Ragnar Ásgeirsson

Nánari upplýsingar
Nafn Ragnar Ásgeirsson
Númer E-560
Lýsing

ATH: ASKJA 3 ÖRK 3 ER TRÚNAÐARMÁL.

Ragnar Ásgeirsson fæddist í Kóranesi á Mýrum 6. nóvember 1895. Foreldrar hans voru þau Jensína Björg Matthíasdóttir (1864-1928) frá Holti við Skólavörðustíg og Ásgeir Eyþórsson (1868-1942) þá verslunarstjóri að Kóranesi. Eldri systkini Ragnars voru Ásta og Ásgeir (forseti Íslands) en yngri voru Kristín, Matthías og Kormákur.

Kona Ragnars var Margrethe Harne Nielsen (1895-1971). Börn, tengdabörn og barnabörn þeirra hjóna eru:

Eva Ragnarsdóttir, gift Önundi Ásgeirssyni. Þeirra börn: Greta, Ásgeir, Ragnar og Páll Torfi.

Úlfar Ragnarsson, kvæntur Ástu Guðvarðardóttur. Þeirra börn: Aðalheiður, Lilja María, Greta Björg, Sigrún Ragna og Eva Sólveig.

Sigrún Ragnarsdóttir, gift Grími Jósafatssyni. Þau skildu. Þeirra barn: Guðrún Úlfhildur.

Haukur Ragnarsson, kvæntur Gro Sjötveit frá Noregi. Þau skildu. Þeirra börn: Brynjúlfur og Anne Kristín. – Síðari kona: Ásdís Alexandersdóttir. Þau voru barnlaus.

Fjölskylda Ragnars flutti til Reykjavíkur árið 1901 en flest sumur fram að fermingu dvaldi Ragnar að Knarrarnesi á Mýrum hjá frænda sínum. Að vetri stundaði Ragnar nám við barnaskólann í Reykjavík. Hann var snúningssnáði hjá Einari Helgasyni sem þá veitti Gróðrastöðinni í Reykjavík forstöðu og það réði úrslitum um ævistarf Ragnars. Hann taldi Einar til fremstu drengskaparmanna sem hann hafði kynnst. Nýfermdum bauðst honum að fara til Danmerkur í garðyrkjuskóla sem hann þáði og hélt hann utan 1908. Árið 1916 lauk Ragnar garðyrkjuskólanum í Vilvorde í Charlottelund með I. ágætiseinkunn og í kjölfarið kenndi hann 2 skólaár við skólann. Á stuttu námskeið í Vallekilde á Jótlandi kynntist hann konu sinni Margrethe sem var dóttir hóteleiganda í Århus á Jótlandi, Ole Nielsen. Ragnar og Grethe, eins og hún kallaði sig ávallt, gengu í hjónaband 11. janúar 1921.

Ragnar réðst til Búnaðarfélags Íslands 1. apríl 1920 og var hann fyrst til aðstoðar Einars Helgasonar en tók svo við starfi Einars. Ragnar var forstöðumaður Gróðrarstöðvar Búnaðarfélags Íslands árin 1921-1930, þar sem garðyrkjan féll í hans hlut. Fjölmargir sóttu námskeið í garðyrkju sem haldin voru á vegum gróðrastöðvarinnar. Árið 1931 tók Búnaðarfélag Íslands á leigu land á Laugarvatni til garðyrkjutilrauna í heitum og köldum jarðvegi og var Ragnari falin umsjón á þeim tilraunum. Fluttu Ragnar og Grethe heimili sitt þangað og bjuggu þar allt til þeim störfum lauk. Þá fluttu þau til Hveragerðis og dvöldu þar í 19 ár áður en þau fluttu loks til Reykjavíkur.

Ragnar skrifaði átta bækur, þrjá ritlinga sem voru sérprentaðir. Einnig skrifaði hann ógrynni greina í blöð og tímarit, hér heima og erlendis.

(Heimild: Skrudda - Sögur, sagnir og kveðskapur: 3. bindi)

Skjalasafnið kemur úr fórum Hauks Ragnarssonar (1929-2006) og Ásdísar Alexandersdóttur (1931- ). Sjá einnig E-561, Haukur Ragnarsson.

Afhending: Ragnar Önundarson afhenti Borgarskjalasafni Reykjavíkur skjalasafn Ragnars Ásgeirssonar 1. apríl 2015.

Innihald: Bréf, skírnarvottorð, skírteini, einkunnaspjald, vegabréf, minningar, ættartré, ýmislegt varðandi trjá- og kartöflurækt, minjaskrár, ljóðabréf, blaðaúrklippur, garðyrkja o.fl.

Tími: 1886-1971

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn E-560 Ragnar Ásgeirsson (1895 - 1973)
Flokkun
Flokkur Einstaklingar
Útgáfuár 2015
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð karl, vottorð, skírteini, bréf, minningar, ræktun, garðyrkja, minjasafn, Laugarvatn, kartöflur, matreiðsla, ljóð.