Gufupressan Stjarnan hf.

Nánari upplýsingar
Nafn Gufupressan Stjarnan hf.
Númer E-38
Lýsing

Stofnendur: Elly Magnússon (fædd Larsen, seinna Salómonsson), f. 23. febrúar 1905 í Danmörku, d. 23. apríl 1966 í Reykjavík og Þórarinn Magnússon, f. 14. júní 1897 á Ísafirði, d. 31. desember 1935 í Reykjavík. Eina barn þeirra, Benny Hrafn Magnússon, f. 2. okt. 1925 í Kaupmannahöfn, d. 11. maí 2010 í Reykjavík, er faðir okkar.

Elly og Þórarinn kynntust í Kaupmannahöfn þar sem Elly bjó og starfaði, en Þórarinn var háseti á dönskum millilandaskipum sem sigldu frá Kaupmannahöfn (d. matros på handelskibe). Elly og Þórarinn giftu sig í Kaupmannahöfn árið 1925 og bjuggu þar þangað til þau fluttu til Reykjavíkur í september 1932. Þau stofnuðu Stjörnuna og hófu starfsemina 14. október 1932 í Kirkjustræti 10, Reykjavík, sbr. tilkynningar þar um í Vísi, Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu 13. okt. 1932.

Stjarnan byrjaði sem gufupressun og gufuhreinsun (= bletthreinsun), þ.e. fötin voru ekki hreinsuð (=kemísk-hreinsuð) til að byrja með. Elly lærði fatahreinsun og -pressun í Kaupmannahöfn áður en þau fluttust til Íslands (hún er titluð fatasérfræðingur í Íslendingabók). Auk aðstöðunnar í Kirkjustræti 10 var einnig aðstaða í bakhúsi að Kirkjustræti 10, í timburhúsi skúr sem löngu er búið að rífa. Elly og Þórarinn störfuðu bæði í fyrirtækinu og höfðu nokkra starfsmenn í vinnu.

Við vitum ekki hversu margar fatapressurnar voru í upphafi (alla vega tvær), við vitum heldur ekki hvaða tæki önnur voru á staðnum. Fyrstu tvö árin a.m.k. voru fötin sem komu til pressunar fyrst hreinsuð í Efnalaug Reykjavíkur, Laugavegi 32b, og síðan pressuð í Stjörnunni. Greiddu Elly og Þórarinn fyrir þá þjónustu. Jafnframt voru þau á samstarf við klæðskera sem gerði við föt ef þörf var á. Árið 1934 færðu Elly og Þórarinn út kvíarnar og keyptu vélar til kemískrar hreinsunar og gátu því bæði hreinsað og pressað fötin í Stjörnunni. Fjölskylda Ellyar í Danmörku sá um að kaupa og senda vélarnar til Íslands.

Þórarinn lést 31. des. 1935 úr magakrabba. Eftir það rak Elly Stjörnuna ein um skeið samhliða því að reka heimili. Árið 1941 giftist Elly Haraldi Salómonssyni, pípulagningameistara (f. 4. okt. 1908, d. 3. júlí 1971). Þau gerðu með sér kaupmála um að fyrirtækið væri séreign Ellyar. Árið 1944 keyptu Elly og Haraldur húseignina að Laugavegi 73 í Reykjavík (sjá afsal tveggja fyrri eigenda í skjölum) og fluttu starfsemi Stjörnunnar þangað í nóvember sama ár, sbr. meðfylgjandi auglýsingu í Morgunblaðinu 5. nóv. 1944. Þau bjuggu lengst af í íbúðarhúsinu við götuna (stofan var þar sem lengi var Töskuhúsið, undanfarin ár hafa verið þar barir og veitingahús). Stjarnan var í kjallaranum baka til (gengið niður allmargar tröppur) og Haraldur rak pípulagningaverkstæði í kjallaranum framan til. Hann vann aldrei í fyrirtækinu.

Keyptar voru nýjar og fullkomnari hreinsivélar, þ.m.t. fatapressan og axlapressan sem Árbæjarsafnið hefur nú fengið. Þessar vélar voru notaðar þangað til starfsemi fyrirtækisins var hætt. Benny, faðir okkar fór að vinna í Stjörnunni með móður sinni strax sem unglingur. Fyrst sem sendill og síðar við fatahreinsun og pressun. Hann var lærður vélstjóri og vann við það í nokkur ár, bæði á sjó og við virkjanir. Um 1955 fór hann alfarið til starfa í Stjörnunni og unnu þau saman þar mæðginin. Þegar Elly dó (23. apr. 1966) tóku Benny og eiginkona hans, Steina Þóra Þorbjörnsdóttir (f. 30. nóv. 1930, d. 3. mars 1996), við rekstrinum og ráku fyrirtækið saman þar til þau hættu starfseminni 31. desember 1981. Firmanafnið var ekki lagt niður. Það hefur verið í eigu Skúla G. Sigfússonar, dóttursonar Haraldar Salómonssonar, frá ágúst 1993 og er notað sem rekstrarfélag fyrir Subway.

