Verslun Jóns Þórðarsonar

Nánari upplýsingar
Nafn Verslun Jóns Þórðarsonar
Númer E-597
Lýsing

Jón Þórðarson var fæddur 3. janúar 1854 á Leirubakka í Landmannahrepp í Rangárvalla-sýslu. Foreldrar hans voru þau hjónin Valgerður Árnadóttir húsfreyja og Þórður Jónsson bóndi á Leirubakka. Jón ólst upp hjá ömmu sinni á Galtalæk og síðar hjá frændfólki á Bjarnarholti. Hann fór 24 ára á Eyrarbakka og dvaldi þar eitt ár, en síðan að Reyðarvatni í Rangárvallasýslu og var þar í þrjú ár.

Jón kvæntist, 1. október 1881, Þorbjörgu Gunnlaugsdóttur fædd 3. febrúar 1857 frá Árnagerði í Fljótshlíð. 1882 fóru þau að búa á Ártúnum í Mosfellssveit og voru þar til 1885 er þau fluttust að Laugarnesi og bjuggu þar í 6 ár. Árið1891 fluttu þau til Reykjavíkur og hóf Jón verslunarrekstur í Austurstræti 5. Næsta vor byggði hann hús að Þingholtsstræti 1 og verslaði þar æ síðan! Jón og Þorbjörg tóku fjögur börn til fósturs og ólu upp og tvö þeirra, Þórð Lýðsson og Guðrúnu Ólafsdóttur, gerðu þau að kjörbörnun sínum. Verslun Jóns varð brátt mikil enda var honum mjög vel sýnt um kaupskap og brautryðjandi var hann í verslun með innlendan varning að því leyti að hann varð milligöngumaður milli sveitanna og bæjarins, keypti fé af sveitabændum seldi aftur um bæinn kjöt og slátur. Hann kom hér fyrstur upp sláturhúsi, kjötsölubúð, pylsugerð og niðursuðu matvæla, en hætti því er Sláturfélag Suðurlands var stofnað. Hann verslaði einnig með erlendar vörur. Á sumrin geymdi Jón nautgripi úti í Örfirisey. Þegar átti að slátra fór hann fótgangandi og sótti naut og teymdi það í gegnum bæinn. Komu þá væntanlegir kaupendur og pöntuðu þann part af nautinu sem þeir vildu fá. Oft var allur tuddinn upppantaður áður en honum var slátrað. Jón Þórðarson byggði húsið Bankastræti 10 og hafði þar verslun.

Árið 1908 keypti Sláturfélagið pylsugerðina af Jóni. Jón átti sæti í niðurjöfnunarnefnd bæjarins. Hann var formaður „Hótels Íslands“ nefndarinnar eftir að það komst í eigu templara, formaður sóknarnefndar Fríkirkjunnar, í stjórn „Ingólfsfélagsins“ Faxaflóabátafélasins o. fl. félaga, var Sjálfstæðismaður og fulltrúi Reykvíkinga á Þingvallafundinum 1907, einnig starfaði hann ötullega með Góðtemplarareglunni. Jón Þórðarson andaðist 1. febrúar 1911.

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir, bjó áfram í húsinu að Þingholtsstræti 1 þar til hún lést 1931. Sonur þeirra Jóns og Þorbjargar, Þórður L. Jónsson, tók við verslunarrekstrinum með móður sinni 1911 og öðrum rekstri sem faðir hans hafði verið með. Kona hans var Þóra Jónsdóttir frá Skipholti í Reykjavík. Þau hjón bjuggu í Þingholtsstræti 1 ásamt fjölskyldu sinni. Sonur þeirra, Jón Þórðarson og kona hans Margrét Sæmundsdóttir, tóku síðan við rekstrinum. Jón og Margrét bjuggu einnig í húsinu til ársins 1967, þar til reksturinn var fluttur inn á Laugaveg 81. Hin síðari ár sem verslun Jóns Þórðarsonar var rekin í Þingholtsstræti 1 var aðallega verslað með búsáhöld og gjafavöru.

Þingholtsstræti 1

Húsið var upphaflega byggt 1892. Það er verðugur fulltrúi fallegra steinbygginga þeirra tíma, Það er hlaðið úr grágrýti og hefur mjög verið vandað til byggingar þess. Um miðja nítjándu öld var Jónasi Helgasyni járnsmið úthlutað lóð á þessum slóðum. Af ókunnum ástæðum afsalaði hann sér lóðinni til bæjarins og var henni þá úthlutað til Ólafs Þorkelssonar snikkara, sem byggði þar íbúðarhús úr timbri. Það var síðar kennt við Vigdísi Waage sem lengi átti húsið og bjó þar með dóttur sinni, Önnu Þorsteinsdóttur.

