Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Verslunin O. Ellingsen |
Númer | E-306 |
Lýsing | Árið 1903 flutti Norðmaðurinn og skipasmiðurinn Othar Ellingsen til Íslands, til að taka við starfi framkvæmdastjóra Slippfélagsins í Reykjavík, sem þá var nýstofnað. Á næstu árum, við þröng og erfið skilyrði, tókst honum að byggja upp rekstur og starfsemi fyrirtækisins. Í starfi sínu þurfti Othar að flytja ýmis tæki og tól til landsins sem tengdust starfseminni, en svo fór að árið 1916 stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, og var meginhlutverk þess að sérhæfa sig í sölu á veiðarfærum og öðru því er tengdist útgerð. Fyrirtækið varð brátt vel metið og eignaðist stóran og tryggan hóp viðskiptavina um land allt, og víða erlendis. Mátti það að mestu þakka einstökum mannkostum stofnandans, en hann þótti ákaflega heiðarlegur og traustur í viðskiptum og ekki síst duglegur og eljusamur. Árið 1934 lét Othar af starfi og við tók sonur hans og alnafni, Othar Ellingsen. Hann stýrði fyrirtækinu í 58 ár, eða til ársins 1992, en þá tók sonur hans, Óttar Ellingsen, við. Vorið 1956 var verslunin stækkuð, og flutti þá veiðarfæra- og vinnufatadeildin í nýtt húsnæði á horni Pósthússtrætis og Tryggvagötu. Árið 1972 keypti Ellingsen h. f. fyrrum fiskverkunarhús Alliance ásamt lóð í Ánanaustum og byggði þar verslunaraðstöðu á um 1500 fermetrum. Þangað voru höfuðstöðvar og verslun flutt í húsnæði að Grandagarði 2, 1974, þar sem Ellingsen, verslun athafnamannsins, var til húsa fram til loka maí 2006. Að jafnaði voru um 8000 vörutegundir á lager sem keyptar voru frá yfir 250 erlendum aðilum og um 60 innlendum framleiðendum. Reksturinn gekk vel lengi framan af, en þrátt fyrir mikla viðskiptavild og trausta ímynd var síðasti áratugur tuttugustu aldarinnar fyrirtækinu erfiður. Til að freista þess að bæta reksturinn var meðal annars ráðist í að kaupa Víraþjónustu Ingvars og Ara árið 1992 og bæta þannig þjónustu og auka möguleika til stækkunar.Þáttaskil urðu í rekstrinum árið 1999, er Ellingsen-ættin seldi allt hlutafé til Olíuverslunar Íslands. OLÍS-búðin við Ármúla var þá sameinuð verslun Ellingsen en að öðru leyti starfaði fyrirtækið í óbreyttri mynd. Starfsemin var endurskipulögð og kapp lagt á að endurheimta hina fornu frægð verslunar Ellingsen. Í því augnamiði voru Ellingsen og Sandfell hf., sameinuð í eitt fyrirtæki í desember árið 2000, og á vormánuðum 2001 keypti Ellingsen hluta af starfsemi Geira hf. Sandfell var stofnað árið 1964 og starfaði á sama markaði og Ellingsen; seldi útgerðar- og rekstarvörur fyrir sjávarútveginn. Frá Geira hf. komu aðallega björgunar- og neyðarvörur en einnig Zodiac-slöngubátar ásamt öðru. |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-306 Verslunin O. Ellingsen (1916) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Fyrirtæki |
Útgáfuár | 2007, 2012. |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | verslun, veiðarfæri, Hafnarstræti 15, Othar Ellingsen, útgerð, Grandagarðar 2, Fiskislóð 1. |