Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Sjóvá hf. vátryggingarfélag |
Númer | E-375 |
Lýsing | Sjóvátryggingafélag Íslands h.f. var stofnað 1918. Ágrip af sögu Sjóvá 1.Nýtt félag með sterkar rætur. Kjörorð Sjóvá-Almennra trygginga hf. var í upphafi „Nýtt félag með sterkar rætur“. Með því var vísað til áratugalangrar sögu forvera félagsins. Félagið hóf starfsemi í febrúar 1989 á grunni tveggja gamalgróinna vátryggingafélaga, Sjóvátryggingarfélags Íslands hf. og Almennra Trygginga hf. Lengi hafði verið horft á þann möguleika að sameina félögin vegna þess hve uppbygging þeirra var lík. Félögin höfðuðu til breiðs hóps, sérhæfðu sig ekki á einu tryggingasviði eða störfuðu í skjóli sérlaga eða sérhagsmuna. Með sameiningunni var stefnt að aukinni hagræðingu í rekstri, lækkun kostnaðar, betri áhættudreifingu og hagstæðari endurtryggingavernd. Þannig var félagið betur í stakk búið til að takast á við aukna samkeppni með nýjum vátryggingagreinum og efldri þjónustu við viðskiptavini. 2. Sjóvátryggingarfélag Íslands hf. 1918–1989 Stofnskrá Sjóvátryggingarfélags Íslands hf. var samþykkt 20. október 1918 og hóf félagið formlega starfsemi 15. janúar 1919. Stofnendur félagsins voru fyrst og fremst athafnamenn úr Reykjavík sem sveið að ekki væri starfandi innlent almennt vátryggingafélag en fram að þeim tíma höfðu Íslendingar orðið að kaupa allar vátryggingar, nema brunatryggingar á húsum og lausafé, af erlendum vátryggingafélögum sem störfuðu hér í gegnum umboðsskrifstofur. Ákveðið var að verksvið félagsins skyldi vera venjulegar beinar sjóvátryggingar, samtryggingar og endurtryggingar, svo og stríðsvátryggingar í umboði fyrir aðra. Aðsetur félagsins var í húsnæði Nathan & Olsen í Austurstræti 16. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Axel V. Tulinius og fyrsti stjórnarformaður félagsins var Ludvig E. Kaaber. Á næstu árum víkkaði starfssvið félagsins smám saman og við bættust nýjar vátryggingagreinar, s.s. bruna-, rekstrarstöðvunar- og húsaleigutryggingar. Árið 1934 var stofnuð líftryggingadeild hjá félaginu en fram að þeim tíma höfðu allar líftryggingar verið í höndum erlendra aðila. Þá bættust bifreiðatryggingar við skömmu síðar, eða árið 1937. Fleiri vátryggingagreinar bættust við á næstu árum auk lánastarfsemi til viðskiptavina. Árið 1921 flutti félagið starfsemi sína í húsnæði Eimskipafélags Íslands hf. og var þar til húsa allt til ársins 1957 er félagið flutti í eigið húsnæði í Ingólfsstræti. Árið 1971 keypti félagið húsnæði að Suðurlandsbraut og var þar til húsa fram að sameiningu félaganna árið 1989. Axel V. Tulinius var framkvæmdastjóri félagsins til ársins 1933 þegar Brynjólfur Stefánsson, fyrsti íslenski tryggingastærðfræðingurinn, tók við af honum. Árið 1957 tók Stefán G. Björnsson við sem framkvæmdastjóri og árið 1971 þeir Axel Kaaber til 1976 og Sigurður Jónsson sem starfaði til 1984. Axel annaðist innlendar og erlendar endurtryggingar svo og líftryggingadeild félagsins en Sigurður öll önnur framkvæmdastjórastörf. Einar Sveinsson tók við stöðu framkvæmdastjóra árið 1984. Árið 1960 tók félagið þátt í stofnun Sambands íslenskra tryggingafélaga, SÍT. Árið 1967 gerðist félagið