræðirannsóknir er skipuð Páli Hreinssyni hæstaréttardómara, formaður, Björgu Thorarensen lagaprófessor og Birni Bjarnasyni ráðherra. Varamaður er Ragnhildur Helgadóttir, prófessor,
Þriggja manna úthlutunarnefnd um sagnfræðirannsóknir er skipuð Önnu Agnarsdóttur prófessor í sagnfræði, formaður, Matthíasi Johannessen rithöfundi og Sólrúnu Jensdóttur sagnfræðingi. Varamaður er Valur Ingimundarson prófessor.
Úthlutunarnefndir ákveða úthlutunarreglur, fara yfir umsóknir og annast úthlutun styrkja. Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) mun annast rekstur og umsýslu sjóðsins og fylgja sömu reglum um opin og fagleg vinnubrögð og viðhöfð eru við rekstur annarra sjóða.

Ákvörðun úthlutunarnefndar um það hvaða rannsóknarverkefni skuli hljóta styrki byggist á faglegu mati á gæði rannsóknarverkefnis, færni og reynslu umsækjanda til að stunda rannsóknir og aðstöðu hans til að sinna verkefninu. Berist ekki umsóknir sem uppfylla framangreind skilyrði verður styrkjum ekki úthlutað.
Styrkþegi skal geta þess að rannsóknarverkefni hans hafi hlotið Bjarna Benediktssonar-styrk í inngangi eða formála, þegar rannsóknin er opinberlega birt.

Bjarna Benediktssonar-styrkir eru nú kynntir til úthlutunar í fyrsta skipti og er umsóknarfrestur til 1. febrúar 2008. Allar nánari upplýsingar fást á skrifstofu Rannís í síma 5155800 eða í netfangi rannis@rannis.is.
Vinir og samherjar Bjarna Benediktssonar ásamt fjölskyldu hans hafa sameinast um að afla fjár til að standa undir styrkveitingunum og er að því stefnt að um fimm ára verkefni verði að ræða. Verður haft samband við fólk og fyrirtæki, sem kann að vilja leggja þessu framtaki lið og opnaður söfnunarreikningur.

Um það hefur samist milli Borgarskjalasafns og afkomenda Bjarna Benediktssonar, að skjöl hans og myndir verði varðveitt í safninu. Er jafnframt á döfinni að opna vefsíðu í tengslum við safnið, þar sem birt verða gögn tengd Bjarna Benediktssyni, upplýsingar um Bjarna Benediktssonar-styrkina og efniságrip ritgerða styrkþega.

 

10.03.2010
Rannsóknarstyrkir Bjarna Benediktssonar afhentir í fyrsta sinn

Fyrstu styrkirnir úr sjóðnum Rannsóknarstyrkir Bjarna Benediktssonar voru veittir við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu þann 30. apríl 2008, en þann dag voru 100 ár liðin frá fæðingu Bjarna Benediktssonar fyrrverandi forsætisráðherra.

Markmið sjóðsins er að styrkja rannsóknir á þeim sviðum lögfræðinnar, sem snerta innviði stjórnskipunarinnar og réttaröryggi borgaranna gagnvart leyfisvaldi og eftirliti stjórnvalda. Styrkir á svið hag- og stjórnmálasögu 20. aldar til okkar daga skulu veittir til að efla rannsóknir og dýpka skilning á umbreytingum í íslensku efnahagslífi, stjórnmálum og utanríkismálum á 20. öld. Stefnt er að því að sjóðurinn starfi í fimm ár og veiti á hverju ári allt að þrjá styrki á hvoru fræðasviði.

Tveir styrkir voru veittir til rannsókna á sviði hag- og stjórnmálasögu. Formaður dómnefndar var Anna Agnarsdóttir, sagnfræðiprófessor.

Skafti Ingimarsson, doktorsnemi í sagnfræði við Hugvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut styrk að upphæð 1.000.000 kr. fyrir rannsóknarverkefnið; Upphaf og þróun kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi.

Reynir Berg Þorvaldsson, meistaranemi í sagnfræði við hugvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut styrk að upphæð 500.000 kr. fyrir rannsóknarverkefnið; Öflun og úrvinnsla heimilda er varða leiðtogafundinn í Reykjavík 1986.

Þrír styrkir voru veittir til rannsókna á sviði lögfræði. Formaður dómnefndar var Róbert R. Spanó, lögfræðiprófessor.

Trausti Fannar Valsson, lögfræðingur og doktorsnemi í sveitarstjórnarrétti við lagadeild Háskóla Íslands hlaut styrk að upphæð 1.000.000 kr. fyrir rannsóknaverkefnið; Ólögbundin verkefni sveitarfélaga , og er liður í ritun doktorsritgerðar

Margrét Vala Kristjánsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við sömu deild, hlutu styrk að upphæð 500.000 kr. fyrir rannsóknaverkefnið; Inntak og beiting 15. gr. stjórnarskrárinnar .

Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, hlaut styrk að upphæð 500.000 kr. fyrir rannsóknaverkefnið; Vísinda­rannsóknir á heilbrigðissviði – lagaumgjörð stjórnsýslu og réttarvernd þátttakenda .

Við athöfnina opnaði jafnframt Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, vefsíðuna www.bjarnibenediktsson.is á vegum Borgarskjalasafns Reykjavíkur.

 

10.03.2010
Skjalasafn Bjarna Benediktssonar afhent Borgarskjalasafni til varðveislu

Einkaskjalasafn Bjarna Benediktssonar, fv. borgarstjóra og forsætisráðherra var formlega afhent Borgarskjalasafni Reykjavík til varðveislu og eignar í Höfða miðvikudag 30. apríl 2008 kl. 14, en þann dag hefði Bjarni orðið 100 ára.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Ólafur F. Magnússon og Björn Bjarnason fyrir hönd lögerfingja Bjarna undirrituðu samning um afhendinguna, en í honum kemur fram hvaða skjöl eru afhent og hvaða aðgangsskilyrði eru að þeim.

Um er að ræða einstaklega yfirgripsmikið og umfangsmikið skjalasafn sem spannar allt frá æskudögum hans til dauðadags. Bjarni Benediktsson fæddist árið 1908 og lést árið 1970 á hátindi ferils síns. Bréfa- og málasafn hans spannar allan pólitískan feril hans, þar með talið frá tíma hans sem borgarfulltrúi, borgarstjóri, formaður Sjálfstæðisflokksins, þingmaður, dóms- og kirkjumálaráðherra, menntamálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra.

Sömuleiðis er í safninu skjöl frá störfum hans sem ritstjóri Morgunblaðsins, lagaprófessor og lögmaður. Um er að ræða móttekin bréf, afrit útsendra bréfa, greinargerðir, skýrslur, minnisblöð og fleira. Meðal annars er til umfjöllunar stjórnarskrármálið, utanríkismál, efnahagsmál og fleira. Í safninu er mikið magn af ræðum og greinum og sömuleiðs drög að ræðum sem sýna hvernig þær hafa mótast. Þá er í safninu fjöldi ljósmynda, einkum af opinberum viðburðum og fjölskyldum, auk muna.

Unnið er að skráningu skjalasafnsins og mun það verða opnað til rannsókna eigi síðar en 1. febrúar 2009.

 

10.03.2010
Úthlutun rannsóknarstyrkja Bjarna Benediktssonar 2009 og kynning á skjalasafni hans

Fimmtudaginn 7. maí 2009 kl. 16.00 fór fram önnur úthlutun á rannsóknarstyrkjum Bjarna Benediktssonar, það er úr rannsóknarstyrktarsjóði, sem var stofnaður á síðasta ári, 30. apríl, á 100 ára afmæli Bjarna til að styrkja rannsóknir á sviði lögfræði og sagnfræði.

Páll Hreinsson, hæstaréttardómari, er formaður úthlutunarnefndar á sviði lögfræði og í ár hlutu styrki: Helgi Áss Grétarsson 1 m. kr. til að rannsaka stjórn fiskveiða og stjórnskipun Íslands, Gunnar Þ. Pétursson 500 þús. kr. til að rannsaka undanþágur frá grundvallarfrelsum – aðferðafræðileg áskorun og Ólafur I. Hannesson 500 þús. til að rannsaka samstarf Hæstaréttar, EFTA-dómstólsins og Evrópudómstólsins.

Anna Agnarsdóttir, prófessor, er formaður úthlutunarnefndar á sviði sagnfræði og í ár hlutu styrki: Hannes Hólmsteinn Gissurarson 1 m. kr. til að rannsaka íslenska kommúnista 1918 til 1998. Sigurður Gylfi Magnússon 500 þús. kr. til að rannsaka vald bernsku, sagn- og hagfræðileg greining. Gunnar Þór Bjarnason 500 þús. kr. til að rannsaka heimastjórn, fullveldi og umheiminn.

Margrét Vala Kristjánsdóttir og Ragnhildur Helgadóttir sem hlutu styrk í fyrra fluttu erindi um rannsóknarefni sitt: Inntak og beiting 15. gr. stjórnarskrárinnar.

Skafti Ingimarsson sagnfræðingur greindi frá rannsókn sinni fyrir styrk frá því í fyrra á kommúnistahreyfingunni á Íslandi.

Athöfnin var í Borgarskjalasafni og undir lok hennar kynnti Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, skjalasafn Bjarna Benediktssonar, sem þar er varðveitt og hefur nú verið skráð að verulegu leyti. Er ætlunin að opna það fyrir fræðimönnum á næstu vikum. Fengu gestir að kynna sér hluta safnsins og frágang þess.

Sjóðurinn er í vörslu Rannís og starfsmenn þar sjá um umsýslu hans gagnvart umsækjendum og við úthlutun styrkja.