Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Einar Baldvin Pálsson |
Númer | E-460 |
Lýsing | Einar Baldvin Pálsson, ætt og lífshlaup. Einar Baldvin Pálsson fæddist í Reykjavík 29. febrúar 1912. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 28. október 2011 og vantaði því aðeins 4 mánuði á að verða 100 ára. Foreldrar hans voru Sigríður Franzdóttir Siemsen (1889-1970) og Páll Einarsson, sýslumaður, borgarstjóri og hæstaréttardómari (1868-1954). Alsystkini Einars voru Sigríður (1913-1941) gift Heinrich Roth, Þórunn (1915-1927), Franz Edvard (1917-2005) kvæntur Jóninnu Margréti Pálsdóttur, Ólafur (1921-2011) kvæntur Önnu Sigríði Björnsdóttur og Þórunn Soffía (1932-) gift Sigurbirni J. Þ. Þorgeirssyni. Hálfsystkini Einars af fyrra hjónabandi Páls voru Árni (1897-1970) og Kristín (1898-1940) gift Theódóri Jakobssyni. Árið 1942 kvæntist Einar Kristínu Pálsdóttur, ritara og húsmóður sem fæddist 8. janúar 1917. Foreldrar hennar voru Guðfinna Einarsdóttir (1888-1950) og Páll Magnússon, járnsmíðameistari í Reykjavík (1877-1960). Kristín lést 2. maí 2006. Kristín og Einar eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Sigríður, píanókennari, fædd 7. júní 1943, maki Gunnar Sigurðsson, læknir, fæddur 27. september 1942. Börn þeirra eru Kristín Ragna fædd 2. maí 1968, Sigurður Bjarki fæddur 18. desember 1975 og Ragnheiður fædd 8. nóvember 1977. 2) Páll, jarðeðlisfræðingur, fæddur 27. mars 1947, maki Ingibjörg Briem, þýðandi, fædd 1. ágúst 1947. Þeirra sonur er Magnús fæddur 23. febrúar 1992. Börn Páls af fyrra hjónabandi eru Einar Baldvin fæddur 16. júní 1967 og Jóel Kristinn fæddur 25. maí 1972. 3) Baldvin, verkfræðingur, fæddur 7. apríl 1950, maki Sigrún Steingrímsdóttir, íslenskufræðingur og organisti, fædd 12. mars 1952. Börn Baldvins af fyrra hjónabandi eru Ebba Kristín fædd 4. maí 1974, Gunnar Páll fæddur 25. maí 1982 og Guðrún fædd 23. maí 1990. Fyrir átti Sigrún Valgerði Ólafsdóttir fædd 17. júlí 1977. 4) Árni, líffræðingur, fæddur 2. janúar 1954, maki Unnur Þóra Jökulsdóttir, rithöfundur, fædd 7. júní 1955. Dóttir þeirra er Alda Áslaug Unnardóttir fædd 15. október 2002. Börn Árna af fyrra hjónabandi eru Sigríður Ásta fædd 6. júlí 1974, Steingrímur fæddur 16. maí 1977, Einar Baldvin fæddur 10. mars 1985 og Emil fæddur 22. mars 1991. Barnabarnabörn Kristínar og Einars eru orðin 16 talsins. Eftir fyrstu 2 árin í Reykjavík flutti Einar með foreldrum sínum til Akureyrar þar sem Páll var sýslumaður og bæjarfógeti og þar bjó fjölskyldan í 6 ár. Páll var svo skipaður hæstaréttardómari árið 1919 og árið eftir fluttu þau suður og bjuggu í Höfða í 3 ár sem þá var langt innan við bæinn, en mikill húsnæðisskortur var þá í bænum. Loks flutti fjölskyldan að Vesturgötu 38 þar sem yngsta systirin, Þórunn, fæddist. Eftir komuna til Reykjavíkur hóf Einar störf á Alþingi sem þingsveinn og byrjaði því ekki í skóla fyrr en í síðasta bekk barnaskólans. Hann varð stúdent 1930 úr stærðfræðideild Menntaskólans í Reykjavík aðeins 18 ára gamall. Hann hélt þá til náms í verkfræði til Þýskalands, fyrst til Darmstadt, þar sem hann tók fyrrihlutapróf og síðan til Dresden þar sem hann lauk diplómaprófi 1935. Einar starfaði við háskólann í Dresden um eins árs skeið eftir útskrift en flutti svo til Íslands á fyrri hluta árs 1936 þar sem honum líkaði ekki við ástandið í landinu. Hóf hann störf hjá Reykjavíkurborg og vann fyrstu árin við lagningu hitaveitunnar úr Mosfellssveit til bæjarins. Þá hóf hann störf á gatnadeild og var yfirverkfræðingur og staðgengill bæjarverkfræðings frá 1945 til 1961. Hann lét þá af störfum og starfaði sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi í umferðar- og skipulagsmálum allt til ársins 1973. Vann hann þá meðal annars að umferðarkönnun á höfuðborgarsvæðinu, Aðalskipulagi Reykjavíkur, Umferðarskipulagi í Kópavogi og á Seltjarnarnesi, Strætisvagnakerfi höfuðborgarsvæðisins, Aðalskipulagi Akureyrar og undirbúningi hægri umferðar og sat í framkvæmdanefnd hægri umferðar. Árið 1973 söðlaði Einar um og hóf kennslu við nýstofnað verkfræðinám til lokaprófs við Háskóla Íslands og gerðist prófessor ári síðar. Hafði hann áður um langt árabil verið prófdómari við verkfræðideildina og setið í nefnd um áætlanir um verkfræðinám. Sem prófessor hafði hann umsjón með og/eða kenndi byggðaskipulag, samgöngutækni, vatnsveitur, hitaveitur, fráveitur og umhverfismál. Hann lét af störfum árið 1984. Þá hafði hann þegar hafið, í orðanefnd byggingarverkfræðinga, vinnu við skilgreiningu hugtaka í verkfræði, en honum var mjög umhugað um að hægt væri að tala og skrifa um verkfræðileg vandamál á góðri íslensku og taldi að Háskóli Íslands ætti að vera þar í fylkingarbrjósti. Var starf að íðorðamálum í verkfræði hans meginverkefni næstu 20 árin og ritstýrði hann útgáfu bókar árið 2007 með hluta af íðorðasafninu, Umhverfistækni, Íðorðabók. Einar var mikill félagsmálamaður. Franz bróðir hans kynnti fyrir honum skíðaíþróttina þegar hann kom heim frá námi og í kjölfarið fylgdu mörg ár með skíðaiðkun. Í KR skálanum í Skálafelli kynntist Einar konu sinni, Kristínu, og skipaði Skálafellið ávallt sérstakan sess í hans huga. En brátt tók hann virkan þátt í félagsstörfum tengdum íþróttinni. Hann sat í stjórn skíðadeildar KR, Skíðaráðs Reykjavíkur og Skíðasambands Íslands þar sem hann var formaður um tíma. Hann var skíðadómari og samdi með öðrum leikreglur fyrir skíðaíþróttina. Einnig var hann í Ólympíunefnd Íslands og fararstjóri íslenskra skíðamanna á ólympíuleikana í St. Moritz 1948, Osló 1952 og Innsbruck 1964. Í framhaldi af skíðamennskunni tók hann þátt í nokkrum könnunarleiðöngrum um hálendi Íslands, til dæmis í Kerlingafjöll, Vatnajökul, Mýrdalsjökul og Heklu í gosinu 1947. Einar var mjög virkur þátttakandi í störfum Verkfræðingafélags Íslands, sat þar í stjórn og var meðal annars formaður félagsins um árabil. Einar var mikill náttúruunnandi og hafði sérstakan áhuga á grasafræði og jarðfræði. Hann safnaði plöntum og þurrkaði frá unglingsárum. Hann var í stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags og létu þau hjónin sig helst ekki vanta í hina árlegu löngu ferð á haustin. Loks var Einar mikill tónlistarunnandi. Hann hafði kynnst tónlist á námsárunum í Þýskalandi og eftir heimkomuna sótti hann lengi flesta klassíska tónleika sem boðið var upp á. Sætti hann einnig ávallt færis á að komast á tónleika erlendis þegar hann var á ferðalögum. Hann var í stjórn Kammermúsíkklúbbsins frá árinu 1968 og sótti tónleika hans í Bústaðakirkju sunnudaginn fyrir andlátið. Einar hlaut fjölda viðurkenninga og heiðursmerkja fyrir störf sín. Sjá einnig E-517 og E-518. (Heimild: Baldvin Einarsson). Innihald: Bréf, útreikningar, tilboð, vörulistar, teikningar, ljósmyndir og filmur o.fl. Mestur hluti skjalanna eru afrit. Tímabil: 1908-2005. |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-460 Einar Baldvin Pálsson (1912 - 2011) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Einstaklingar |
Útgáfuár | 2013 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | karl, bæjarverkfræðingur, verkfræði, skíði, Verkfræðingafélag Íslands, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Kammermúsíkklúbburinn, bréf, ljósmyndir, vörulistar, teikningar, hús, bæjarskrifstofa,Skíðasamband Íslands. |