Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Sigríður Þóra Árnadóttir og Einar Guðmundsson |
Númer | E-536 |
Lýsing | Sigríður Þóra Árnadóttir var fædd 1. september 1914 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru þau Anna Þórðardóttir (1872-1955) húsfreyja og Árni Þórðarson (1882-1942) steinsmiður. Systir Sigríðar var Guðný Þóra (1915-1997). Sigríður ólst upp við Laugaveginn og hefur búið alla tíð í Reykjavík utan síðustu þrjú árin. Hún lauk barnaskólaprófi 1929. Starfaði lengst af við verslunarstörf, meðal annars rak hún ásamt fjölskyldu sinni verslunina Dal á Framnesvegi á árunum 1958-1972. Þá starfaði hún í Sokkabúðinni á Laugaveginum og versluninni Glugganum sem dóttir hennar rekur í dag. Verslunarstússi hætti hún 1989 og hafði þá starfað við það í 60 ár, ef frá eru talin þau ár er hún gætti bús og barna. Sigríður Þóra Árnadóttir og Einar Guðmundsson gengu í hjónaband 13. október 1934. Dætur þeirra eru Soffía (1934-) og Anna Ragnheiður (1935-) og fóstursonur þeirra er Arnar Gunnarsson (1935-). Einar Guðmundsson var fæddur 5. nóvember 1902 í Reykjavík. Foreldrar hans voru þau Soffía Emelía Einarsdóttir húsfreyja og Guðmundur Guðmundsson formaður og sjósóknari, en þau bjuggu að Bárekseyri á Álftanesi í Bessastaðahrepp. Systkini Einars voru þau Jón, Valgerður, Elín og Sigurður. Foreldrar Einars fluttu til Reykjavíkur vorið 1902 en þar fæddist Einar í Gunnarshúsi við Vesturgötu. Síðar fluttu foreldrar Einars með fjölskyldu sína að Vesturgötu 53a sem ávallt var kallað Bárekseyri, en Guðmundur dó 1917 þegar Einar var 15 ára. Einar fór snemma að vinna og hóf störf fyrst í Sveinsbakaríi og ók brauðunum út um bæinn á handvagni. Síðan var hann á togurum. Árið 1926 hóf Einar akstur vörubifreiða og leigubifreiða frá 1930 þar til heilsan gaf sig haustið 1981. Einar var einn af stofnendum Bifreiðastjórafélagsins Hreyfils. Einar andaðist 2. júní 1984 og Sigríður 24. ágúst 2000. Heimildir: Morgunblaðið 6. júní 1984, bls. 44, Morgunblaðið 3. september 2000, bls. 38. Afhending: Anna Ragnheiður Einarsdóttir afhenti skjalasafnið 16. maí og 28. október 2014 og 3. maí 2016. Innihald: Bréf, einkunnir, vegabréf, ættfræði, skólabækur o.fl. Tímabil: 1914-2010 Með fylgja skrifaðar upplýsingar frá Önnu um ættartengsl gefenda (skjalamyndendur), sem sett er fremst í öskju nr. 1. |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-536 Sigríður Þóra Árnadóttir (1914 - 2000) og Einar Guðmundsson (1902 - 1984) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Einstaklingar |
Útgáfuár | 2014 og 2016 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | karl, kona, hjón, ættartala, bréf, vottorð, skírteini, Hreyfill, leigubíll, tækifæriskort, Landakotsskjóli, Miðbæjarskólinn, Gagnfræðaskólinn við Lindargötu, Gagnfræðaskóli Austurbæjar, Gagnfræðaskólinn í Reykjavík, námsgögn, bókhald, frímerki. |