Á fyrstu árum Stjörnunnar störfuðu fleiri karlar en konur við fyrirtækið, mest 4-5 karlar. Þegar mest var að gera í Stjörnunni, ca. 1955–1965, voru um 10 manns í vinnu og þá meirihlutinn konur. Síðustu árin unnu þar eingöngu konur auk fjölskyldunnar. Fjölskyldan vann öll í fyrirtækinu, þó ekki samtímis, þ.e.a.s. Elly, Benny, Ellý og Auður (dætur Ellyar og Haraldar og hálfsystur Bennys), Helga (dóttir Haraldar), Steina og seinna við systkinin; Björn, María og Þóra, sem unnum þar í öllum jóla-, páska- og sumarfríum þegar við höfðum aldur til. Síðustu 10 árin sem fyrirtækið starfaði voru starfsmennirnir þrír (konur) fyrir utan fjölskylduna.

Vélar og annar búnaður: Eins og nafnið bendir til, gufupressan, byggðist pressunin á gufu (vatn undir þrýstingi). Þess vegna var í Stjörnunni stór gufuketill í s.k. ketilhúsi.

Hreinsivélar voru tvær. Hreinsiefni sem notuð voru: tríklór, fram til ~1975 þegar hann var bannaður, eftir það perklór eða white spirit. Seinustu ár starfseminnar var eingöngu notað white spirit á hreinsivélarnar.

2 vindur og 2 þurrkarar.

3 borð þar sem föt voru bletthreinsuð með gufu.

Gufupressur voru fjórar, axlapressur tvær.

Hreinsunin – ferlið: Tekið var á móti öllu sem þvottahúsin ekki tóku við, þ.e. kven- og karlmannsfötum, gardínum, teppum, púðaverum, áklæði, dúkum og höttum. Ekki var tekið við karlmannsskyrtum, nærfötum, sokkum, handklæðum og rúmfötum. Þess verður að geta að í þá daga voru flest föt saumuð úr efni (ull, krep, silki, satin o.fl.) sem illa eða ekki þoldi þvott. Nú eru breyttir tímar og flest allt sett í þvottavélina.

  1. Tekið var á móti fötunum, tekið niður nafn og heimilisfang viðskiptavinar og honum afhentur númeraður seðill með dagsetningu þegar fötin voru tilbúin.
  2. Fötin merkt með litlum merkimiðum sem klemmdir voru í fötin eða skrifað í buxnavasana (á röngunni). Vasar tæmdir og þeim snúið út. Föt flokkuð; almenn föt, viðkvæm föt.
  3. Fötin hreinsuð í hreinsivél og hreinsiefnið undið úr fatnaðinum.
  4. Fötin sett í þurrkara sem þurrkaði hreinsiefnið úr.
  5. Fötin skoðuð, bletthreinsuð með gufu eftir þörfum. Ef bletthreinsun dugði ekki voru fötin þvegin eða skrúbbuð í höndunum á stóru þvottaborði. Síðan sett í þeytivindu og hengd til þerris í ketilhúsi.
  6. Fötin pressuð og gengið frá þeim á herðatré. Viðkvæmur fatnaður eins og kvenblússur voru straujaðar. Fötin merkt með sýnilegum merkimiðum og hengd í fatageymslu þar til þau voru sótt.
  7. Þegar föt voru sótt voru þau brotin saman eftir kúnstarinnar reglum og pakkað inn í umbúðapappír. Send í póstkröfu út á land. Um tíma, ~1966–1976, var tekið á móti fötum til hreinsunar og þau afhent hrein í versluninni Björk á Álfhólsvegi 57 í Kópavogi (e.k. bílskúrsverslun). Meðan ég man eftir mér gáfu efnalaugaeigendur út sameiginlega verðskrá þar sem verð fór eftir gerð flíkur, t.d. var dýrara að hreinsa síða kápu en hálfkápu. Einnig var tekið í kílóhreinsun, þ.e. hreinsað eftir vigt (verð hljóp á ½ kg), en þá var aðeins hreinsað, hvorki bletthreinsað né gufupressað.
Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn E-38 Gufupressan Stjarnan hf. (1932-1981)
Flokkun
Flokkur Fyrirtæki
Útgáfuár 2011
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð iðnaður, fatahreinsun, Laugavegur, gufuhreinsun, gufupressun, Elly Magnússon, Þórarinn Magnússon