Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Richard Wagner félagið á Íslandi |
Númer | E-590 |
Lýsing | Richard Wagner félagið á Íslandi var stofnað 12. desember 1995. Tengdist stofnun þess bæði með beinum og óbeinum hætti sýningunni á styttri gerð Niflungahrings Wagners á Listahátíð 1994, en að þeirri sýningu stóðu sömu aðilar og tóku höndum saman um uppsetningu Hollendingsins fljúgandi árið 2002. Undirrituð sem verið hefur formaður Wagner félagsins frá upphafi sat þá í stjórn Listahátíðar og kom ásamt Árna Tómasi Ragnarssyni á þeim tengslum við Festspielhaus í Bayreuth sem urðu til þess að stjórnandi Bayreuthhátíðarinnar, Wolfgang Wagner, tók að sér listræna yfirumsjón með verkefninu. Það vakti fyrir forsvarsmönnum Listahátíðar 1994 að brjóta blað í óperuflutningi hérlendis með því að koma Wagner óperu á svið. Þetta ár var 50. afmælisár íslenska lýðveldisins og m.a. af þeirri ástæðu setti Wolfgang Wagner fram þá djörfu og óvæntu hugmynd að sett yrði upp sýning á Niflungahringnum innan þeirra marka sem aðstæður leyfðu. Sýnd yrðu valin brot með textainnskotum þar sem hin nánu tengsl verksins við íslenskan bókmenntaarf kæmu berlega í ljós. Uppsetningin tókst afar vel og vakti mikla athygli og hrifningu langt út fyrir landsteinana. Hérlendis hafði hún þau áhrif að þjappa saman bæði þeim mörgu einlægu Wagner aðdáendum sem fyrir voru auk þess sem þeim fjölgaði mjög. Ekki síst bættust í hópinn ýmsir fræðimenn sem lögðu lið við að rannsaka nánar með hvaða hætti íslenskar bókmenntir skiptu Wagner svo miklu máli. Í stjórn félagsins frá upphafi voru tveir miklir hvatamenn að slíkum rannsóknum, annars vegar Jóhannes heitinn Jónasson lögreglumaður sem bjó yfir mjög umfangsmikilli þekkingu á Wagnerfræðum og hins vegar Jóhann J. Ólafsson stórkaupmaður sem bar það mjög fyrir brjósti að íslenskir fræðimenn gerðu þessu efni viðeigandi skil. Félagið hefur lagt mikla áherslu á að veita þessum rannsóknum brautargengi og fyrir tilstilli þess og með stuðningi fyrrverandi menntamálaráðherra, Björns Bjarnasonar, tók dr. Árni Björnsson að sér verkefnið. Eftir umfangsmikla skoðun á efninu komu niðurstöður Árna út á bók hjá Máli og menningu í árslok árið 2000. Í bókinni sem ber heitið Wagner og Völsungar er leitt í ljós að um það bil fjórir fimmtu hlutar af aðfengnum efnishugmyndum Wagners í Niflungahringnum eigi rekjanlegar rætur í íslenskum bókmenntum og eru það einkum Eddukvæðin, Snorra-Edda og Völsungasaga sem hér um ræðir. Unnið er að því að koma þýðingu bókarinnar Wagner og Völsungar í dreifingu erlendis. Ítarleg grein Árna Björnssonar um þessar rannsóknir mun auk þess birtast í efnisskrá Bayreuthhátíðarinnar á komandi sumri. Hlutverk Richard Wagner félagsins hefur að öðru leyti verið að halda uppi öflugu kynningarstarfi á verkum Wagners með myndbandssýningum, fyrirlestrum og tónleikum. Síðast en ekki síst hefur stjórn félagsins stuðlað að óperuferðum til Bayreuth og haft einstaka aðstöðu til að útvega félagsmönnum sínum miða á hátíðina þar sem annars þarf að sækja um og bíða eftir í að minnsta kosti 7 ár eða meira. Eru þessi forréttindi okkar til komin vegna þeirra einstöku velvildar og hlýhugs sem Wolfgang Wagner og kona hans, Gudrun, hafa sýnt forsvarsmönnum félagsins og Íslendingum allt frá því þau lögðu sýningu Niflungahringsins lið 1994. Félagið sendir auk þessa árlega ungan söngvara eða sviðslistamann sem styrkþega á hátíðina í samvinnu við Styrkþegastofnunina í Bayreuth og fær viðkomandi að sjá þrjár sýningar auk annarrar fyrirgreiðslu. Félagsmenn eru um 200 talsins og samkomur á vegum félagsins að jafnaði vel sóttar. |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-590 Richard Wagner félagið á Íslandi |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Félagasamtök |
Útgáfuár | 2016 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | listir, menning, Richard Wagner, Selma Guðmundsdóttir, |