Knattspyrnufélagið Víkingur

Nánari upplýsingar
Nafn Knattspyrnufélagið Víkingur
Númer E-276
Lýsing

Knattspyrnufélagið Víkingur var stofnað 21. apríl 1908 og á stofnfund mættu 32 piltar. Aðalhvatamenn og í fyrstu stjórn félagsins voru Axel Andrésson, formaður, þá 12 ára gamall, Emil Thoroddsen, ritari (9 ára) og Davíð Jóhannesson, gjaldkeri (11 ára). Aðrir stofnendur voru Páll Andrésson (8 ára) og Þórður Albertsson (9 ára). Upphaflegt markmið með stofnun Víkings var ánægjan að spila knattspyrnu og að fjármagna kaup á fótbolta.

Fyrsti opinberi knattspyrnuleikur Víkings var við KR árið 1914 og tók félagið í fyrsta skipti þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu árið 1918. 1939 var síðan stofnuð sérstök skíðadeild innan Víkings og 1943 handknattleiksdeild. Þá var fulltrúaráð Víkings stofnað 1954, blakdeild, borðtennisdeild og badmintondeild árið 1973, tennisdeild 1988 og karatedeild árið 2000.

Fyrsti fasti samastaður félagsins var Camp Tripoli sem var braggi við Suðurgötu og þjónaði sem félagsheimili Víkings frá 1947 til um 1950. Lengi hafði félagið engan samastað og voru fundir haldnir á hinum ýmsu stöðum og íþróttaaðstaða engin. Víkingi var síðan úthlutað félagssvæði í Vatnsmýri ásamt ÍR en svæðið þótti of lítið og var fljótlega farið að leita að öðrum hentugri stöðum í Reykjavík. Árið 1953 var svo tekin skóflustunga að nýju félagsheimili Víkings að Hæðargarði í Bústaða- og smáíbúðahverfi sem þá var í mikilli uppbyggingu. Þrátt fyrir að nýtt félagsheimili hafði risið var öll starfsaðstaða bágborin, ekkert íþróttahús og engin vallaraðstaða varð til þess að íþróttaæfingar fóru fram víðsvegar um bæinn. Það er svo ekki fyrr en félagið fær úthlutað landi í Fossvogi árið 1976 að farið er að byggja til framtíðar upp íþróttaaðstöðu. Þar var byggður knattspyrnuvöllur 1981, vallarhús 1988 og íþróttahús 1991 og hefur aðstaðan verið töluvert bætt þar síðustu ár og er hún nú orðin ágæt.

Skjöl Knattspyrnufélagsins Víkings voru afhent Borgarskjalasafni Reykjavíkur til varðveislu af Þór Símoni Ragnarssyni, formanni, hinn 6. maí 2003. Að sögn formanns virðist sem elstu skjöl félagsins hafi ekki varðveist og má að öllum líkindum um kenna aðstöðuleysi og að félagið hafði ekki fastan samastað fyrr en árið 1947. Ekki virðist heldur hafa verið haldið skipulega utan um skjalasafnið þar sem mikið vantar inn í safnið, s.s. fundargerðabækur, bréf og bókhald.

17. nóvember 2003 barst til Borgarskjalasafns skjöl frá fyrrverandi formanni Víkings, Ólafi Jónssyni (Óla Flosa) frá Ólafi Rastrick. Fundust skjölin á háalofti í Skipholti 54 þar sem Ólafur Jónsson bjó áður. Um er að ræða fundargerðabók, ljósmyndir og bréf frá Knattspyrnufélaginu Víkingi og voru þau sett inn í þetta skjalasafn. Eru þau skjöl skráð að þau séu úr fórum Ólafs Jónssonar, fyrrv. formanns Víkings í skjalaskránni.

Ný skjalasending barst í desember 2004. Þau skjöl eru í öskjum 27–58.

Önnur skjalasending barst í mars 2009, að stórum hluta myndir. Þau gögn eru flest í öskjum 59–78. Sum skjöl voru þó sett í eldri öskjur þar sem þau áttu betur heima og pláss leyfði. Sem dæmi má nefna fundargerðabók aðalfunda Knattspyrnufélagsins Víkings frá 1965–2006 sem fór í öskju 1. Eins mætti nefna leikskrár og ársskýrslur sem raðað var í tímaröð og settar í viðeigandi öskjur. Slíkra frávika er getið í neðanmálsgreinum.

Skjöl tengd Víkingi er einnig að finna í einkaskjalasafni Axels Andréssonar nr. 388.

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn E-276 Knattspyrnufélagið Víkingur (1908)
Flokkun
Flokkur Félagasamtök
Útgáfuár 2009
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð íþróttafélag, 1908, bikarmeistarar, e-388