Árið 1892 var eignin seld, þá skráð á dánarbú Önnu Þorsteinsdóttur. Kaupandi var Jón Þórðarson kaupmaður sem sama ár lét rífa húsið og byggði á lóðinni hús úr steini sem enn stendur. Lóðarviðbót fær Jón, ræmu meðfram Þingholtsstræti, jafn langa lóð sinni í maí 1893. Í september 1893 byggir hann timburskúr á lóðinni, 41/4 x 33/4 álnir að grunnfleti. Í maí 1897 fær Jón Þórðarson leyfi til þess að lengja íbúðarhúsið til austurs og er viðbótin byggð úr steini með sama frágangi og eldri byggingin. Sama ár byggir hann inngönguskúr úr timbri með skáþaki sunnan við húsið. Í desember árið 1897 er brunavirðingin gerð á húsinu, þar segir að það sé 20 álnir á lengd, 12 álnir á breidd og 10 álna hátt, byggt af steini og tvílofta, með brotnu þaki, járnklæddu á súð með pappa í milli. Niðri í húsinu er sölubúð sem skipt er í tvennt, með hillum, skúffum, borðum og skápum, allt þiljað og málað. Þar eru einnig tvö geymsluherbergi, þiljuð en ómáluð. Í sölubúðinni er einn ofn. Loftið yfir hæðinni er tvöfalt. Á efri hæð eru fjögur íbúðarherbergi og eldhús. Allt þiljað og málað og með þreföldum loftum. Á efsta lofti eru fimm herbergi, öll þiljuð og máluð, þar er einn ofn. Kjallari er undir húsinu, hólfaður í tvennt. Við suðurhliðina er inn- og uppgönguskúr með skúrþaki, byggður af bindingi, klæddur utan með járni og allur þiljaður að innan. Í júní kaupir Jón Þórðarson 60 álna lóðarspildu af Magnúsi Gunnarssyni, Þingholtsstræti 3, til viðbótar við lóð sína. Hann fær leyfi til þess að byggja á lóðinni skúr, 9½ x 5 álnir að grunnfleti. Ári síðar tekur bærinn ræmu af lóðinni til breikkunar Þingholtsstrætis. Árið 1907 byggir Jón sunnan við húsið. Byggingin virðist hafa gengið hratt fyrir sig því að eignin öll var brunavirt í nóvember sama ár. Þar segir að sunnan við húsið hafi verið byggð tvílyft viðbygging með skúrþaki (nýja húsið), 11 x 11 álnir að grunnfleti, byggð úr bindingi, klædd utan með plægðum 1" borðum og járni. Þakið er járnklætt á 1" plægðri borðasúð og með pappa í milli. Eldvarnarveggur er að sunnanverðu. Innan á bindin á veggjum er pappi og milligólf í báðum bitalögum. Niðri í húsinu eru þrjú íbúðarherbergi, eldhús, gangur og tveir fastir skápar. Herbergin og gangurinn eru með striga og pappa á veggjum og loftum og allt málað. Þar er einn ofn og ein eldavél. Kjallari 23/4 álnir á hæð, er undir allri útbyggingunni með steinsteypugólfi og hólfaður í tvennt. Við austurgaflinn er skúr byggður af bindingi með járni á þaki og hliðum. Eldvarnarveggur er að sunnanverðu. Í skúrnum eru þrjú klósett og ein geymsla. Í sama skipti var steinhúsið virt. þá höfðu orðið þær breytingar að uppi eru fimm herbergi og gangur í stað fjögurra áður og þar eru tvær eldavélar. Á þriðja gólfi er sú breyting að þar hefur verið gert eldhús með eldavél, gangur, tveir geymsluklefar og þrír fastir skápar. Þar uppi eru þrjár eldavélar. Lengi vel var opið úr aðalhúsinu inn í viðbygginguna og þar var verslað með búsáhöld og gjafavöru. Jón Þórðarson hafði umboð fyrir sænsku jötunmótorana og einnig stofnaði hann klæðskeraverkstæði sem Andres Andressen keypti af honum.

Talið er að í eldra húsinu (steinhúsinu) hafi verið stofnuð ein af fyrstu verslununum fyrir austan Læk. Ártalið 1892 er letrað fyrir ofan glugga á horni hússins á mótum Banka- og Þingholtsstrætis og í gluggana götumegin var letrað með gullnum stöfum "Verslun Jóns Þórðarsonar". Laust fyrir aldamótin 1900 var að mestu leyti hætt að flytja inn kornið ómalað. Þá keypti Jón Þórðarson kornmylluna í Bankastræti og notaði hana fyrir geymslu. Myllan var rifin 1902. Í september 1915 voru settar dyr í vestur þar sem áður var verslunargluggi. Gluggum á götuhlið hússins var breytt árið 1941 bæði Þingholts- og Bankastrætismegin. Viðbygging úr steinsteypu,

8 fermetrar að grunnfleti, var byggð 1937, geymsla baka til við húsið. Í brunamati frá nóvember 1946 segir að verslunar- og íbúðarhúsið sé óbreytt frá mati 1944. Húsið var byggt sem verslunar- og íbúðarhús. Þar bjó fjölskylda Jóns og Þorbjargar og afkomendur þeirra allt til fjórða ættliðs. Oft var einhver hluti hússins leigður út, þá oftast herbergi sem einstaklingar bjuggu í. (Heimildir: Lögrjetta, 8. febrúar 1911, bls. 1. Fjallkonan, 7. febrúar 1911, bls. 1. Reykjavík 4. febrúar 1911. bls. 22. Þjóðólfur, 3. febrúar 1911 bls. 19. Morgunblaðið- fasteignablað- Þingholtsstræti 1, 29. janúar 2002, grein Freyju Jónsdóttur. Heimildir hennar eru: Borgarskjalasafn, afmælisrit Sláturfálags Suðurlands og viðtöl við afkomendur Jóns Þórðarsonar og Þorbjargar Gunnlaugsdóttur).

Afhending: Þórður Sævar Jónsson 25. maí 2016.

Innihald: Bréf, skjöl, sjóðbækur, bókhald o.fl.

Tími: 1846-1973.

Magn: 12 öskjur og 11 bókhaldsbækur.

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn E-597 Verslun Jóns Þórðarsonar (1891-1959)
Flokkun
Flokkur Fyrirtæki
Útgáfuár 2016
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð Bankastræti 10, Þingholtsstræti 1, Þórður L. Jónsson, Laugavegur 81, pylsugerð, kjötbúð, gjafavara,