Jóhannes Proppé

Nánari upplýsingar
Nafn Jóhannes Proppé
Númer E-117
Lýsing

Jóhannes Haraldur Proppé var fæddur 26. desember 1926 í Tjarnargötu 3, Reykjavík.

Foreldrar hans voru hjónin Jóhanna Jósafatsdóttir Proppé (1880-1935) húsfreyja og Carl Friedrich Proppé (1876-1942) stórkaupmaður. Systkini Jóhannesar voru: Laura Hildur Proppé (1905-1992), Fríða Proppé (1906-1975), Clara Proppé (1908-1910), Hugo Adolph Proppé (1909-1933), Jakob Proppé (1910-1911), Carla Hanna Proppé (1912-1977), Gunnar Knútur Proppé (1915- 2006) og Ástráður Jónsson Proppé kjörsonur Carls og Jóhönnu (1916-1995).

Jóhannes kvæntist, 9. apríl 1948, Unni Guðbjörgu Guðmundsdóttur Proppé sjúkraliða, fædd 14. júní 1929. Foreldrar hennar voru þau Guðfinna Árnadóttir (1901-1975) húsmóðir og Guðmundur Helgi Guðmundsson (1897-1971) skipstjóri. Börn Jóhannesar og Unnar eru: Sævar Guðmundur Proppé (1945-), Fríða Proppé (1949), Ragna Björk Proppé (1954), Auður Brynja Proppé (1965)

Jóhannes bjó í Reykjavík alla sína tíð. Hann útskrifaðist frá Verslunarskóla Íslands 1944, var við nám í tryggingafræðum í London 1945-1946 og starfaði með námi hjá Lloyd‘s. Hann vann hjá Samtryggingu ísl. botnvörpunga 1944-1967 og Sjóvátryggingafélagi Íslands 1967-1992, lengst af sem deildarstjóri. Hann fór á eftirlaun 1992 eftir nær hálfrar aldar starf við tryggingar.

Jóhannes lét sig áfengisvarnir miklu skipta og átti sæti í ýmsum nefndum og ráðum í þeim málaflokki. Jóhannes gekk í Frímúrararegluna árið 1950, var dyggur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins alla tíð og vann að ýmsum félags- og framfaramálum, var meðal annars einn af stofnendum Landssambands ísl. hjartasjúklinga og sat í stjórn þess um árabil.

Jóhannes andaðist 21. júlí 2012.

(Heimild: Morgunblaðið, 30. júlí 2012, bls. 20).

Afhending: Skjölin voru afhent Borgarskjalasafni Reykjavíkur 23. júní 1998, 25. ágúst 1999 og Sævar Proppé kom með viðbót við safnið 25. mars 2013 og 4. september 2017.

Innihald: Bréf, dagbækur, fæðingar- og hjúskaparvottorð, einkunnir, vegabréf, ökuskírteini, hlutabréf, bókhald, ljósmynd o.fl.

Tími: 1907-2011.

Magn: 4 öskjur

 

Er geymt í öskju með einkaskjalasafni nr. 116 A- 1 og tvær öskjur nr. 117 A-2 og A- 3

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn E-117 Jóhannes Proppé (1926 - 2012)
Flokkun
Flokkur Einstaklingar
Útgáfuár 1998, 2013 og 2018
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð karl, bréf, dagbækur, sýningarskrár, vottorð, skírteini, Verslunarskóli Íslands, tryggingar, matreiðsla, bókhald, tækifæriskort.