Agnar Ingólfsson og Linda Wendel

Nánari upplýsingar
Nafn Agnar Ingólfsson og Linda Wendel
Númer E-521
Lýsing

Agnar Ingólfsson var fæddur í Reykjavík, 29. júlí 1937. Foreldrar hans voru þau Agnes Marie Ingeborg Christensen (1902-2000), vefnaðarkennari og Ingólfur Davíðsson (1903-1998), grasafræðingur. Systur Agnars: Edda (1939-) og Helga (1942-2009). Agnar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1957, B.Sc. (Hons.) prófi frá Aberdeen Háskóla í Skotlandi árið 1961 og doktorsprófi (Ph.D.) frá háskólanum í Michigan, Ann Arbor, Bandaríkjunum árið 1967. Lokaverkefni hans við Aberdeen háskóla fjallaði um íslenska Örninn og doktorsverkefnið við Ann Arbor um vistfræði Máva.

Agnar var lektor í líffræði við Southeastern Massachusetts háskólann, North Darthmouth, Massachusetts, 1967-1970. Hann var dósent í dýrafræði við Háskóla Íslands 1970-1973, skipaður prófessor í vistfræði árið 1973 og gegndi því starfi til ársins 2007. Eftir að Agnar hóf störf við Háskóla Íslands beindist áhugi hans fljótlega að sjávarlíffræði, einkum vistfræði fjöru og grunnsævis og lauk hann þar undirstöðuverki sem birtist sem eitt bindi af safnritinu Zoology of Iceland. Rannsóknaferill Agnars var langur og farsæll. Í ljós kom að tvær mávategundir, hvítmávur og silfurmávur, blönduðust hér á landi og rannsóknir Agnars leiddu af sér merka nýjung á sviði þróunarfræði. Þetta starf leiddi jafnframt til víðtækrar samanburðarrannsóknar á klettafjörum við norðanvert Norður-Atlantshaf, Kyrrahaf og í Suðurhöfum. Um leið gerðist Agnar brautryðjandi í að skýra uppruna fjörulífs í austanverðri Norður- Ameríku og markaði sér þar með sess í líflandafræði. Agnar afkastaði mörgum ritverkum sem birtust á alþjóðavettvangi og var vel þekktur meðal vísindamanna á sínu sviði.

Hér innanlands fékkst hann einkum við rannsóknir meðfram ströndinni og lausn vandamála sem tengdust ráðstöfun strandlengjunnar, til dæmis vegna vegagerðar. Þannig aflaði hann mikils fræðilegs efnis en Agnar Ingólfsson sinnti kennslu og rannsóknum af mikilli elju þrátt fyrir heilsubrest. Hann hafði einlægan félagslegan áhuga á fræðunum og á umhverfisvernd.

Hann skrifaði margar greinar um fræðileg efni og birti/gaf út einnig nokkur rit um fjörulíf. Hann beitti sér fyrir stofnun Líffræðifélags Íslands og var fyrsti formaður þess, 1979-1983.

Agnar Ingólfsson og Linda Wendel gengu í hjónaband 25. desember 1962. Synir þeirra:

Torfi (1968) og Ingi (1971).

Linda Wendel var fædd í Reykjavík, 10. janúar 1940. Foreldrar hennar voru þau Borghild Wendel (1908-1994) og Andrés Wendel (1907-1994). Systir hennar: Marianne. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík hóf hún nám í norsku við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1960. Frá 1961 starfaði hún sem meinatæknir með nokkrum hléum, lengst af hjá Rannsóknarstöðinni á Keldum og frá 1974 hjá Hjartavernd, með hléum, fram til ársins 2001. Um skeið starfaði hún sem aðstoðarmaður við Fuglafræðideild (Bird-Devision) Michigan- Háskóla og síðar sem aðstoðarmaður við Líffræðideild Massachusetts- Háskólans. Auk þess vann Linda af og til sem aðstoðarmaður eiginmanns síns, bæði á Íslandi og í rannsóknarleiðöngrum hans til Alaska, Washington- ríkis, Chile, Argentínu, Nýja-Sjálands og Ástralíu.

Agnar Ingólfsson andaðist 10. október 2013 og Linda Wendel 28. júní 2009.

(Heimild:, Morgunblaðið 1. nóvember 1998, bls. 40, Morgunblaðið 3. júlí 2009, bls. 31).

 

Ingólfur Davíðsson var fæddur að Ytri- Reistará við Eyjafjörð, 14. janúar 1903.

