Birting skjala um sambandsslitin við Danmörku og stjórnarskrármálið

Á vef Borgarskjalasafns um Bjarna Benediktsson hefur nú verið bætt við skjölum úr safni Bjarna sem tengjast aðdraganda sambandsslitanna við Dani, þar á meðal tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum í kjölfar lýðveldisstofnunar en Bjarni tók virkan þátt í undirbúningi að stofnun lýðveldisins. Ennfremur er um að ræða skjöl sem lúta að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins sem fram fór á tímabilinu 1947-1953, meðal annars fundargerðir stjórnarskrárnefndar. Í skjölunum sést að margar framsýnar hugmyndir um ákvæði í stjórnarskránni voru ræddar, meðal annars um mannréttindamál en breytingarnar náðu ekki fram að ganga. Samstaða náðist hins vegar ekki í nefndinni um breytingar á stjórnskipun landsins og lognast starfsemi hennar út af í kjölfarið.

Sambandsslitin við Danmörku og stjórnarskrá lýðveldisins

Endurskoðun stjórnarskrárinnar 1947-1953

Sambandslögin frá 1918 kváðu á um það að danska þingið eða Alþingi gætu hvort um sig krafist endurskoðunar á ríkjasambandinu eftir árslok 1940 að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í kjölfar þess að Þjóðverjar hernámu Danmörku þann 9. apríl 1940 tóku Íslendingar utanríkismálin í sínar hendur. Mánuði síðar var Ísland hernumið af Bretum. Vorið 1941 lýsti þingheimur því yfir að Ísland hefði öðlast rétt til sambandsslita sökum þess að Danir væru ekki í stakk búnir til að fara með þau mál Íslendinga sem kveðið var á um í sambandslagasamningnum og yrði hann því ekki endurnýjaður. Ríkisstjóri skyldi kosinn af Alþingi til að fara með æðsta vald í málefnum ríkisins og stefnt skyldi að lýðveldisstofnun í kjölfar formlega sambandsslita við Danmörku.

Þann 22. maí 1942 kaus Alþingi fimm manna milliþinganefnd til þess að „að gera tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum ríkisins í samræmi við yfirlýstan vilja Alþingis um, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi“. Í nefndinni sátu: Gísli Sveinsson, sem jafnframt var formaður, Bjarni Benediktsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Jónas Jónsson og Hermann Jónasson. Uppkast að frumvarpi um nýja stjórnarskrá var tilbúið um miðjan júlí, en ekki þótti ráðlegt að leggja það fram að svo stöddu þar eð Bretar og Bandaríkjamenn voru andsnúnir því að hraða viðskilnaðinum við Dani. Áformin mættu einnig nokkurri andstöðu innanlands.

Haustið 1942 var samþykkt þingsályktunartillaga um fjölgun nefndarmanna úr fimm í átta í stjórnarskrárnefndinni og áttu þá allir þingflokkar tvo fulltrúa í nefndinni. Eftirtaldir voru tilnefndir til viðbótar í nefndina: Áki Jakobsson, Einar Olgeirsson og Haraldur Guðmundsson. Í apríl 1943 skilaði nefndin forsætisráðherra áliti og frumvarpi að stjórnarskrá sem lagt var fyrir Alþingi Íslendinga. Þann 8. mars 1944 samþykkti Alþingi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem tók gildi þann 17. júní 1944, á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar. Þar með varð Ísland að lýðveldi með þingbundinni stjórn og þjóðkjörnum forseta.

Minnispunktar Bjarna Benediktssonar varðandi stofnun lýðveldis á Íslandi frá 30. nóv. 1943

Árið 1942 kaus Alþingi fimm manna milliþinganefnd til þess að gera tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum vegna lýðveldisstofnunarinnar. Þegar því starfi lauk var nefndinni falið að starfa að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins frá 17. júní 1944. Vorið 1945 skipaði Alþingi 12 manna nefnd til þess að vera milliþinganefndinni til ráðgjafar og aðstoðar í stjórnarskrármálinu.

Þann 14. nóvember 1947 var skipuð ný sjö manna stjórnarskrárnefnd og féllu þá niður umboð fyrri nefnda. Í nefndina völdust Bjarni Benediktsson, Einar Olgeirsson, Gunnar Thoroddsen, Gylfi Þ. Gíslason, Halldór Kristjánsson, Jóhann Hafstein og Ólafur Jóhannesson. Vorið 1952 sagði Halldór Kristjánsson sig úr nefndinni og kom Karl Kristjánsson í hans stað. Á fundi stjórnarskrárnefndar 18. nóvember 1952 lagði formaður nefndarinnar, Bjarni Benediktsson, fram tillögur í tuttugu liðum um breytingar á stjórnarskránni sem gerðar höfðu verið af Bjarna, Gunnari Thoroddsen og Jóhanni Hafstein. Í ársbyrjun 1953 sagði Ólafur Jóhannesson sig úr nefndinni. Stuttu síðar lagði Karl Kristjánsson fram nýjar tillögur í stjórnarskrármálinu. Samstaða náðist hins vegar ekki í nefndinni um breytingar á stjórnskipun landsins og mun starfsemi hennar hafa lognast út af í kjölfarið.

Í einkaskjalasafni Bjarna gefur meðal annars að líta fundargerðir stjórnarskrárnefndar árið 1948. Þar er einnig vélritað uppkast með breytingartillögum Bjarna Benediktssonar, Gunnars Thoroddsen og Jóhanns Hafstein að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands ásamt handskrifuðum athugasemdum. Einnig er um að ræða nafnlaust uppkast er varðar tillögur í stjórnarskrármálinu, ásamt greinargerð. Enn fremur hefur safnið að geyma athyglisvert skjal frá mannréttindanefnd þar sem meðal annars er lagt til að jafnrétti kynjanna verði tryggt í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þar kemur fram að Auður Auðuns og Elísabet Eiríksdóttir voru á meðal fjögurra nefndarmanna.

Nú er unnið að skráningu á einkaskjalasafni Bjarna Benediktssonar og mun það verða opnað til rannsókna á fyrri hluta árs 2009.

(Heimild: „Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar“. Unnið að beiðni nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands (Desember 2005) http://www.stjornarskra.is)