Ásýnd kvenna – við upphaf kosningaréttar

Við upphaf kosningaréttar árið 1915

Opnun 4. júní kl. 16.00 - Opening June 4th at 4 p.m.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur opnar þann 4. júní nk. sýninguna Ásýnd kvenna – við upphaf kosningaréttar á Reykjavíkurtorgi 1. hæð Grófarhús, Tryggvagötu 15. Sýningin er sett upp í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar á Íslandi.

Sýningin byggist á skjölum og ljósmyndum kvenna varðveittum á Borgarskjalasafni Reykjavíkur frá árunum 1910-1920 þegar konur voru að fá kosningarétt og kjörgengi. Ásýnd kvenna er ekki ætlað að rekja sögu kvenna, heldur fremur gefa áhorfandanum tilfinningu fyrir konum og lífi þeirra á þessum tíma. 

Á sýningunni er töluvert af sendibréfum kvenna en þau eru samtímaheimild sem lýsa vel lífi og hugrenningum kvenna og hvað þær voru fást við og að hugsa á þessum árum, þegar þær voru að fá kosningarétt og margháttaðar breytingar voru á samfélaginu. Þá verður á sýningunni beinlínis hægt að heyra raddir kvenna í sendibréfum þeirra.

Ljósmyndirnar hafa flestar komið með skjölum kvenna og þær gefa okkur mynd af formæðrum okkar, bæði uppstilltar myndar af ljósmyndastofum og óformlegri ljósmyndir utandyra. 

Hluti af sýningunni er innsetning Guðrúnar Sigríðar Haraldsdóttur „kven:vera”, sem er unnin með blandaðri tækni með efni og aðferð sem hún hefur þróað í verkum sínum á síðastliðnum árum. Guðrún Sigríður finnur myndrænan efnivið verksins í ljósmyndum og handskrifuðum sendibréfum í sýningunni og leitast við að rýna inn í og undir yfirborð myndefnisins í leit að nánari skilningi og dýpri innsýn í viðfangsefnið. 

Vakin er athygli á því að Guðrún Sigríður er með innsetninguna VERA:KONA:VERA í Tjarnarsal Ráðhúss dagana 30. maí til 22. júní, þar sem sama efni frá Borgarskjalasafni er notað á annað hátt.

Við undirbúning sýningarinnar kom í ljós að mun minna hefur varðveist af sendibréfum, ljósmyndum og öðrum skjölum kvenna frá 20. öld. Borgarskjalasafn tekur þátt í átaki skjalasafna um að vekja athygli á mikilvægi þess að varðveita heimildir um sögu kvenna og hvetur þá sem hafa undir höndum skjöl að hafa samband við starfsmenn safnsins. 

Eins og áður kom fram er sýningin Ásýnd kvenna – við upphaf kosningaréttar á Reykjavíkurtorgi á 1. hæð Grófarhús, Tryggvagötu 15. 

Sýningin stendur frá 4. júní til 12. júlí 2015 og er opin mánudaga til fimmtudaga kl. 10-19, föstudaga kl. 11-18 og um helgar kl. 13-17. 

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.