Skógræktarfélag Reykjavíkur

Nánari upplýsingar
Nafn Skógræktarfélag Reykjavíkur
Númer E-31
Lýsing

Á heimasíðu Skóræktarfélags Reykjavíkur, www.heidmork.is, voru í mars 2007 eftirfarandi upplýsingar um félagið og sögu þess:

Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað árið 1946 þegar Skógræktarfélag Íslands var breytt í landssamband skógræktarfélaga en sögu félagsins má reyndar rekja til ársins 1901 er stofnað var félag sem nú er gjarnan kallað Skógræktarfélag Reykjavíkur hið eldra?. Það félag var hlutafélag sem stofnað var til þess að rækta skóg við Rauðavatn og markar það upphaf Rauðavatnsstöðvarinnar svonefndu. Í byrjun fyrri heimstyrjaldarinnar lagðist starfsemin niður en forvígismenn félagsins afhentu síðar Skógræktarfélagi Íslands ræktunarsvæðið við Rauðvatn.

Árið 1930 var Skógræktarfélags Íslands stofnað en starfssvæði þess var þá Reykjavík og nágrenni. Reykjavíkurborg lagði félaginu til land í Fossvogi og markaði það upphaf Fossvogsstöðvarinnar. Félagið hóf einnig baráttu fyrir friðun Heiðmerkur en sú hugmynd var fyrst sett fram í ársriti félagsins 1936 í grein eftir Hákon Bjarnason skógræktarstjóra

Árið 1946 var gerð sú breyting að Skógræktarfélag Íslands varð að sambandi skógræktarfélaga, sem þá höfðu verið stofnuð víða um land. Skógræktarfélag Reykjavíkur varð þá til að nýju og fékk í vöggugjöf flest fyrri viðfangsefni Skógræktarfélags Íslands. Félagið tók við rekstri Fossvogsstöðvarinnar, hóf þar plöntusölu og þróaði áfram rekstur hennar næstu áratugina. Það tók einnig við Rauðavatnsstöðinni og hélt áfram að beita sér fyrir friðun Heiðmerkur, en hún var vígð árið 1950 og hefur félagið haft umsjón með svæðinu allar götur síðan.

Reykjavíkurborg keypti bróðurpartinn af plöntum Fossvogsstöðvarinnar, mestmegnis til gróðursetningar í Heiðmörk, Öskjuhlíð, við Rauðavatn og á Austurheiðum. Þá verkstýrði skógræktarfélagið unglingum frá Vinnuskóla Reykjavíkur sem störfuðu við gróðursetningu á þessum svæðum. Fyrirtæki og einstaklingar keyptu einnig garðplöntur í Fossvogsstöðinni en breytt samkeppnisumhverfi gerði það að verkum að stöðin var lögð niður í lok síðustu aldar. Það var veigamikil breyting á starfsemi félagsins, sem lengi hafði verið í tiltölulega föstum skorðum. Í kjölfarið vann félagið markvisst að stefnumótun sem miðaði fyrst og fremst að því að efla félags- og fræðslustarf en einnig að því að skjóta styrkjum stoðum undir rekstur félagsins.

Starfsemi félagsins beinist nú í ríkum mæli að umsjón útivistarsvæðanna í Heiðmörk og Esjuhlíðum. Í Heiðmörk er nú einn af stærstu útivistarskógum landsins og vaxandi fjöldi gesta nýtir sér útivistaraðstöðuna þar allt árið um kring. Lögð er áhersla á grisjun jafnt sem gróðursetningu á svæðinu.

Áherslur í starfi félagsins hafa breyst í takt við nýja tíma. Það fer mjög vaxandi að leitað sé til félagsins um ýmiskonar leiðsögn, fræðslu og þjónustu við gesti á umsjónarsvæðum félagsins. Félagið skipuleggur fræðslu- og afþreyingardagskrá árið um kring, sett hafa verið upp gönguleiða- og upplýsingaskilti bæði í Heiðmörk og Esjuhlíðum og útbúin hefur verið útikennslustofa í Heiðmörk, en þar er tekið á móti leik- og grunnskólum í samstarfi við Náttúruskóla Reykjavíkur.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er sjálfstætt starfandi áhugamannafélag um skógrækt í Reykjavík. Hlutverk félagsins er að efla skógrækt og skógræktaráhuga í Reykjavík. Skógræktarfélag Reykjavíkur er eitt af 59 skógræktarfélögum í landinu sem starfar innan vébanda Skógræktarfélagi Íslands en skógræktarfélög landsins mynda fjölmennustu frjálsu félagasamtök á landinu með yfir 7000 félaga. Í Skógræktarfélagi Reykjavíkur eru nú yfir 1200 meðlimir.

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn E-31 Skógræktarfélag Reykjavíkur (1946)
Flokkun
Flokkur Félagasamtök
Útgáfuár 2007
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð skógrækt, Heiðmörk, Fossvogsstöðin, gróðrarstöð, Esjumelar, Hákon Bjarnason