Áhrif Covid 19 og samkomubanns á daglegt líf Reykvíkinga

Covid -19 hefur áhrif á líf fólks um allan heim. Upplifun hvers og eins er mismunandi og veiran hefur valdið miklum breytingum á heimilislífi, atvinnulífi og lífi fólks almennt.

Persónuleg upplifun hvers og eins segir þannig mikla sögu og með ljósmyndun eða skráningu hennar verða til nýir kaflar í heimsögunni. Slíkar heimildir eru ómetanlegar þegar horft er tilbaka í söguna og gefa þær einstaka sýn á líf einstaklinga á þessum tíma.

Borgarskjalasafn biðlar til Reykvíkinga að ljósmynda og skrá niður sína upplifun, reynslu og tilfinningar á þessum óvenjulegum tímum og senda safninu til varðveislu sem innlegg í sögu borgarinnar og áhrif veirunnar á líf og störf borgarbúa.

Til dæmis væri áhugavert að fá frásagnir af lífi fólks á þessum tímum, hvað hefur breyst og hvernig er að upplifa tíma sem þessa? Hvaða breytingar hefur Covid-19 haft á líf þitt t.d. á heimilið - vinnuna - umhverfið - afþreyinguna - hreyfingu?

Skráum og ljósmyndum söguna eins og við upplifum hana og miðlum henni til afkomenda okkar til fróðleiks og lærdóms. Þannig stuðlum við að bættum heimi, því af sögunni lærum við og getum nýtt við þróun framtíðar.

Einstaklingar sem afhenda Borgarskjalasafninu skjöl eða ljósmyndir til varðveislu geta takmarkað aðgang að þeim í ákveðinn tíma, t.d. að þau séu lokuð öllum í ákveðin mörg ár eða að aðgangur sé háður leyfi viðkomandi aðila í ákveðinn tíma.

Sendist sem skilaboð á Facebook Borgarskjalasafns https://www.facebook.com/Borgarskjalasafn/ eða með tölvupósti á borgarskjalasafn@reykjavik.is.

Einnig er hægt að senda ljósmyndir og texta með https://wetransfer.com/

Gjarnan mega fylgja upplýsingar um efnið, meðal annars nafn viðkomandi og annað sem ykkur dettur í hug.

Vinsamlegast tilgreinið ef þið viljið takmarka aðgang að efninu eða að nafn ykkar komi ekki fram við birtingu.