Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Skautafélag Reykjavíkur |
Númer | E-515 |
Lýsing | „Fyrstu heimildir í sögu Skautafélags Reykjavíkur eru frá miðri 19 öld þegar nemar í Latínuskólanum stunduðu skautahlaup á Tjörninni. Félagið var fyrst stofnað 1873 af menntaskólanemum og er eitt af elstu íþróttafélögum Reykjavíkur. Óljóst er hvenær það hætti starfsemi en síðan var það endurvakið því almennur áhugi á skautaíþróttum fór ört vaxandi. Þann 7. janúar 1893 var Skautafélag Reykjavíkur síðan endurvakið, aðalhvatamaðurinn að viðreisn þess var Axel V. Tulinius sem nýkomin var heim eftir nám í lögfræði í Kaupmannahöfn. Haustið áður en félagið var stofnað hafði Axel farið þess á leit við bæjarstjórn að fá að afgirða svæði á tjörninni og dæla vatni á ísinn. Bæjarstjórn veitti leyfið. Félagið var þróttmikið á sínum fyrstu árum enda viðraði vel til skautaiðkunar. Fyrir kom að félagið stóð fyrir því að dæla vatni inn á Austurvöll til skautaiðkana. Upp úr 1895 fór að hlýna í veðri og lagðist þá starfsemin að mestu af í rúman áratug. Það var svo 12. desember 1908 að lesa má eftirfarandi greinarkorn í Ísafold undir fyrirsögninni: „Skautafélagið” „ það heitir því nafni vegna þess, að þar er aldrei farið á skautum, segja gárungarnir, hálf-ýknir líklegast þó; heldur er þar dansað á vetrum, og riðið út á sumrum. En það ætlar nú að bæta ráð sitt og manna sig upp í það að fara að – temja sér skautaferð hér á Tjörninni. Félagatalan var í haust komin ofan í 100. Hún hefur aukist um 50 síðan. Hún ætti að vera orðin 500 fyrir áramót. Því að nú er veður og ís til skautaferða hér á Tjörninni, bezta hjarn dag eftir dag og fegursta tunglskin kveld eftir kveld. Þessi litli glæðingur núna mun vera að þakka aðallega norskum manni sem er að ílendast hér, Möller verzlunarmanni frá Niðarósi, alvönum skautaferðum þaðan og öllu atferli við þá frægu þjóðskemmtun þar í landi. Hann er áhugamaður mikill um það mál. Hann vill láta íslendinga gerast að nýju afreksmenn í þeirri list, og honum finnst engin goðgá að nefna það, að einhver Íslendingur gerist áður en langt um líkur heimsmeistari í henni. Hann vill láta efna til veðhlaupa á skautum á Tjörninni í vetur þrívegis og hafa þar almennan útbúnað fyrir þá sem vilja íþrótt sína eða temja sig við hana. Nóg er ljós á kvöldum, er tunglskin bregst. Tjald með hressingum o.s.frv. Hljóðfærasláttur.” Möller sá sem þarna er minnst á mun hafa verið kaupmaðurinn Lorents H. Müller sem kom til Íslands 1906. Müller var mikill áhugamaður um vetraríþróttir eins og flestir landar hans, bæði um skautaíþróttir og skíði. Müller stóð við loforð sitt um að efna til „veðhlaupa” á Skautum á Tjörninni. 31. janúar 1909 efndi Skautafélag Reykjavíkur til fyrsta skautamótsins hér á landi. 23 þátttakendur kepptu í fjórum aldursflokkum. Yngri keppendur hlupu 500 metra en þeir eldri 1000 metra. Sigraði Sigurjón Pétursson í elsta flokkinum og hljóp hann vegalengdina á tveimur mínútum, tuttugu og einni sekúndu og einum fimmta úr sekúndu. 6. febrúar birtist ljóðræn frétt af mótinu í Ísafold: „Þar er eins og hér sé komið gróðurmagnað íþrótta – loftslag síðustu misserin; þær spretta upp hver af annarri með óvenjumiklum blóma. Ein þeirra er skautalistin. Hún á stórmikið fylgi hér í bæ, meira en nokkru sinni áður; það sást sunnudaginn er var. Þá var stofnað til skauta-kappfarar á Tjörninni. Ekki þreyttu reyndar fleiri förina þá en 23 menn talsins; en það mun hafa stafað miklu fremur af hæversku og alkunnri íslenzkri hlédrægni um að eiga þátt í sýningum fyrir almenning, heldur en hinu, að verið hafi af áhugaleysi. Hringskeiðið alt, geysistórt, var umkringt áhorfendum, þéttri röð víðast hvar.” Frásögninni af mótinu lýkur svo á eftirfarandi orðum: „Ef haldið er vel og áhugasamlega í það horf, sem nú stefnir, þá ætti ekki að líða á ýkja löngu þar til Íslendingar eru aftur orðnir sannkölluð íþrótta-þjóð. Gott meðan svona gengur! Framförin er á skautum.” Skautafélag Reykjavíkur starfaði allt til ársins 1927 og efndi iðulega til skautakapphlaupa auk þess sem tónlist var leikin við svellið og skotið upp flugeldum. Veðrið setti þó strik í reikninginn á stundum ein og eftirfarandi smáfrétt frá því í mars 1912 ber vitni um. „Aldrei hefir í manna minnum verið eins ilt um skautasvell hér í bænum eins og í vetur. Frost verið jafn fátíð og hvítir hrafnar og ís einnig ákaflega