Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Knattspyrnufélag Valur |
Númer | E-310 |
Lýsing | Knattspyrnufélagið Valur var stofnað hinn 11. maí árið 1911; stofnendur voru sex piltar úr KFUM sem allir höfðu starfað innan unglingadeildar KFUM í Reykjavík undir forystu séra Friðriks Friðrikssonar. Í öndverðu hlaut félagið nafnið Knattspyrnufélag KFUM en því var breytt í Val þegar árið 1911. Félagið tók í fyrsta sinn þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu árið 1915 og atti þar kappi við Fram og KR en Valur varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn 1930. Árið 1916 var stofnuð yngri deild í félaginu sem hlaut nafnið Væringjar og um 1940 fóru aðrar íþróttagreinar en knattspyrna smám saman að ryðja sér til rúms innan félagsins, þ.m.t. handknattleikur. Þá var handknattleiksdeild kvenna stofnuð innan Vals árið 1948 en fram að seinna stríði höfðu einungis piltar átt aðild að félaginu, aðallega vegna náinna tengsla við KFUM. Árið 1959 var tekin upp deildaskipting hjá félaginu og urðu þá til knattspyrnudeild, handknattleiksdeild og skíðadeild. Á sjöunda áratug 20. aldar var stofnuð sérstök badmintondeild og loks varð til körfuknattleiksdeild árið 1970. Fyrsti knattspyrnuvöllur Vals var á Melunum en hann var tekinn af félaginu árið 1926. Nokkru síðar var félaginu úthlutað svæði við rætur Öskjuhlíðar, svonefndu Haukalandi, og þar var keppt frá 1935. Það var svo árið 1939 að gengið var frá kaupum á jörðinni Hlíðarenda við Öskjuhlíð, skammt frá gamla Valsvellinum. Þar var vígður malarvöllur árið 1949 og grasvöllur fjórum árum síðar. Íþróttahúsið við Hlíðarenda var tekið í notkun 1958 en það var fullgert árið 1960. Nýr grasvöllur í fullri stærð var vígður á Hlíðarenda árið 1981. Nú er unnið að gríðarlegri uppbyggingu á Valssvæðinu í takt við nýtt deiliskipulag svæðisins. Í megindráttum felur það í sér að aðalleikvangur félagsins verður færður yfir á núverandi malarvöll, byggt verður nýtt og stærra íþróttahús með sambyggðri áhorfendastúku, þá skal einnig rísa ný tveggja hæða tengibygging sem tengir saman nýtt íþróttahús og eldri byggingar oglagður verður upphitaður gervigrasvöllur með fljóðljósum. |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-310 Knattspyrnufélag Valur (1911) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Félagasamtök |
Útgáfuár | 2006 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | íþróttafélög, fasteignafélög, tómstundir, íþróttir, trúmál |