Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Gísli Halldórsson |
Númer | E-359 |
Lýsing | Á 94. afmælisdegi sínum, þriðjudaginn 12. ágúst 2008, afhenti Gísli Halldórsson einkaskjalasafn sitt til eignar og varðveislu á Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Skjalasafnið tengist einkum störfum Gísla fyrir íþróttahreyfinguna og Ólympíunefnd Íslands ásamt atvinnu hans sem arkitekts.
Gísli Halldórsson er fæddur 12. ágúst 1914. Hann lauk prófi úr Iðnskólanum í Reykjavík 1933 og tók sveinspróf í húsasmíði. Hann stundaði arkitektanám í Danmörku, starfrækti teiknistofu með Sigvalda Thordarson í Reykjavík á stríðsárunum en hélt síðan aftur til Kaupmannahafnar og tók lokapróf frá arkitektúrdeild Det Kongelige Akademi for de Skönne Kunster 1947.
Gísli rak einn síns liðs teiknistofu í Reykjavík til 1957 og síðan í félagi við aðra eina stærstu arkitektastofu landsins, Teiknistofuna í Ármúla 6. Gísli var afkastamikill arkitekt og eftir hann liggur fjöldi þekktra bygginga. Á verkefnalista stofu Gísla má nefna margvísleg íþróttamannvirki í Laugardal, Hótel Loftleiðir, Lögreglustöðina í Reykjavík, Tollstöðvarhúsið í Reykjavík, verkamannabústaði í Breiðholti, félagsheimili víða um land, flugstöðvar á Akureyri og Egilsstöðum, fjölbýlishús við Birkimel og eigið hús við Tómasarhaga. Einnig vann hann margvísleg trúnaðarstörf fyrir arkitekta.
Gísli lét einnig mikið að sér kveða á sviði stjórnmála og íþróttamála. Hann var varaborgarfulltrúi frá 1954 og borgarfulltrúi frá 1958. Hann sat í borgarráði Reykjavíkur 1962–1970, var forseti borgarstjórnar 1970–1974 og átti sæti í fjölda ráða og nefnda borgarinnar. Hann var í stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur frá stofnun þess 1944 til 1962, þar af sem formaður frá 1949 til 1962. Gísli var forseti Íþróttasambands Íslands 1962–1980 og sat í Ólympíunefnd Íslands í 32 ár, fyrst sem varaformaður í 18 ár og síðan formaður frá 1972–1996. Auk þess sinnti hann margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna bæði hérlendis og á Norðurlöndum.
Gísli Halldórsson hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín að félagsmálum, þar á meðal stórriddarakross fálkaorðunnar. Hann var gerður að heiðursforseta Íþróttasambands Íslands 1980 og heiðursfélaga Arkitektafélags Íslands 2002. Minnisvarði um Gísla eftir Ragnhildi Steingrímsdóttur var afhjúpaður í Laugardal 1986.
Nánari upplýsingar um ætterni Gísla, líf hans og störf, er m.a. að finna í öskju 1 og í ævisögu hans frá 2005 eftir Jón M. Ívarsson: Gísli Halldórsson – Minningar, menn og málefni.
Teikningar Gísla Halldórssonar eru flestar staðsettar á Byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur.
|
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-359 Gísli Halldórsson (1914 - 2012) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Einstaklingar |
Útgáfuár | 2008, 2009 og 2012 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | karl, arkítekt, borgarfulltrúi, ævisaga, fálkaorða, teikningar, byggingar, bréf, ljósmyndir. |