Íþróttafélagið Fylkir

Nánari upplýsingar
Nafn Íþróttafélagið Fylkir
Númer E-234
Lýsing

Íþróttafélagið Fylkir var stofnað 28. maí 1967 og gegndi heitinu Knattspyrnufélag Seláss og Árbæjar fyrstu þrjú árin. Í öndverðu var æft á sumrin enda var engin aðstaða til æfinga í hverfinu yfir vetrartímann. Fyrsti knattspyrnuvöllur félagsins var sparkvöllur neðarlega við Rofabæ en hann þótti ekki beysinn og lék Fylkir heimaleiki sína fyrstu árin á Háskólavellinum.

Handboltaæfingar hófust um það bil tveimur árum eftir stofnun félagsins og þá bæði í karla- og kvennaflokkum en formleg deildaskipting var tekin upp árið 1972 með stofnun knattspyrnu- og handknattleiksdeilda. Fimleikadeild var stofnuð 1976 og um svipað leyti var stofnuð siglingadeild en starfsemi hennar lagðist síðar af. Skipulagðar æfingar í karate hófust 1987 en karatedeildin var stofnuð 1996. Farið var að æfa blak hjá félaginu 1991 og blakdeild stofnuð formlega 1993; þá er jafnframt leikin keila í nafni félagsins. Skákæfingar undir merkjum Fylkis fóru fram um nokkurt skeið (hófust 1973) en lögðust síðar af. Það sama má segja um körfuknattleiksdeildina sem var stofnuð formlega árið 1994 en starfsemi hennar lauk fjórum árum síðar.

Aðstöðuleysi einkenndi starf Fylkis framan af þótt ekki létu félagsmenn deigann síga. Mikil breyting varð með tilkomu íþróttahúss Árbæjarskóla en salur þess var lítill og af þeim sökum sóttu elstu flokkar í handknattleik m.a. æfingar í önnur íþróttahús. Fylkir tók í notkun prýðilegan malarvöll 1973 og þremur árum síðar var vígt félagsheimili við völlinn; það var að öllu leyti byggt í sjálfboðavinnu. Þó var engin búningsaðstaða var við malarvöllinn en úr því var bætt 1977 þegar bygging búningsklefahússins hófst; það var vígt árið 1978 og hýsti auk þess skrifstofu- og félagsaðstöðu.

Fylki var formlega afhent landið fyrir starfsemi félagsins árið 1982. Skömmu síðar hófst undirbúningur að gerð grasvalla og var fyrsti völlurinn af því tagi vígður 1987. Þeir eru nú þrír talsins og lauk gerð þeirra 1991. Nokkrum árum áður hafði verið tekin fyrsta skóflustungan að íþróttahúsi félagsins og var Fylkishöllin formlega vígð árið 1995.

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn E-234 Íþróttafélagið Fylkir (1967)
Flokkun
Flokkur Félagasamtök
Útgáfuár 2002, 2004, 2009, 2012, 2014.
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð íþróttafélög, íþróttir, Árbær, tómstundir