Borgarskjalasafn á menningarnótt laugardaginn 24. ágúst

Borgarskjalasafn verður með opið hús frá kl. 13-18 á menningarnótt 2013 laugardaginn 24. ágúst. Fjölbreytt dagsrká verður að vanda. Að þessu sinni tengist þemað börnum og leikjum barna. Sýning verður um leiki barna, einföld getraun og börnum boðið upp á að föndra og lita, meðal annars að gera grímur.

Sýning safnsins fjallar um leiki barna og sýnir vel hversu fjölbreytt efni berst með einkaskjalasöfnum frá einstaklingum. Meðal annars er umfjöllun um knattspyrnulið í Reykjavík, Leikbrúðuland og skuggaleikhús, Matador og dúkkulísur.

Leiðbeinandi í grímugerð kl. 15.30-17.30 er Kristín Arngrímsdóttir myndlistarmaður og safnið býður upp á föndurefni. Starfsmenn verða á staðnum og svara spurningum um Borgarskjalasafn og starfsemi þess.

Borgarskjalasafn leitar til almennings á menningarnótt með að greina ljósmyndir í safni Hjólreiðafélags Reykjavíkur, en skjöl þess eru varðveitt á safninu. Tilvalið að koma og skoða myndirnar og kanna hvort þú þekkir einhvern á myndunum. Boðið er upp á það kl. 13.30-15.30.

Borgarskjalasafn sýnir barnakvikmyndina Stikkfrí í fundarherbergi. Stikkfrí er íslensk fjölskyldumynd eftir Ara Kristinsson. Hún fjallar um tvær ungar stelpur sem ræna óvart ungu barni sem þær voru að passa. Hægt að setjast niður og horfa á alla myndina eða líta við og horfa á hluta hennar.

Borgarskjalasafn hefur áhuga á að fá skjalasöfn einstaklinga á öllum aldri til varðveislu og er þar til dæmis um að ræða sendibréf, dagbækur, vinnubækur og ljósmyndir. Þótt safnið sækist ekki sérstaklega eftir munum gefa þeir oft skemmtilega mynd af tíðaranda þeim sem börnin ólust upp við.

Á Facebook síðu Borgarskjalasafns munu birtast nýjustu upplýsingar um menningarnótt á safninu og sömuleiðis ljósmyndir.

Sjá: www.facebook.com/borgarskjalasafn