Kennarafélag barnaskólans í Reykjavík og síðar Miðbæjarskólans.

Vissir þú að... kennarar í barnaskóla Reykjavíkur, síðar Miðbæjarskóla, starfræktu öflugt félagsstarf og ráku meðal annars bókasafn, sjúkrasjóð og pöntunarfélag?

Árið 1853 var lagt fyrir Alþingi frumvarp um stofnun barnaskóla í Reykjavík. Frumvarpinu var slegið á frest en lagt fyrir Alþingi að nýju nokkrum árum síðar eða árið 1859. Þann 12. desember 1860 gaf Friðrik sjöundi Dana konungur út tilskipun um stofnun barnaskóla í Reykjavík. Skólinn tók til starfa árið 1862 á vegum bæjarins. Áður hafði verið einkarekinn barnaskóli í Reykjavík frá árinu 1830 en hann lagðist af árið 1849. Barnaskóli Reykjavíkur var til húsa fyrst um sinn í Hafnarstræti síðar í Pósthússtræti áður en skólinn fékk sitt framtíðarheimili við Fríkirkjuveg 1 árið 1898 í hús betur þekkt sem Miðbæjarskólinn. Árið 1930 tók Austurbæjarskóli til starfa og því barnaskólarnir orðnir tveir í Reykjavík og var því nafni barnaskólans breytt í Miðbæjarskólinn.

Þann 19. desember 1908 kom Hallgrímur Jónsson kennari við barnaskóla Reykjavíkur með þá uppástungu að stofnað yrði kennarafélag barnaskólans í Reykjavík. Kosin var nefnd til að semja frumvarp til laga fyrir félagið. Þann 28. desember sama ár boðaði nefndin til fundar þar sem lagafrumvarpið var lagt fram og voru 17 kennarar skólans viðstaddir. Tilgangur félagsins samkvæmt 3. gr laga félagsins var „að efla samvinnu og samtök milli kennara skólans og hlynna að velferð hans“. Við stofnun félagsins tók kennarfélagið að sér Bókasafn barnaskóla Reykjavíkur en bókasafnið var stofnað sem félagsamtök árið 1902. 

Hér að neðan má sjá brot af skjölum sem snúa að þessum þremur félögum sem kennarar barnaskólans í Reykjavík, síðar Miðbæjarskólans, stofnsettu. Til að stækka skjölin er hægt að smella á myndirnar.

Ef þig langar til að grúska enn frekar í skjölum tengdum skólamálum barnaskólanna og Miðbæjarskólans er hægt að nálgast elstu skjöl skólanna, sem varðveitt eru á Borgarskjalasafni Reykjavíkur, hér. 

Bókasafn kennara barnaskólans í Reykjavík

 

Stofnfundur bókasafns kennara í barnaskólanum. 

Þann 2. nóvember árið 1902 tóku kennarar barnaskólans höndum saman og stofnuðu bókasafn barnaskóla Reykjavíkur. Bókasafnið var til afnota þeim sem í félagið gengu.

Reglur bókasafns kennara í barnaskólanum.

Bókavörður auglýsti útlán bóka og blaða einu sinni í viku. Dagssekt bóka og tímarita sem fór yfir útlánstíma var 25 aurar.

Félagatal bókasafns Reykjavíkur barnaskóla 1902 -1903 og 1903-1904.

Á stofnári bókasafnsins voru félagsmenn 12 talsins en ári síðar hafði þeim fjölgað um fjóra.

 

Bókagjafir. 

Í fundargerð stofnfundar bókasafns kennara barnaskólans var til þess mælst að kennarar styrktu bókasafnið með bókagjöfum eða fjárgjöfum til bókakaupa. Til vinstri má sjá bókagjafir Morten Hansen, skólastjóra 1898-1923, til bókasafnsins. Til hægri má sjá dæmi um bókagjafir sem bárust safninu og gefur góða hugmynd hvaða bækur og tímarit voru aðgengileg á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar. 

Brunatryggingar bókasafnsin. 

Hér má sjá brunatryggingar fyrir bókasafn barnaskólans annars vegar 1928-1929 og hins vegar fyrir tímabilið 1932-1933. Þrátt fyrir að nafni barnaskólans var breytt í Miðbæjarskólann árið 1930, með tilkomu Austurbæjarskóla, kenndi kennarafélagið sig enn við barnaskóla Reykjavíkur árið 1932.

 

Sjúkrasjóður kennara við barnaskóla Reykjavíkur

 

Kennarafélag barnaskólans í Reykjavík / Miðbæjarskólans

 

Sjúkrasjóður kennara við barnaskóla Reykjavíkur 1909.

Nafnalisti þeirra sem skráðu sig í sjúkrasjóðinn. Þar sést hvenær þeir gengu í sjóðinn ásamt þeim greiðslum sem þeir greiddu í hann.

 

Reikningur yfir tekjur og gjöld sjúkrasjóðs kennara við barnaskóla Reykjavíkur árið 1909. 

Með 241,05 króna gjöf frá ónefndum gefanda tókst kennarfélaginu að setja sjúkrasjóð kennara á fót. Lög um sjúkrasjóði voru ekki fest í gildi fyrr en 1974. Því má með sanni segja að kennarafélag barnaskólans hafi verið undan sinni samtíð. 

Reikningur kennarfélags barnaskóla Reykjavíkur árið 1909. 

Reikningur frá fyrsta starfsári kennarafélags barnaskólans í Reykjavík. 

 

 

Lög kennarafélags Miðbæjarskólans. 

Vélrituð lög kennarafélags Miðbæjarskólans að öllum líkindum rituð eftir 1930. 

 

Pöntunarfélag Miðbæjarskólans

 

Stofnfundur pöntunarfélags Miðbæjarskólans.

Þann 16. nóvember 1965 var haldinn stofnfundur Pöntunarfélags Miðbæjarskólans. Félagið var opið öllum kennurum Miðbæjarskólans sem borguðu 50 króna inntökugjald.  Markmið félagsins var að kaupa vörur, frá heildsölufyrirtækjum, til heimilisþarfa félagsmanna. 

 

Upphaf stofnunar Pöntunarfélagsins.

Nokkrir kennarar Miðbæjarskólans lýstu yfir áhuga sínum að stofna pöntunarfélag með undirskriftarsöfnun. 

Orðsending frá Pöntunarfélaginu. 

Skírteini félagsmanna var hægt að nálgast hjá Þorvaldi Óskarssyni, kennara í Miðbæjarskólanum. Með því gafst þeim kostur á að versla vörur í heildsöluverslunum. Þorvaldur kenndi í Miðbæjarskólanum í 14 ár en skjöl þessi, sem birt hafa verið hér, afhenti hann Borgarskjalasafni árið 2019 og er þau hluti af einkaskjalasafni nr. 127.

 

 

Fyrirtæki sem meðlimir Pöntunarfélagsins gátu skipt við.

Hér má sjá lista yfir þau fyrirtæki sem meðlimir Pöntunarfélagsins gátu verslað við á betri kjörum en ella.

Reikningur Pöntunarfélagsins. 

Ársreikningur fyrsta starfsárs Pöntunarfélags Miðbæjarskólans yfir tímabilið 4. nóvember 1965 - 31. desember 1966.