Hagaskóli

Nánari upplýsingar
Nafn Hagaskóli
Númer K2155
Lýsing

Hagaskóli tók til starfa í hluta núverandi húsnæðis 1. október 1958. Skólinn er beint framhald skóla þess er nefndist Gagnfræðaskólinn við Hringbraut, og var í leiguhúsnæði að Hringbraut 121. Sá skóli tók til starfa 1. október 1949. Hagaskóli var byggður í áföngum 1956 - 1963. Byggingaframkvæmdir hófust að nýju veturinn 1988 - 1989. Byggð var ný álma meðfram Dunhaga með 7 kennslustofum. Skólastjóri var Árni Þórðarson. Skólinn átti að taka við nemendum sem lokið hefðu barnaprófi í Vesturbænum og skila þeim frá sér eftir landspróf eða gagnfræðapróf. Húsnæðið var átta kennslustofur fyrstu árin og skólinn tvísetinn. Samkomusalur skólans var reistur 1959-60 og síðan hófst mikil framkvæmdalota er stóð í þrjú til fjögur ár. Var þá fullbyggt það húsnæði sem snýr að Fornhaga.

Ný skólastofnun tók á sig mynd í nýreistu húsi. Þessari stofnun var ætlað að uppfræða og leiða ungt fólk á mesta breytingarskeiði ævinnar. Árni Þórðarson lét af skólastjórn sumarið 1967 en Björn Jónsson tók við. Skólinn var troðfullur af nemendum og við talningu 1969 reyndust nemendur vera um 850.

Árið 1975 var loks hægt að einsetja Hagaskóla. Skömmu síðar eignaðist skólinn eigið kennslueldhús og myndarlegt íþróttahús var reist. Má þar með segja að skólinn hafi verið kominn í gott jafnvægi, með þokkalega aðstöðu og hóflegan nemendafjölda, 450-600 manns.

Efnahagur þjóðarinnar batnaði með hægð og þar með breyttust viðhorf og kröfur. Tími hinna stóru bekkjardeilda var brátt liðinn og þróunin krafðist sérgreinastofa og betra rýmis. Vað því byggð viðbótarálma við Dunhagann.

Björn Jónsson lét af skólastjórn sumarið 1994 og Einar Magnússon tók við og stýrði skólanum til 2007 er Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir tók við. Aðstoðarskólastjóri frá 2008 er Ómar Örn Magnússon.

Hagaskóli er þátttakandi í Olweusaráætlun gegn einelti, er heilsueflandi grunnskóli, tekur þátt í erlendu samstarfi og m.a. Comeníusar verkefni. Vinátta, virðing, jafnrétti er stórt þróunarverkefni þar sem Góðgerðardagurinn, Gott mál – unglingar fyrir unglinga er áberandi en markmið hans er að stuðla að aukinni samvinnu og samkennd meðal allra nemenda skólans. Í Hagaskóla er lögð áhersla á fjölbreytta kennsluhætti og námsmat. Þemadagar eru haldnir á hverju skólaári. Gott samstarf er milli skóla og frístundar í Vesturbænum sem kristallast í Vesturbæjarfléttunni og Hagaskóli er í samstarfi við Vesturgarð, KR, kirkju og hverfislögreglu. Samstarf utan hverfis er m.a. við Borgarbókasafnið, Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Öflugir foreldrar eru mikill styrkur og viðhorf þeirra til skólans og skólastarfs eru mjög jákvæð. Mötuneyti er í Hagaskóla þar sem allir geta keypt heita máltíð í hádeginu og er nemendum skólans boðið að fá hafragraut á hverjum morgni.

Félagslíf nemenda er í miklum blóma og hafa nemendur skólans náð umtalsverðum árangri í viðureign við aðra skóla á ýmsum sviðum s.s. spurningakeppni, hæfileikakeppni og ræðukeppni Grunnskólanna, Skólahreysti, stærðfræðikeppnum svo fátt eitt sé nefnt. Leiklistarhefð á sér langa sögu og á allra síðustu árum hefur hún þróast í söngleikjauppfærslur sem hafa notið mikilla vinsælda.

Ekkert bendir til annars en að skólinn haldi áfram að þróast og dafna enda hefur hann á að skipa dugmiklum og áhugasömum nemendum og starfsmönnum. Skólaárið 2011-2012 stunduðu 430 nemendur nám við Hagaskóla og starfsmenn skólans voru 57. Formáli: Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri

Skrá yfir gögn afhent í júní 2012 af Sesselju Ingibjörgu Jósefsdóttur skólastjóra.

Tímabil: 1942-2007.

 

 

Skjalaskrá
Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn Hagaskóli
Flokkun
Flokkur Opinber skjöl
Útgáfuár 2012
Útgefandi Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Leitarorð menntamál, grunnskólar, nemendur, kennarar, Gagnfræðaskóli Reykjavíkur, Gagnfræðaskólinn við Hringbraut, Gagnfræðaskóli Vesturbæjar, Hagahverfi.