umboðsaðili Lloyd’s í London gegnum nýtt félag, Könnun hf. Árið 1975 var ákveðið að stofna líftryggingafélag sem yfirtók vátryggingastofn líftryggingadeildar Sjóvá og var Líftryggingarfélag Sjóvátryggingarfélags Íslands hf. stofnað 1. september það ár. Árið 1985 eignaðist félagið meirihluta í Hagtryggingu hf. og var rekstur félaganna sameinaður ári síðar. Sama ár sameinuðu Sjóvátryggingarfélag Íslands hf. og Tryggingamiðstöðin hf. líftryggingafélög sín í nýju félagi, Sameinaða líftryggingarfélaginu hf. Árið 1986 stofnaði félagið fjárfestingarfélagið Festingu hf. 3.Almennar Tryggingar hf. 1943-1989 Stofnfundur Almennra Trygginga hf. var haldinn 11. maí 1943. Stofnendur félagsins töldu góð viðskipti vera í vátryggingum og vildu veita Sjóvátryggingarfélagi Íslands hf., sem var eina starfandi alhliða íslenska vátryggingafélagið, samkeppni. Félagið hóf formlega starfsemi sína þann 28. ágúst sama ár. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Baldvin Einarsson og stjórnarformaður var Carl Olsen. Aðalstöðvar félagsins á fyrstu árum þess voru í Austurstræti 10a. Miklu munaði fyrir félagið að árið 1944 náðist samningur við Reykjavíkurborg um brunatryggingar húseigna en brunatryggingarnar höfðu áður verið í höndum Sjóvá. Sama ár var fyrsta útibú félagsins stofnað á Akureyri og tók KEA að sér umboðsstörf. Starfsemin óx jafnt og þétt og bætti félagið við sig tryggingagreinum og umboðsmönnum. Árið 1946 samþykkti stjórn félagsins að ganga til samninga um að yfirtaka allar tryggingar vátryggingafélagsins Baltica hér á landi á bifreiðum og „biftækjum“. Sama ár tók félagið að sér sína fyrstu endurtryggingu þegar það endurtryggði farm í skipi frá Rússlandi til New York. Árið 1952 var líftryggingadeild Almennra Trygginga hf. stofnuð. Á svipuðum tíma hóf félagið sölu á frjálsum ábyrgðartryggingum. Árið 1960 flutti félagið í eigin nýbyggingu við Pósthússtræti 9 og var þar til húsa til ársins 1978 er starfsemin flutti í Síðumúla 39 þar sem félagið var til húsa fram að sameiningu 1989. Baldvin Einarsson var framkvæmdastjóri félagsins frá stofnun til ársins 1980. Frá 1976 var Ólafur B. Thors framkvæmdastjóri með honum, en frá 1980 og allt til sameiningar 1989 var Ólafur eini framkvæmdastjóri félagsins. Á árunum í kringum 1969 gætti versnandi stöðu bifreiðatrygginga og kom fram að hækkanir á iðgjöldum bifreiðatrygginga myndu á engan hátt nægja til að standa undir kostnaði. Erfiða stöðu vátryggingafélaga er e.t.v. ekki alltaf hægt að lesa út úr ársreikningum frá þessum tíma, einfaldlega vegna þess að engar reglur voru um það hversu mikið fé skyldi lagt til hliðar fyrir óuppgerðum tjónum og gátu félögin haft það nokkuð í hendi sér hversu mikils þau mátu framtíðarskuldbindingar sínar. Er líklegt að félögin hafi vanmetið þessar skuldbindingar í ársreikningum sínum til þess eins að sýna viðunandi útkomu og geta greitt hluthöfum arð. Á sama tíma ákváðu stjórnendur félagsins að leita fyrir sér erlendis um að taka að sér erlendar endurtryggingar í auknum mæli. Þessi viðskipti virtust í fljótu bragði vera ábatasöm og töldu íslensku tryggingafélögin mörg hver að þar væri að leita bjargráða til að bæta upp tapið á vátryggingarekstri