Foreldrar hans voru þau María Jónsdóttir (1872-1950) húsfreyja og kennari og Davíð Sigurðsson (1872-1951) bóndi og hreppstjóri. Systkini: Steinunn, Haraldur, Bergþóra, Erlingur, Hámundur, hálfbróðir Ingimar. Ingólfur lauk stúdentspróf frá Menntasólanum á Akureyri vorið 1929 og magistersprófi í grasafræði frá Kaupmannahafnarháskóla sumarið 1936. Hann starfaði sem sérfræðingur í plöntusjúkdómum við búnaðardeild atvinnudeildar Háskólans, síðar Rannsóknarstofnun landbúnaðarins 1937-1973 og var þar síðan í hlutastarfi í nokkur ár. Samhliða starfinu sinnti Ingólfur kennslu við ýmsa skóla allt til 1983, síðast við Háskóla Íslands. Ingólfur skrifaði fjölda vísinda- og fræðigreina um grasafræði. Blaðagreinar í flokknum Gróður og garðar og Byggt og búið í gamla daga í Tímanum urðu rúmlega 800. Hann skrifaði meðal annars ýmsar bækur um plöntusjúkdóma svo og kennslubækur í grasafræði. Þá samdi hann Stofublómabókina og Garðagróður, í félagi við Ingimar Óskarsson, en hún var gefin út þrívegis. Hann þýddi einnig og staðfærði nokkrar bækur um grasafræðileg efni. Ljóðabókin Vegferðarljóð kom út 1973.

Ingólfur Davíðsson og Agnes Marie Ingeborg Christensen vefnaðarkennari gengu í hjónaband 28. júní 1936. Börn þeirra: Agnar (1937-2013), Edda (1939-) og Helga (1942-2009).

Agnes Marie Ingeborg Christensen var fædd 6. júní 1907 í Danmörku. Börn þeirra: Agnar (1937-2013), Edda (1939-) og Helga (1942-2009).

Ingólfur andaðist 23. október 1998 og Agnes M. Davíðsson 7. febrúar 2000.

(Heimild: Minningargrein um Ingólf Davíðsson, Morgunblaðið 1. nóvember 1998, bls. 40).

Andrés Wendel (Andreas Oswald Wendel) var fæddur á Þingeyri, 6. júní 1907.

Foreldrar hans voru þau Ólína María Ólafsdóttir (1875-1913) og Hermann Wendel (1851-1922) ljósmyndari, gullsmiður og málari. Systkini hans voru þau Ágústa Þórdís (1899), Emilie Vilhelmine Henriette (1900), Adolph Ólafur (1901), Carl Emil Vilhelm Harry (1902), Ernst Kristján (1904), Hermann Alvin (1904) og hálfsystir Herþrúður (1896). Móðir Andrésar dó þegar hann var 6 ára og kom þá á heimilið ráðskona, Sigríður Benediktsdóttir frá Dýrafirði, sem varð fóstra hans upp frá því. Föður sinn missti Andrés þegar hann var 15 ára. Til Reykjavíkur kom Andrés sautján ára gamall til lækninga. Andrés var í Núpsskóla líklega árin 1923-1924 og í Samvinnuskólanum í Reykjavík veturinn 1932-1933. Hann fékkst við kennslu á Þingeyri. Flutti síðan til Reykjavíkur og vann verslunarstörf og síðan í almennri verkamannavinnu. Vann í Bretavinnu, bílaverkstæði, hjá Nýju blikksmiðjunni í um 30 ár, en síðustu árin sem hann starfaði var hann hjá Breiðholti hf. við byggingarvinnu. Andrés var verkamaður og mikill verkalýðssinni. Hann gekk í Verkamannafélagið Dagsbrún upp úr 1940, var kosinn í trúnaðarráð félagsins strax 1946 og sat í því um 40 ár.

Andrés Wendel og Borghild Stoyva gengu í hjónaband 1936. Dætur þeirra: Linda (1940-2009) og Marianna (1943-).

Borghild S. Stoyva var fædd 26. apríl 1908 í Nordfjörd í Noregi. Hún kom ung stúlka til Íslands og vann fyrst fyrir sér í vist á heimilum. Hún var mjög lagin saumakona og vann við sauma bæði heima og á saumastofum. Var í mörg á hjá L. H. Müller og síðar hjá Sævari Karli.

Borghild Wendel andaðist 19. janúar 1994 og Andrés Wendel 1. mars 1994.

(Heimild: Viðar, ársrit íslenzkra héraðsskóla, III. árg., 1938, bls. 152). Morgunblaðið 22. marz 1994, bls. 37. Morgunblaðið 30. mars 1994, bls. 33. Mannlíf og saga fyrir vestan, 7. hefti 2000, bls. 34-35.

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn E-521 Agnar Ingólfsson (1973 - 2013) og Linda Wendel (1940 - 2009)
Flokkun
Flokkur Einstaklingar
Útgáfuár 2014 og 2018
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð líffræði, dýrafræði, sjávarlíffræði,vegabréf, skírteinin, ljósmyndir, filmur, karl, kona.