Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Hlíðaskóli |
Númer | K2180 |
Lýsing | Hlíðaskóli er staðsettur við Hamrahlíð 2 í Reykjavík. Hann er heildstæður grunnskóli, þar er 1–10. bekkur. Rúmlega fimm hundruð nemendur stunda þar nám í tuttugu og fimm bekkjardeildum. Hlíðaskóli skilgreinir sig sem tvítyngdan skóla þar sem íslenska og táknmál heyrnarlausra eiga að vera jafnrétthá. Skólastarf í Hlíðahverfi hófst árið 1954 með kennslu 7-8 ára barna í húsnæði leikskólans við Eskihlíð sem þá var útibú frá Austurbæjarskóla. Ári seinna fékk skólinn nafnið Eskihlíðarskóli. Fyrsti skólastjóri hans var Magnús Sigurðsson. Hafist var handa við byggingu nýs skólahúsnæðis við Hamrahlíð og flutt í fyrsta áfanga þess árið 1960. Skólinn fékk þá nafnið Hlíðaskóli. Sigvaldi Tordarson arkitekt teiknaði skólann sem átti í upphafi að verða stærsti skóli landsins og rúma 1700 – 1800 nemendur. Magnús Sigurðsson gegndi störfum fram til ársins 1969 en þá leysti Ásgeir Guðmundsson hann af hólmi. Ásgeir var skólastjóri Hlíðaskóla til ársins 1980 ef frá eru talin árin 1972-1974 en þá var Ásgeir í námsleyfi og gegndi Áslaug Friðriksdóttir starfi skólastjóra á meðan. Árni Magnússon var skólastjóri frá 1980 til 2003. Núverandi skólastjóri, Kristrún Guðmundsdóttir tók við störfum 1. ágúst 2003. Fyrstu árin voru tæplega 200 börn í skólanum en þeim fjölgaði ört. Flest urðu þau veturinn 1964–1965 eða 1321 alls. Árið 1974 var stofnuð deild hreyfihamlaðra við skólann og var hún starfrækt um margra ára skeið, deildin hefur verið lögð niður. Árin 1972–1980 var deild fyrir heyrnarskert börn starfrækt við skólann og árið 1977 var stofnuð málörvunardeild sem þjónaði öllu landinu. Kennsla fyrir málhömluð börn fer enn fram við skólann en deildin er með breyttu sniði frá því áður var. Árið 1981 var reist íþróttahús við Hlíðaskóla. Haustið 1991 var hafist handa við byggingu nýs áfanga við skólann og var nýtt húsnæði formlega vígt 31. maí 1994, þar fékk skólinn samkomusal auk þess sem nemendur í unglingadeild fengu meðal annars fjórar kennslustofur. Árið 1999 voru Hlíðarskóli og Vesturhlíðarskóli sameinaðir með námslega félagslega blöndun nemenda beggja skólanna í huga. Byggt var 1900 fermetra húsnæði við skólann sem var tekin í notkun árið 2005. Útbúið var sérhannað húsnæði fyrir starfsemi táknmálssviðsins með þeim búnaði sem nauðsynlegur er fyrir kennslu heyrnarlausra. Á fundi fræðsluráðs 13. maí 2002 var samþykkt að Hlíðaskóli og Vesturhlíðarskóli sameinuðust í einn skóla undir heitinu Hlíðaskóli frá og með 1. september 2002. Sameiningin gekk formlega í gildi 1. ágúst 2003. Í Hlíðaskóla er lögð áhersla á að öllum líði vel og temji sér jákvæð viðhorf til sín og annarra, þannig að árangur þeirra verði sem bestur á sem flestum sviðum. Tónlistaruppeldi og umhverfismennt er í háveigum höfð í skólanum. Kjörorð skólans eru ábyrgð, virðing og vinsemd. Tímabil 1955-2004. Afhent Borgarskjalasafni af: Hlíðaskóla í maí 2012 |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | Hlíðaskóli |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Opinber skjöl |
Útgáfuár | 2012 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | menntamál, grunnskólar, nemendur, kennarar, Hlíðahverfi. |