Borgarskjalasafn á menningarnótt 2011

Borgarskjalasafn verður með opið hús á menningarnótt laugardaginn 20. ágúst nk. kl. 13 til 19. Boðið verður upp á sýninguna Kvenfrelsi og framfarir í Reykjavík og gestum gefst kostur á að fræðast um safnið og safnkostinn. Sérstakt litahorn verður fyrir börnin og boðið upp á blöðrur fyrir þau.

Á sýningunni Kvenfrelsi og framfarir í Reykjavík á árunum 1908 til 1916 er varpað ljósi á líf íslenskra kvenna fyrir einni öld síðan. Markmið sýningarinnar er að endurspegla i almenn kjör og aðstæður kvenna á þessum tíma með skjölum, ljósmyndum og textum.

Konur á úthjara veraldar brutu blað í hnattsögunni með því að skipuleggja framboð til bæjarstjórnarkosninga í höfuðborginni og hljóta bestu kosningu allra lista árið 1908. Kvennalistinn hlaut 21,8% atkvæða ogfékk fjóra bæjarfulltrúa kosna.

Reykjavík var ungur bær í örri þróun á þessum árum. Íbúafjöldi Reykjavíkur nærri þrefaldaðist á árunum 1901-1920. Rauði þráðurinn í sýningunni er stjórnmálaþátttaka kvenna í bæjarstjórn Reykjavíkur á árunum 1908-1916. Á sýningunni er að finna fjölda skjala og ljósmynda, sem ekki hafa áður verið til sýnis, um þekktustu konur bæjarins, almenna atvinnuþáttöku kvenna og kjör þeirra, framlag til menningar og lista, lýðfræðilega þróun bæjarbúa og helstu framfararmál bæjarins eins og lagningu gasleiðsla í heimahús, byggingu Reykjavíkurhafnar og vatnsveitu, svo eitthvað sé nefnt. Þá er fjallað um konur í bæjarstjórn 1908 og helstu baráttumál kvenna í bæjarstjórn á þessum árum.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur er einstaklega vel í stakk búið til þess að greina frá störfum bæjarstjórnar Reykjavíkur og lífi almennings á þessum árum, þar sem það varðveitir heilstætt safn skjala frá þessum tíma. Sýningin samanstendur af átta sýningarkössum með skjölum og munum og var hún unnin af Hrafni Malmquist.

Sýningin verður opin á Menningarnótt laugardaginn 20. ágúst frá kl. 13 til 19 og í framhaldi af því virka daga mánudag til föstudags kl. 10 til 16. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Hrafn Malmquist verður með leiðsögn um sýninguna á menningarnótt 20. ágúst kl. 16.

Vonast er til að sem flestir líti við á Borgarskjalasafni á Menningarnótt, en það er sem kunnugt er til húsa í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15 í Reykjavík.