Borgarbókasafn Reykjavíkur

Nánari upplýsingar
Nafn Borgarbókasafn Reykjavíkur
Númer H6200
Lýsing

Aðalsafn var opnað í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, þann 8. september 2000. Safnið er þar í sambýli við Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Í næsta húsi, Hafnarhúsinu er Listasafn Reykjavíkur. 

Aðalsafn Borgarbókasafns er á fyrstu, annarri og fimmtu hæð Grófarhúss. Þar er góð aðstaða fyrir almenning til að lesa og leita sér upplýsinga og afþreyingar. Á safninu er einnig fjöldi tölva ætlaður gestum og heitir reitir.

Afgreiðsla safnsins og sjálfafgreiðsluvélar eru á fyrstu hæðinni. Þar er einnig upplýsingaþjónusta.

Artótekið er á 1. hæðinni en þar er hægt að leigja eða kaupa listaverk eftir samtímalistamenn.

Á Reykjavíkurtorgi er tilvalið að njóta sýninga á verkum listamanna Artóteksins og annarra og setjast niður og lesa dagblöð, tímarit eða bækur yfir kaffibolla.

Íslensk og erlend skáldrit og hljóðbækur eru á annarri hæð safnsins og þar er einnig upplýsingaþjónusta.

Barnadeild safnsins er á annarri hæð. Þar er hægt að lesa, skoða, spila og spjalla auk þess sem þar er sérhannað pláss fyrir yngstu gesti safnsins. Frá september fram í maí er boðið upp á dagskrár fyrir börn á sunnudögum kl. 15.00. Hægt er að panta sögustundir og safnkynningar fyrir hópa í barnadeildinni.

Á annarri hæð er góð aðstaða fyrir ungt fólk. Þar eru m.a. teiknimyndasögur í úrvali, bæði á íslensku og erlendum málum, tímarit og bókakostur sem höfðar til ungs fólks. Á sumrin stendur safnið fyrir ritsmiðjum þar sem ungu fólki er leiðbeint við að skrifa og yrkja.

Fræðibækur, fræðitímarit og -gögn eru á fimmtu hæðinni og þar er jafnframt aðalupplýsingaþjónusta safnsins.

Tón- og mynddeild er einnig á fimmtu hæð. Þar eru geisladiskar, hljómplötur, nótur, myndbönd og mynddiskar auk bóka og tímarita um tónlist og kvikmyndir. Síðast en ekki síst eru þar handbækur um efnið sem hægt er að nota á staðnum. Einnig er ágæt aðstaða til að hlýða á tónlist í safninu.

Útibú Borgarbókasafns eru: Ársafn, Foldasafn, Kringlusafn, Sólheimasafn, Bókabíllinn Höfðingi og Sögubílinn Æringi.

Skrá yfir söguleg skjöl Borgarbókasafns Reykjavíkur er skrá yfir skjöl safnsins sem ekki eru lengur í daglegri notkun en varðveita á til frambúðar. Þau eru frá árunum 1873 – 2001 u.þ.b. Elst eru eintök af gömlu útgefnu efni frá 1873 til 1918 sem ástæða þótti til að taka með. Skjölin eru geymd í 37 skjalakössum, 103 bókapökkum og 11 hólkum í Borgarskjalasafni. Ýmsum bókum eins og aðfangabókum og gestabókum af lessal var pakkað í brúnan pappír vegna þess að þær voru of stórar fyrir skjalakassana. Þær voru númeraðar og kallast pakkar í geymsluskránni. Ein bók er í hverjum pakka. Teikningar, veggspjöld og fleira var geymt í ströngum eða hólkum. Þetta efni er haft áfram í hólkunum og eru þeir númeraðir og nefnast hólkar í geymsluskrá.

Í skránni er efnisorðum raðað í stafrófsröð, tímabil tilgreind og vísað í númer sem tákna skjalakassa-, pakka- eða hólksnúmer. Notendum skrárinnar skal sérstaklega bent á færsluna „Ýmis bréfaskipti og gögn”. Hún tekur til skjala sem ekki voru efnisflokkuð og spannar því ýmislegt efni. Allar skjalamöppur í skjalakössunum eru merktar með númeri viðkomandi skjalakassa. Gæta skal þess vandlega að setja skjalamöppur í sama kassa aftur að aflokinni notkun.

Tvenns konar tilvísanir eru notaðar í skránni, þ.e. sjá og sjá einnig, í þeim tilgangi að auðvelda notendum að finna tiltekin atriði í skránni.

Eftirtaldir aðilar hafa eintak af Skrá yfir söguleg skjöl Borgarbókasafns Reykjavíkur, 2. útgáfa: Nóvember 2004:

Anna Torfadóttir borgarbókavörður

Umsjónarmaður skjalasafns

Inga Erlingsdóttir deildarfulltrúi

Safnstjórar aðalsafns, Kringlusafns, Foldasafns, Gerðubergssafns, Sólheimasafns og Ársafns

Borgarskjalasafn Reykjavíkur

Auk þess er eitt öryggiseintak af skránni í skjalakassa nr. 1.

Öllum eintökum af eldri útgáfu skjalaskrárinnar skal eytt um leið og ný útgáfa hefur verið útbúin.

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn Borgarbókasafn Reykjavíkur
Flokkun
Flokkur Opinber skjöl
Útgáfuár 2004, 2014 og 2018
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð bókasöfn, menningarmál,