MSC Ísland

Nánari upplýsingar
Nafn MSC Ísland
Númer E-570
Lýsing

MSC Ísland var stofnað 1985 og starfaði til 2011. Tilgangur félagsins var að koma upp gay lífi í Reykjavík, möguleikum fyrir samkynhneigða karlmenn til að hittast og kynnast, og byggðist á þeirri sannfæringu að því fylgdi mikil gleði og hamingja og ekki síður að réttindabaráttan fengi ekkert vægi fyrr en fólkið sem krefðist viðurkenningar á að vera til léti sjá sig, hætti að vera í felum og kæmi út úr skápnum. Í rauninn var þetta því hápólitískt starf.

Stofnendur voru þeir sömu og stóðu fyrir Iceland Hospitality, grasrótarsamtökum homma sem störfuðu frá 1975 fram í ársbyrjun 1978. Þá fluttust forystumennirnir úr landi og félagaskrá og pósthólf urðu undirstaða stofnunar Samtakanna 78. Þegar þessir sömu menn komu heim upp úr 1980 þótti þeim dauflegt hér miðað við gay lífið sem þeir höfðu kynnst í útlöndum og ákváðu að bæta úr því. Þeir völdu leðurklúbbsformið af því að þeir voru sammála um að leðurstaðir væri skemmtilegustu gay staðirnir og þá væri líka ljóst að nýttt félag væri ekki klofningur úr Samtökunum sem MSC studdi alla tíð. Þannig komust Íslendingar líka í einu virku alþjóðasamtök samkynhneigðra á þeim tíma, Evrópusamband leðurklúbba, ECMC, samök um 40 klúbba með yfir 5000 félaga.

Leður- og fetishklæðnaðurinn í MSC-klúbbnum tengdist á margvíslegan hátt félagslegum hefðum og menningargildum, yfirkeyrðri karlmennskuímynd sem nýttist klúbbnum vel á ýmsan hátt við að ná tilgangi sínum: að skapa siðmenntað samkvæmislíf fyrir samkynhneigða karlmenn í Reykjavík. Klæðnaðurinn var þegjandi yfirlýsing um að menn fylgdu stefnu og gildum klúbbsins og setti stíl á samkomurnar, til dæmis árlegan fullveldisfagnað 1. desember sem var hátíðlegur kvöldverður með öllum formlegheitum.

Fyrstu árin fékk MSC-klúbburinn oft inni í húsnæði Samtakanna 78, í Brautarholti og síðan á Lindargötu, og einnig tókst gott samstarf við skemmtistaðinn á Laugavegi 22. Fulltrúar klúbbsins fóru á ársfundi ECMC og allt frá 1986 var evrópsku klúbbunum árlega boðið á hátíð á Íslandi. Í fyrstu voru þær utan Reykjavíkur, meðal annars á Snæfellsnesi og við Markarfljót, en síðan í bænum. Eftir 1995 tók klúbburinn líka upp nánara samstarf við ToE, samtök gay leðurklúbba á Norðurlöndum, og hélt ársfund ToE í Reykjavík á páskum 1998. Þá komu yfir 50 gestir sem voru hér yfir alla páskana og vöktu athygli í fásinninu.

MSC Ísland fékk sitt eigið húsnæði vorið 1997 í Bankastræti 1, gengið inn frá Ingólfsstræti, og þar var opið á hverri helgi allt til 2008. Þá fluttist klúbburinn í stærra húsnæði á Laugavegi 28. Klúbburinn var alla tíð vel sóttur, ekki síst af útlendingum, og naut þar kynningar gegnum aðild að ECMC. Allt starf var unnið í sjálfboðavinnu og fyrstu árin gekk það mjög vel en smám saman fór vinnan að hlaðast á fáa félaga. Sérstaklega varð þess vart að yngri félagar höfðu ekki tilfinningu fyrir því að vinna saman sjálfum sér í hag og í árslok 2010 var ákveðið að aldarfjórðungsstarf væri nóg og klúbburinn hætti starfsemi í mars 2011.

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn E-570 MSC Ísland (1985-2011)
Flokkun
Flokkur Félagasamtök
Útgáfuár 2015
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð samkynhneigðir karlmenn, hinsegin