Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Lionsumdæmið á Íslandi |
Númer | E-610 |
Lýsing | ions er stærsta alþjóðlega þjónustuhreyfing heims, stofnuð í Bandaríkjunum 1917. Í dag starfa yfir 1,4 milljónir Lionsfélaga, í 46.000 Lionsklúbbum í 206 löndum. Lions er óháð stjórnmálaflokkum og trúfélögum. Í Lions er farvegur umræðna sem efla og þroska. Lögð er áhersla á vináttu félaganna og fjölskyldna þeirra. Vináttan er undirstaða að starfi Lionsklúbba. Lionsfélagar er tryggur vinahópur, sem stendur saman og styðja hvern annan. Í Lions eignast margir sína bestu vini. Í Lions öðlast félagar félagslega þjálfun og þar fer einnig fram markviss fræðsla. Í Lions eru mörg tilboð um fræðslu og gagnast hún ekki aðeins til starfa í Lions, heldur einnig í atvinnulífinu og í daglegu lífi. Lions býður upp á fjölbreytt félagslíf, fræðslu, skemmtanir, verkefni, fundi og ferðalög með vinum og fjölskyldum. Alþjóðaþingið er æðsta stofnun Lionshreyfingarinnar. Árlega er haldið Alþjóðaþing Lions og þar hittast um 20.000 Lionsfélagar í eina viku. Þingin eru haldin á sumrin, um mánaðarmót júní og júlí. Til Íslands barst Lionshreyfingin árið 1951 þegar fyrsti klúbburinn, Lionsklúbbur Reykjavíkur, var stofnaður hinn 14. ágúst. Ísland er sjálfstætt fjölumdæmi innan Alþjóðasambands Lionsklúbba og nefnist fjölumdæmi 109 sem síðan skiptist í umdæmi 109A og 109B. Í umdæmi A eru 1.255 félagar og í umdæmi B eru 921 félagar. Lionsfélagar á öllu landinu eru þannig í dag 2.176 talsins. Einn Lionnessuklúbbur er starfandi. Í Lions vinna saman konur og karlar, ungir og aldnir. Framan af var Lions eingöngu félagsskapur karla. Konur komu inn í hreyfinguna með stofnun Lionessuklúbba. Árið 1987 fengu konur sama rétt og karlar í Lionsklúbbum. Í dag eru konur um 20% félaga og er markvisst unnið að fjölgun kvenna í Lionshreyfingunni. Lionsfélagar láta gott af sér leiða á sviði mannúðar- og menningarmála. Klúbbar styðja sitt byggðarlag og taka þátt í landsverkefnum og alþjóðlegum verkefnum. Lionsfélagar leggja lið þeim sem minna mega sín, meðal annars sjúkum, sjóndöprum og fötluðum. Einnig eru verkefni tengd börnum, öldruðum, menningarmálum og umhverfi. Íslenskir Lionsklúbbar taka þátt í alþjóðastarfi Lions. Markmið Lions. Að skipuleggja, stofna og hafa eftirlit með starfi þjónustuklúbba sem nefndir eru Lionsklúbbar. Að samhæfa verkefni Lionsklúbba og samræma stjórnunarhætti þeirra. Að vekja og efla anda skilnings meðal þjóða heims. Að efla meginreglur heilbrigðs stjórnarfars og borgaralegra dyggða. Að sýna virkan áhuga á velferð samfélagsins í félagsmálum, menningu og almennu siðgæði. Að tengja klúbbana böndum vináttu, góðs félagsanda og gagnkvæms skilnings. Að skapa vettvang fyrir frjálsar umræður um málefni sem varða almannaheill, en undanskilja þó umræður um stjórnmál og trúarbrögð. Að hvetja þjónustuviljugt fólk til að leggja lið í sínu samfélagi, án persónulegs, fjárhagslegs ávinnings og hvetja til dugnaðar og eflingar siðgæðis í viðskiptum, iðnaði, atvinulífi, opinberri þjónustu og einkarekstri. Siðareglur Að líta á starf mitt sem köllun og leysa það svo af hendi að ég ávinni mér traust. Að leitast við að ná góðum árangri í starfi mínu og áskilja mér hæfilega umbun erfiðis míns, en reyna ekki að hagnast með óréttmætum hætti. Að muna að láta ávinning minn ekki verða á annarra kostnað; að vera trúr meðbræðrum mínum og heiðarlegur gagnvart sjálfum mér. Leiki vafi á lagalegu eða siðferðilegu réttmæti gerða minna, að breyta þá við náungann eins og ég vil að hann breyti við mig. Að gera vináttu að markmiði, ekki leið að marki. Sönn vinátta krefst einskis í eigin þágu og má aldrei vera háð gagnkvæmum greiða. Að hafa ætíð í huga skyldur mínar sem þjóðfélagsþegn og að vera hollur þegn þjóðar og byggðarlags bæði í orði og verki. Að hjálpa meðbræðrum mínum í vanda. Þeir sem um sárt eiga að binda þurfa hluttekningu, bágstaddir og minnimáttar stuðning. Að vera gætinn í gagnrýni og örlátur á hrós. Að byggja upp, en rífa ekki niður. Norrænt samstarf Lionsklúbba