á Íslandi. En það var öðru nær, viðskipti hér á landi með erlendar endurtryggingar fóru illa með félagið sem og önnur vátryggingafélög. Árið 1970 var fjárhagur Almennra Trygginga hf. aðskilinn frá fjárhag líftryggingadeildar Almennra Trygginga hf., og í mars árið 1977 var stofnað hlutafélagið Almennar Líftryggingar hf. og var líftryggingastofn Almennra Trygginga hf. fluttur yfir til þess félags. Árið 1984 var hafin sala á samsettri vátryggingu sem síðar fékk nafnið atvinnurekstrartrygging og spannar hún flesta rekstrarþætti fyrirtækja og kom í stað margra trygginga áður. Árið 1987 var hafið samstarf við Brunabótafélag Íslands um rekstur tjónaskoðunarstöðvar í Reykjavík. Tilgangurinn var að bæta fagleg vinnubrögð við mat tjóna. Við sameiningu Sjóvátryggingarfélagsins og Almennra Trygginga tók hið nýja félag við tjónaskoðunarstöðinni og keypti hlut Brunabótafélagsins í henni. 4.Sjóvá-Almennar tryggingar hf. 1989 Árið 1988 hófust viðræður milli Sjóvátryggingarfélagsins og Almennra Trygginga um hugsanlega sameiningu eða samstarf félaganna. Þær gengu það vel að þann 16. desember 1988 var vátryggingafélagið Sjóvá-Almennar tryggingar hf. stofnað formlega. Hluthafafundir í báðum félögum voru haldnir 20. janúar 1989 þar sem samrunasamningar voru lagðir fyrir og samþykktir. Starfsleyfi fékkst 15. febrúar og þann 16. febrúar 1989 hóf félagið starfsemi sína undir nýju nafni. Í upphafi var starfsemi félaganna á tveimur stöðum, á Suðurlandsbraut og í Síðumúla, en sameinaðist í nóvember 1989 í núverandi húsakynnum félagsins, Kringlunni 5. Framkvæmdastjórar voru tveir frá stofnun og til 2002, Einar Sveinsson og Ólafur B. Thors, en Ólafur lét af störfum í mars 2002. Einar Sveinsson var forstjóri frá mars 2002 og lét af störfum í mars 2004. Þá tók Þorgils Óttar Mathiesen við sem forstjóri. Þór Sigfússon tók við sem forstjóri í desember 2005. Hörður Arnarson tók við starfi forstjóra árið 2009 og Lárus Ásgeirsson síðari hluta sama árs. Árið 1996 keypti félagið Húsatryggingar Reykjavíkur hf. og eignaðist vátryggingafélagið Ábyrgð hf. að fullu, en árið 1991 hafði verið undirritaður samstarfssamningur við félagið og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. eignuðust hlut í því. Ábyrgð var áður að mestu leyti í eigu sænska tryggingafélagsins Ansvar. Árið 1998 náði félagið þeim áfanga í fyrsta sinn að verða stærst íslenskra vátryggingafélaga, miðað við bókfærð iðgjöld. Félagið gaf út fréttabréf sem nefndist Bót í máli og kom út tvisvar á ári. Ritinu var ætlað að upplýsa viðskiptavini um málefni sem tengdust félaginu og um leið að vera hluti af forvarnarstarfi þess. Fyrsta tölublaðið kom út árið 1995 og það síðasta á vormánuðum 2003. Í lok desember 2006 voru 194 stöðugildi hjá félaginu. Við stofnun félagsins voru þau 129. 5.Sameiningar, dótturfélög og tengd félög Eftir sameiningu Sjóvá og Almennra árið 1989 fylgdu félaginu tvö dótturfélög, Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. og Könnun hf. Eignarhlutur í Sameinaða líftryggingarfélaginu hf., Samlífi, var 49,5% og var það ekki talið dótturfélag. Árið 1994 var dótturfélagið Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. sameinað móðurfélaginu eftir að líftryggingastofn þess hafði verið seldur til Samlífs. Á árinu 1997 eignuðust Sjóvá-Almennar tryggingar hf. allt hlutafé í Ábyrgð hf. og í ársbyrjun 1997 voru félögin sameinuð. Vátryggingastofn Ábyrgðar var þá u.