vandgæfur. Fyrir bragðið hefir reynst nær ókleift að stunda skautaíþróttina svo nokkru nemi í vetur. Kapphlaup hafa af þessum ástæðum orðið miklu færri og einnig tilkomuminni en átt hefði að vera.” Leifur Muller sonur Lorentz lýsir stemmingunni vel í ævisögu sinni „Býr Íslendingur hér” „Gróskan sem fylgdi Skautafélaginu vað til þess að á vetrarköldum urðu skautar eitt helsta tómstundagaman ungs fólks. Þá var sjarmi yfir Tjörninni. Hún var samkomustaður okkar krakkanna og margur pilturinn fór þá í fyrsta sinn til fundar við unga stúlku í horninu þar sem nú er verið að reisa ráðhús.” Ágrip úr sögu SR- 2. hluti. Fyrri heimsstyrjöldin drap í dróma þá miklu grósku sem verið hafði í vetraríþróttum á fyrstu árum aldarinnar, auk þess sem erfitt veðurfar og framtaksleysi hafði sín áhrif. Þannig má lesa í fyrsta tölublaði Þróttar í janúar 1918, að síðustu þrjú árin hafi engin maður sést á skautum að heita má. „Það eru allmikil umskipti á því sem áður var, því að fyrir nokkrum árum voru hér margir ágætis skautamenn og skautahlaup tíðkuð af áhuga og kappi. um það munu skiptar skoðanir hverju þessi afturkippur er að kenna og það er víst að til þess eru margar ástæður, sem öllum eru kunnar. - Það sýnist svo sem Skautafélag Reykjavíkur ætti að vera íþróttinni sverð og skjöldur hér um slóðir. En það hefur reynst á annan veg. Síðustu árin hefir Skautafélagið verið í skollaleik við veðráttuna. Félagið hefir aldrei bært á sér fyrr en frost hefur haldist í langan tíma. Það er eins og það hafi beðið eftir að sjá hvort frost væri komið fyrir alvöru. Árangurinn verður því oftast sá að frostið er búið þegar Skautafélagið ætlar að fara að nota það.” Og í öðru tölublaði Þróttar, sumardaginn fyrsta 1918, birtist eftirfarandi frétt um Skautafélagið: „Sama óheppni hefir verið yfir því félagi sem að undanförnu. Að eins einu sinni í vetur tókst því að gera skautasvell fyrir meðlimi sína. - Þó mun hann aldrei hafa kembt betur kólguna hér í Rvík en í vetur síðan 1881-82.” Þetta var frostaveturinn mikla 1918. Félagið stóð sig betur næsta vetur því í mars 1919 má lesa í Þrótti að skautasvell hafi verið oft þann veturinn í Reykjavík og hafi Skautafélagið starfað af hinum mesta áhuga og verið óvanalega heppið með veður. Hinsvegar fórst fyrir skautamót sem halda átti í byrjun ársins vegna æfingaleysis og þátttökuleysis. Sama sagan endurtók sig næsta ár. Félagið lét gera skautasvell á Tjörninni en skautamót var ekki hægt að halda vegna áhugaleysis. Skautafélag Reykjavíkur starfaði áfram til ársins 1927 en þá var það lagt niður. Í maí 1928 birtist frétt í Íþróttablaðinu þar sem sagt er að skautaíþróttin hafi ekki verið rækt þann vetur svo sögur fari af, og það þótt Tjörnin hafi verið upplögð og vel í sveit komið. Skautafélagið var svo endurreist haustið 1938 og tók að sér að annast framkvæmdir við skautasvellið á Tjörninni en Reykjavíkurbær lagði til fé til framkvæmdanna. Í febrúar 1950 stóð Skautafélag Reykjavíkur fyrir fyrsta landsmótinu í skautahlaupi. Ágrip úr sögu SR- 3.hluti. Í febrúar 1946 mælti Jóhann Hafstein fyrir frumvarpi á alþingi um æskulýðshöll í Reykjavík. Í fumvarpinu var gert ráð fyrir að ríkissjóður og Reykjavík reistu sameiginlega æskulýðshöll í höfuðborginni og bæru báðir aðilar jafnan kostnað af byggingunni og rekstri hallarinnar en Reykjavík legði til hæfilega ókeypis lóð undir hana. Þetta var þriðja tilraunin til þess að ná þessu máli í gegnum Alþingi því Bjarni Benediktsson hafði í tvígang flutt samhljóða frumvarp á Alþingi. Þrátt fyrir áskorun ÍBR og fleiri aðila dagaði frumvarpið uppi á þinginu. 29. október 1947 fjallaði stjórn ÍBR um æskulýðshallarmálið. Þar var eftirfarandi tillaga samþykkt einu hljóði á fundinum. „Stjórn ÍBR lýtur svo á, að með lögum um félagsheimili sé félögum bandalagsins tryggð sú aðstoð ríkisins til að öðlast nauðsynlegt starfsaðsetur, sem þau væntu með áður framkomnu frumvarpi um æskulýðshöll í Reykjavík. Að þessum breytu aðstæðum athuguðum, telur stjórn bandalagsins ekki ástæðu til að ÍBR taki að sér neina forustu um framgang æskulýðshallarmálsins, a.m.k. ekki fyrst um sinn“. |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-515 Skautafélag Reykjavíkur (1873) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Félagasamtök |
Útgáfuár | 2014 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | 19. öld, íþróttafélag, skautar, Axel V. Tulinius, |