Fyrsti Lionsklúbburinn í Evrópu var stofnaður í Svíþjóð og er fjölumdæmið í Svíþjóð nefnt MD 101 (Multi District). Af Norðurlöndunum var Noregur næst með MD 104 svo kom Danmörk með MD 106, Finnland með 107 og Ísland með MD 109. Lionsklúbbarnir á Norðurlöndunum hafa með sér samstarf á mörgum sviðum. NSR (norrænt samstarfsráð) er myndað af fjölumdæmisráðum Norðurlandanna fimm. Fulltrúar Norðurlandanna hittast á þingum (NSR þingum) í janúar á hverju ári. Þingin eru haldin til skiptis á Norðurlöndunum og fer fjölumdæmisstjóri þess Norðurlandanna hvar þingið er haldið með forsæti. Hann boðar aðra fjölumdæmisstjóra Norðurlandanna til fundar, gjarnan strax á alþjóðaþingi sem markar upphaf starfsárssins, setur upp dagskrá, stjórnar fundi, annast samræmingu milli Norðurlandanna um tímasetningar NSR þinga og fleira. Á slíkum fundum er einnig sett upp hvar og hvenær fjölumdæmisþing (Årsmöte) eru haldin á hinum Norðurlöndunum til að forðast að þau séu haldin um sömu helgi. Það tíðkast að fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum sæki sem gestir fjölumdæmisþing hinna landanna þar sem fráfarandi umdæmis- eða fjölumdæmisstjóri veljast gjarnan sem fulltrúar er forsenda þess að svo megi verða að þingin séu ekki á sömu helgi. Valið er eitt verðugt samnorrænt verkefni til tveggja ára svonefnt NSR verkefni. Norðurlöndin fjármagna NSR verkefnið hvert að sínum hluta sem tekur mið af fjölda Lionsfélaga í hverju landi. Ísland er með um það bil 4% af heildar félagafjölda Norðurlandanna. Hlutur Íslands í NSR verkefninu er því um 4%. Annað samnorrænt verkefni er sumarsinfóníuhljómsveit ungmenna á aldrinum 15-25 ára frá Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum. Frá 1993 hefur ungt tónlistarfólk komið saman að sumri til æfinga og tónleikaferðalaga Alþjóðastarfið. Kjörorð Lions er: ,,Við leggjum lið” (We Serve). Lionsfélagar láta gott af sér leiða á sviði mannúðar- og menningarmála. Lionsklúbbar eru skipaðir athafnasömu og félagssinnuðu fólki og er góður vettvangur fyrir fólk sem vill vinna að velferðarmálum. Alþjóðleg Lionsverkefni: LCIF- Alþjóðahjálparsjóður Lions er hinn opinberi líknarsjóður allra Lionsklúbba. LCIF hefur veitt 700 milljónir dollara í 100.000 styrki til að bæta líf fólks um allan heim. Árlega veitir LCIF styrki fyrir um 30 milljónir Bandaríkjadala. En auk þess sinna allir Lionsklúbbar margs konar öðrum verkefnum á sviði líknar- og menningarmála. Ákveðin verkefni eru skilgreind á verksviði Lions: Samfélagsverkefni, Menningarverkefni, Umhverfismál, Heilbrigðis- og velferðarmál og Lions með börnum og ungmenum. Lionsklúbbar sinna gjarnan sinni heimabyggð, síðan landsverkefnum og einnig alþjóðlegum verkefnum. Alþjóðleg verkefni sem Lions á Íslandi tekur virkan þátt í eru meðal annars. Unglingaskipti, Lions Quest, Friðarveggspjaldakeppni ungmenna. Ljósmyndasamkeppni i náttúrumyndum o.fl. Alþjóðleg verkefni Lions á Norðurlöndum Lions í Svíþjóð styrkir meðal annars verkefni fyrir börn og unglinga í austur Evrópu; sjónvernd meðal annars með gleraugnasöfnun. Sænski neyðarsjóðurinn bregst rausnarlega við náttúrhamförum. Lions í Noregi styrkir mörg verkefni erlendis, meðal annars augnspítala í Úganda, Zambíu og Malawi; vatnsbrunna í Úganda; skóla í Kenya, Úganda, Indlandi og Chile og m.fl. Lions í Danmörku styrkir verkefni meðal annars í Bólivíu, Líberíu, Litháen og Sierra Leone. Lions í Finnlandi styrkir meðal annars börn á Sri Lanka, ungmenni í Eystrasaltslöndunum, barnaheimili, skóla, sjúkrahús, elliheimili og fjölskyldur í rússnesku Kirjálahéruðunum. Lions á Íslandi hefur einkum stutt samnorræn verkefni, en heimili fyrir munaðarlaus og fötuð börn í Friazino í Rússlandi var okkar „framlag“ 1990 og höfum við stutt það síðan. |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-610 Lionsumdæmið á Íslandi (1951) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Félagasamtök |
Útgáfuár | 2017 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | alþjóðleg félagasamtök, kiwanis-klúbbar, góðgerðastarf |