Skjalaskráin

Búið er að skrá skjalasafn Bjarna Benediktssonar, fv. borgarstjóra og forsætisráðherra. Það voru börn Bjarna Benediktssonar sem afhentu safnið til Borgarskjalasafns til eignar varðveislu og var safnið formlega afhent 30. apríl 2008 í Höfða en Bjarni hefði orðið 100 ára þann dag.

Samningur var gerður um varðveislu og sýnileika safnsins og má sjá hann hér.

Ef athugasemdir eru við birtingu skjala á vef þessum, sendist þær á netfangið borgarskjalasafn@reykjavik.is ásamt umræddri slóð og rökstuðningi og verða þær þá yfirfarnar.

Safnið var skráð af Guðjóni Indriðasyni og Grétu Björgu Sörensdóttur, starfsmönnum Borgarskjalasafns.

Ákveðið var að skipta safninu upp í átta hluta sem hér segir:

Uppvaxtar- og námsár.
Í fyrsta hluta er fjallað um uppvöxt og námsár Bjarna. (skönnun skjala lokið)

Stjórnmálamaðurinn Bjarni Benediktsson.
Annar hluti er bréfa- og málasafn Bjarna 1930-1970. Þar eru skjölin flokkuð eftir starfssviði Bjarna. Fyrst koma skjöl frá árum hans sem lögmanns og prófessor við Háskóla Íslands og bæjarfulltrúa. Síðan borgarstjóra í Reykjavík og þá ráðherra dóms- kirkju-, mennta-, utanríkismála og síðast forsætisráðherra. (unnið að skönnun - búið að birta hluta skjala)

Fjölskylda Bjarna Benediktssonar.
Í þriðja hluta eru skjöl sem varða þau hjónin Bjarna og Sigríði Björnsdóttur og börn þeirra og að lokum andlát Bjarna, Sigríðar og dóttursonar þeirra Benedikts Vilmundarsonar. (unnið að skönnun - búið að birta hluta skjala)

Ræður og greinar Bjarna Benediktssonar.
Í fjórða hluta eru ræður Bjarna 1929-1970. (unnið að skönnun - búið að birta hluta skjala)

Skjöl Benedikts Sveinssonar, alþingismanns og föður Bjarna og Guðrúnar Pétursdóttur, móður Bjarna.
Í fimmta hluta eru skjöl föður Bjarna, Benedikts Sveinssonar alþingismanns og ritstjóra og fjölskyldu hans. (unnið að skönnun - búið að birta hluta skjala)

Prentað og fjölfaldað efni.
Í sjötta hluta er ýmis konar prentað og fjölfaldað efni: Fundargerðir ríkisstjórnarinnar, dagblöð, skólablöð M.R. og H.Í, Blaðið Lögberg-Heimskringla og ýmsar skýrslur og greinargerðir.

Ljósmyndir.
Í sjöunda hluta eru ljósmyndir úr fórum Bjarna, aðallega úr opinbera lífinu en einnig af fjölskyldumeðlimum.

Munir:
Í áttunda og síðasta hluta eru nokkrir munir úr fórum Bjarna, svo sem skjalataska, gleraugu, úr, minnispeningar o.fl. Hér má sjá ljósmyndir af mununum.