Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Kjötbúðin Borg - Laugavegi 78 |
Númer | E-336 |
Lýsing | Í september 2006 afhenti Einar Þorbjörnsson Borgarskjalasafni skjalasafn Kjötbúðarinnar Borgar, sem staðsett var við Laugaveg 78, ásamt skjölum varðandi byggingafélagið Brú h.f. Einar ritaði eftirfarandi upplýsingar um stofnanda Borgar og verslunina í september 2007. Stofnandi Kjötbúðarinnar Borgar var Þorbjörn Jóhannesson kaupmaður og kjötiðnararmeistari, en hann var fæddur 10. mars 1912 og lést 4. júlí 1989. Þorbjörn var einn af stofnendum Félags kjötverslana, 15. febrúar 1934, sat í varastjórn þess félags 1936, í aðalstjórn 1938 og formaður félagsins var hann 1950-1954, aftur 1959-1963, og enn á ný 1966. Þorbjörn hlaut gullmerki Kaupmannasamtaka Íslands 1970. Þorbjörn sinnti um ævina ýmsum öðrum félagsmálum, meðal annars var hann í stjórn Byggingafélagsins Brúar h.f., Dýraverndunarfélags Íslands, Háteigskirkju o.fl. Kjötbúðin Borg var stofnuð 1931 að Laugavegi 78, og var þar alla tíð þar til starfsemin hætti 1992. Verslunin var alla tíð í eigu eins eigenda (stofnanda) og ekkju hans að honum látnum. Starfsemin var í upphafi á aðeins á 50 fermetra gólfrými í húsinu nr. 78 við Laugaveg, en atvinnusvæðið margfaldaðist á þeim rúmum 60 árum sem fyrir tækið var starfandi. Starfsemi Borgar var í þessu saman húsi að viðbættum húsunum Laugavegi 76B og C og Grettisgötu 59 allt upp úr 1955. Í upphafi voru starfsmenn 2, stofnandi og sendisveinn, en þegar mest var störfuðu í fyrirtækinu um 24 manns: afgreiðslufólk, kjötiðnarðarmenn, matreiðslumenn, verkamenn, bílstjórar og skrifstofufólk. Starfsemi fyrirtækisins: Kjötbúð, kjötvinnsla ýmisleg pylsugerð, reykhús og frystihús. Kjötið var keypt af sláturleyfishöfum og afurðasölum, en tilreitt innan fyrirtækisins og unnið úr því á margan hátt. Mikil sérhæfing var á reyktum laxi hjá fyrirtækinu. Borg seldi frá því á stríðsárunum heitan mat í hádeginu og á kvöldin, bæði í verslun og til verktaka. Veisluþjónusta hófst snemma hjá fyrirtækinu, og einnig vöruútvegum fyrir verktaka, spítala og skip, og má þar til nefna Eldhús Landspítalans, Búrfellsvirkjun og Sigölduvirkjun, Eimskip hf. og Bæjarútgerð Reykjavíkur. Þorbjörn Jóhannesson var fæddur 10. mars 1912 á Bergstaðastræti 26 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Jóhannes Jónsson frá Narfastöðum í Melasveit, trésmiður hjá Kveldúlfi í Reykjavík og Helga Vigfúsdóttir frá Ytri- Sólheimum í Mýrdal, húsfreyja. Þorbjörn var aðeins sex ára gamall þegar hann missti móður sína og fór þá í fóstur til Guðrúnar Eymundsdóttir og Halldórs Jónssonar úrsmiðs og síðar að Brúnum undir Eyjafjöllum til Sigríðar Tómasdóttur og Haraldar Jónssonar. Einnig var hann í sumardvöl hjá hjónunum Sesselju Jónsdóttur og Jóni Vigfússyni, Dalsmynni í Norðurárdal. Þorbjörn gekk í barnaskóla en var að öðru leyti sjálfmenntaður. Árið 1925 hóf Þorbjörn störf hjá Kaupfélagi Borgfirðinga á Laugavegi 20 í Reykjavík, en þar hafði Kaupfélagið keypt Kjötbúð E. Milners, og vann hann þar til ársins 1931 er hann réðst til útgerðarfélagsins Kveldúlfs. Hinn 2. október 1931 opnaði hann svo sína eigin verslun, Kjötbúðina Borg, á Laugavegi 78. Þorbjörn giftist, 7. desember 1933, Sigríði Huldu Einarsdóttur, fæddri 22. desember 1913 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Einar Þórðarson verslunarmaður frá Efra- Seli Stokkseyrarhreppi og Guðríður Eiríksdóttir frá Miðbýli í Skeiðarhreppi. Fyrstu búskaparárin bjuggu þau í risi Kjötbúðarinnar Borgar, síðar á Guðrúnargötu 9 og loks á Flókagötu 59. Þau eignuðust þrjú börn: Elínu f. 23. apríl 1934, Svanhildi f. 2. apríl 1935 og Einar f. 7. júlí 1938. |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-336 Kjötbúðin Borg - Laugavegi 78 (1931-1992) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Fyrirtæki |
Útgáfuár | 2008, 2009 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | Þorbjörn Jóhannesson, verslun, Laugavegur 78, miðbær, kjötiðnaður |