þ.b. einn tíundi af stofnstærð Sjóvá-Almennra trygginga hf. Á árinu 1996 keypti félagið einnig allt hlutafé í Húsatryggingum Reykjavíkur hf. af Reykjavíkurborg og voru félögin sameinuð í ársbyrjun 1997. Voru þessar sameiningar liður í viðleitni félagsins til að styrkja markaðsstöðu sína og ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri. Á árinu 1998 seldu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. helming hlutafjáreignar sinnar í Samlífi til nokkurra banka og lífeyrissjóða. Festing ehf., fjárfestingafélag í eigu Sjóvá-Almennra trygginga hf. o.fl. tengdra aðila, var sameinað félaginu í árslok 1999. Dótturfélagið Könnun hf., sem var umboðsaðili Lloyd’s og óháður skoðunaraðili, var árið 1999 selt til Frumherja hf. Á árinu 2000 keyptu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. vátryggingastofn Vélbátaábyrgðarfélags Ísfirðinga og tóku tímabundið við rekstri þess félags. Félagið keypti einnig á árinu 25% eignarhlut í Samábyrgðinni hf. (áður Samábyrgð Íslands á fiskiskipum). Á árinu 2001 keyptu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. vátryggingastofna Vélbátaábyrgðarfélagsins Gróttu og Vélbátaábyrgðarfélags Breiðafjarðar. Markmið með þessum kaupum var að styrkja stöðu félagsins á sjótryggingamarkaði. Á árinu 2001 keypti félagið allt hlutafé í Samábyrgðinni hf. Á árinu 2002 keyptu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hlut TM og lífeyrissjóða í Samlífi, sem var stofnað 1985 og átti í félaginu á móti Íslandsbanka. Við kaup Íslandsbanka á Sjóvá-Almennum tryggingum hf. haustið 2003 eignaðist félagið allt hlutafé í Samlífi og tóku við rekstri þess. Samlíf heitir í dag Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. tekur að sér líftryggingar einstaklinga og hópa en samkvæmt íslenskum lögum skal líftryggingastarfsemi rekin aðskilin frá annarri vátryggingastarfsemi. Starfsmenn Sjóvá-Almennra trygginga hf. annast sölu á líftryggingunum svo og sérstakir sölumenn félagsins. Á árinu 2003 keypti Íslandsbanki alla hluti í félaginu og samþætti við rekstur sinn. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hlutu viðurkenningu frá Hollvinum hins gullna jafnvægis og Íslensku gæðaverðlaunin haustið 2003. Í maí 2006 var Sjóvá alfarið í eigu Milestone. Í maí 2009 eignaðist skilanefnd Glitnis banka Sjóvá að fullu. Ágrip af sögu Sjóvá kom frá Sólveigu Magnúsdóttur, skjalastjóra hjá Sjóvá. Dagbækur, merktar (ekki allar) Carl Olsen 1916 til 1968 komu með safninu. Carl Olsen var annar af stofnendum fyrirtækisins Nathan & Olsen. Sjóvá hafði aðsetur í húsi Nathan & Olsen 1918-1921.
Komið var með sjalasafnið í Borgarskjalasafn 15. janúar 2009, en 2008 hafði skráður hluti safnsins verið afhentur. |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-375 Sjóvá hf. vátryggingarfélag (1919) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Fyrirtæki |
Útgáfuár | 2011 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | tryggingafélag, |